Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Að taka umræðuna

Að taka umræðuna

Þriðja Covid-bylgjan stendur nú yfir og hún er nú þegar búin að taka fram úr þeirri fyrstu. Aftur er búið að grípa til strangra takmarkana á samkomum og við hafa bæst tilmæli um grímunotkun þannig að nú er orðið vanalegt að sjá fólk ganga um með grímur.

Eðlilega er komin þreyta í okkur mörg og því fylgir meðal annars að spurningar um hvort nauðsynlegt sé að fara út í fyrirbyggjandi aðgerðir, eða hvort það þurfi að fara út í alveg svona miklar aðgerðir, eru háværari en áður. Það virðist til dæmis vera óformleg ritstjórnarstefna Fréttablaðsins að vera gagnrýnin á aðgerðir; nánast daglega birtast þar leiðarar eftir mismunandi pistlahöfunda sem eru á þeim nótum. Hluti þingmanna er líka að taka þátt í orðaskaki á opinberum vettvangi og spyrja út í tilgang og nauðsyn aðgerðanna, út frá því að það sé verið að fórna meiru en ávinnst.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt og göfugt að vera gagnrýninn og ekki síst þegar kemur að inngripum sem skerða frelsi fólks verulega. Að mínu mati er hins vegar munur á gagnrýni sem byggist á efnislegum rökum og almennum efasemdum út í loftið. Mér finnst mest af því sem ég hef séð falla í síðari flokkinn, mikið talað um að hitt og þetta hljóti nú bara að vera en lítið er vísað í haldgóðar upplýsingar. Hin efnislegu rök fyrir því að inngrip eru nauðsynleg þykja mér nefnilega í raun ansi einföld og auðskiljanleg. Þríeykið fór núna í vikunni vel yfir þau í grein í Fréttablaðinu - óheft útbreiðsla veirunnar myndi lama heilbrigðiskerfið og valda almennu raski á samfélagslegum innviðum með tilheyrandi skaða. Sú ákvörðun ríkja um nánast allan heim að fara þá leið að grípa til frelsisskerðandi ráðstafana til að hefta útbreiðsluna byggist þannig á sviðsmyndagreiningum sérfræðinga sem sýna fram á að þegar upp er staðið er það skaðaminnsta leiðin.

Það kann að vera freistandi að ímynda sér að hægt sé að fara einhverja leið C), sem er minni aðgerðir en samt takmarkaður skaði af útbreiðslu veirunnar en það væri þá ágætt að sjá almennilegan rökstuðning fyrir því að það sé raunhæf sviðsmynd. Sérstaklega frá kjörnum fulltrúum sem eru beinlínis í vinnu við að kynna sér þessi mál og taka ákvarðanir út frá bestu fyrirliggjandi upplýsingum. Þetta mál verður ekki leyst í færslum á Facebook og kjörnir fulltrúar eru með miklu betri leiðir til þess að kynna sér málin en þá að taka umræðuna á netinu. Þarna finnst mér mikill munur á þeim og einhverju fólki úti í bæ eða fjölmiðlafólki. Að sjálfsögðu gildir þetta líka um þá hlið sem snýr að því að vernda réttindi fólks fyrir mögulegum yfirgangi og misnotkun á ástandinu - kjörnir fulltrúar þurfa að vera vel vakandi fyrir því og sinna eftirlitshlutverki sínu en það er þá líka vinna sem fer fyrst og fremst fram á öðrum vettvangi en samfélagsmiðlum. Mér fannst það til að mynda góð ábending frá Mannréttindaskrifstofu Íslands að enn hefur Ísland ekki komið sér upp sjálfstæðri mannréttindastofnun í samræmi við Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna frá 1991 þannig að þingmenn sem er umhugað um mannréttindi á þessum krefjandi tímum hafa þarna þá allavega eitt verkefni til að vinna að.

Pólitík snýst stundum um erfiðar ákvarðanir þar sem engin ákvörðun er góð en það er samt í boði skásta ákvörðun og Covid-faraldurinn virðist vera mjög skýrt dæmi um slíkan veruleika. Það er freistandi þykjast geta stytt sér leið og tekið góða ákvörðun með því að einfaldlega sleppa því að horfast almennilega í augu við þær sviðsmyndir sem eru í boði en fyrir mér eru kjörnir fulltrúar sem tala á þeim nótum bara hreinlega ekki ennþá búnir að vinna heimavinnuna sína. Eða þá kannski að þeim finnist það eitthvað sérstakt keppikefli að vera ósammála sérfræðingum bara til að vera ósammála þeim.

Sumsé í stuttu máli: Gerum betur takk, sýnum ástandinu þá virðingu sem alvarleiki þess krefst.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni