Dýraþjónusta Reykjavíkurborgar raungerist
Á síðasta kjörtímabili var gagnrýni hundaeigenda á fyrirkomulag málefna hundahalds hjá borginni áberandi og þar tókust samtök þeirra á við hundaeftirlitið um áherslurnar og hvernig hundagjöldin eru nýtt. Meðal þess sem kom fram hjá þeim var sú staðreynd að margir hreinlega sleppa því að skrá hundana sína af því að ávinningurinn af því er óljós.
Mín tilfinning var sú að rót vandans væri að finna í úreltu fyrirkomulagi þar sem borgin er bara að einblína á gæludýr sem eitthvað sem þarfnast eftirlits (kettir tilheyra meira að segja meindýraeftirlitinu(!)) - þegar eina tólið er hamar þá verður allt að nöglum. Engum um að kenna í sjálfu sér en kerfið væri bara úrelt. Þarna þyrfti þá kerfisbreytingu í formi þess að stofna sérstaka Dýraþjónustu, sameina allt sem tengist dýrahaldi undir hana og efla hana sem þjónustueiningu við gæludýraeigendur. Í stað þess að reyna að laga núverandi kerfi að þörfum fólks þá þyrfti að umbylta kerfinu algjörlega í átt að þörfum nútímans.
Ég lagði þessa hugmynd inn í stefnumótunarvinnu Pírata í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Þetta skilaði sér í stefnu sem gerð voru skemmtileg skil í umfjöllun Vísis þar sem algjör sérstaða Pírata í borginni í þessum málaflokki kom skýrt fram. Þetta rataði síðan inn í meirihlutasáttmála og nú hefur stýrihópur á vegum umhverfis- og heilbrigðisráðs skilað af sér skýrslu þar sem málið er kortlagt og kjöt sett á bein þessarar hugmyndar um Dýraþjónustu Reykjavíkurborgar. Þetta er sumsé að fara að gerast, sem er alveg magnað og það verður spennandi að sjá áhrifin af þessari kerfisbreytingu.
Af þessu má læra að:
1) Þú getur haft áhrif með þátttöku í pólítík.
2) Það getur hins vegar tekið tíma að sjá áhrifin gerast.
3) Þú þarft ekkert endilega að juðast í því persónulega alla leið að klára málið ef hugmyndin er góð og jarðvegurinn er frjór.
En fyrst og fremst er þetta náttúrulega bara frábært fyrir dýrin og fólkið sem elskar þau.
Athugasemdir