Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ykkur skal blæða

Menntastefna landsins er núna keyrð áfram á engu öðru en skriðþunganum. Menntamálaráðherrann segir ekki orð. Honum kemur þetta eiginleg ekkert við. Hann hefur enga menntastefnu. Fótgönguliðar fyrrverandi menntamálaráðherra sjá um allt. Hægri hönd Illuga, Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar er líklega sá maður sem næst kemst því að vera raunverulegur ráðherra menntamála á landinu.

Það hefur verið tekin ákvörðun um megrun í menntamálum hér næstu árin. Það á að halda áfram að skera fitu af skepnu sem er við það að falla úr hor. Ekkert á að gera til að umbylta menntakerfinu svo það geti mætt kröfum nýrrar aldar. Það á að nægja að svínbeygja menntakerfið undir gamaldags mælikvarða og markmið – síðan ætla menn að sitja í myrkrinu og njóta þess að hlusta á bergmál eigin raddar.

Iðn- og verknám þarf að efla mjög mikið ef við ætlum að eiga einhverja möguleika á því að vera forystuþjóð í hinum stafræna heimi. Slíkt nám er hér meira og minna í molum. Í fyrsta lagi vegna þess að á menntakerfinu er mikil og alvarleg slagsíða í átt til bóknáms – en líka vegna þess að menntakerfið er vanfjármagnað og illa endurnýjað. 

Í stað þess að leiða hina bráðnauðsynlegu byltingu ætlar hið opinbera að losa sig meira og minna við ábyrgð sína á verk- og tækninámi. Búið er að gefa Iðnskólann í Hafnarfirði og nú á að gefa Fjölbrautaskólann í Ármúla. Maðurinn sem fengin var til að stýra fyrrnefnda skólanum hratt og örugglega í faðm atvinnulífsins stjórnar núna Borgarholtsskóla en sú stöðuveiting byggði einungis á geðþótta stjórnmálamanna.

Með því að gefa vinnustað fjölda kennara að þeim forspurðum er mögulegt fyrir ríkið að losa sig undan margvíslegri ábyrgð. Þannig er ekkert sjálfgefið við það að þeir kennarar sem áður unnu hjá Iðnskólanum í Hafnarfirði eða vinna nú í FÁ njóti sömu lífeyriskjara eftir gjafagjörningana.

Utan um þetta rammast auðvitað fullkomin svik við framhaldsskólanna. Það var með gerræði að nemendum í framhaldsskóla var fækkað verulega á síðustu árum. Margar heimskulegar og vondar ákvarðanir lágu til grundvallar því. Logið var að framhaldsskólafólki að ekki væri verið að reyna að spara – nú ætti að hagræða til að geta aukið gæði framhaldsskólanáms og skapað þar stöðugleika. Nú er orðið ljóst að tilgangurinn er sá einn að spara.

Eða það hefði maður haldið, miðað við áætlanir ríkisstjórnarinnar í þessum málum.

Málið er samt ekki alveg svona einfalt.

Ástæða þess að framhaldsskólanum er ekki ætlað nægt fé næstu misserin gæti allt eins helgast af því að kjarasamningar framhaldsskólakennara eru lausir á þessu ári. Hér hefur nefnilega verið notuð síðustu misseri alveg ótrúleg herkænska þegar kemur að launakjörum. Á þetta við um flestar opinberar stéttir.

Ég sagði frá því hvernig samband sveitarfélaga hefði beðið sveitarfélög um allt land að gera engar áætlanir um bætt kjör grunnskólakennara þegar setið var við samningaborðið síðast. Þvert á móti voru skilaboðin þau að launahækkanirnar yrðu að svíða. Það yrði að gera vanáætlanir um kostnað og höggva síðan í grunnþjónustuna þegar ljóst yrði um hvað yrði samið. Dyggasti klerkur klíkunnar tók sitt hefðbundna sóló af þessu tilefni og sagði að íþróttaæfingar barna væru í hættu vegna launahækkana kennara.

Allir vissu að sveitarfélögin voru að sigla inn í góðæri með ágætum tekjuafgangi. Mörg þeirra höfðu meira að segja reiknað með tug- eða hundruða milljóna afgangi.

Það breytti engu um það að afganginn mátti ekki undir neinum kringumstæðum nota til að bæta kjör starfsmanna sveitarfélagsins. Bætt kjör yrðu helst að vera borguð með blóði borgaranna, óþægindum og fórnum. 

Það er enda svo að hið opinbera notar óvinsældir starfsmanna sinna sem gjaldmiðil í því stríði sem það hefur efnt til á hendur þeim.

Nú hefur framhaldsskólinn verið mjög rækilega og alvarlega vanáætlaður á öllum áætlunum. Það mun tryggja að tæring kerfisins heldur áfram – en það mun líka tryggja að ríkið þykist hafa bakið upp við vegg þegar kemur að kjarasamningsgerð næsta haust.

Komist ríkið ekki upp með að beita lögum eða öðru ofbeldi til að standa í vegi fyrir kjarabótum mun það að minnsta kosti gera sitt besta til að tryggja að bótum fylgi þjáning. Þannig væri til dæmis alveg kjörið að stilla málum þannig upp að ekkert verði af lækkun lyfjakostnaðar hjá fársjúku fólki vegna þess að bæta þurfi í framhaldsskólann.

Hér á landi eru stunduð skítastjórnmál. Tóm ofbeldis- og klækjastjórnmál. Hér væri ekki sú stjórn sem nú situr nema vegna þess að tveir flokkanna þóttust af betri sort en sá þriðji. Þóttust vera heiðarlegir og grandvarir.

Það skiptir bara ekki nokkru máli. Þegar þetta blessaða fólk hefur lokið við að setja sig inn í málin verða þau öll meira og minna um garð gengin. Þökk sé hinum pólitíska skriðþunga – sem á endanum öll stjórnmál hér landi hafa snúist um að skapa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni