Um leyndarhyggju menntakerfisins
Sif Sigmarsdóttir skrifaði pistil á Vísi um það hvernig gagnasöfnun bjargaði hverfisskóla dóttur hennar í London. Hún segir það vanvirðingu við börn að draga í efa mikilvægi þess að stýra stefnumótun í skólamálum með árangri eða árangursleysi á Písa-prófunum. Hún gefur í skyn að það sé leyndarhyggja að birta ekki opinberlega niðurstöður einstakra skóla hér á landi.
Popúlsimi, ekki gegnsæi
Einn grunnþáttur góðs menntakerfis er virk þátttaka foreldra. Mat á skólastarfi er líka gríðarlega mikilvægt. Slíkt mat á að liggja til grundvallar stefnumörkun. Mikilvægt er þó að matið sé faglegt, ígrundað og taki tillit til þess að menntamál eru (eins og t.d. heilbrigðismál og önnur stór viðfangsefni hins opinbera) flókin og yfirgripsmikil. Það er til dæmis alrangt að skólayfirvöld í sveitarfélögum á Íslandi neiti að birta Písa-niðurstöður einstakra skóla vegna leyndarhyggju. Þar er einfaldlega verið að fylgja þeim viðmiðum sem höfundar prófanna leggja til. Þau eru ekki samanburðarhæf milli einstakra skóla. Krafa Sjálfstæðismanna í Reykjavík um slíka birtingu er ekki krafa um gegnsæi. Hún er frekar slöpp tilraun til popúlisma.
Læsi hefur hnignað
Písa-próf veita mikilvægar vísbendingar um þróun menntamála og stöðu einstakra ríkja. Á Íslandi hafa þau staðfest það sem blasað hefur við í nokkurn tíma: Lesskilningur og læsi hafa hnignað.
Það má vel vera að í stað hefðbundins textalæsis hafi komið nýjar tegundir upplýsingalæsis. Það breytir því þó ekki að það er samfélagslega ábyrgt að snúa vörn í sókn í þessum efnum. Þótt ekki sé nema vegna þess að í rituðu máli á íslensk tunga sitt sterkasta vígi. Án þess að rækta ritmálið er verulega tvísýnt að við getum bjargað móðurmáli okkar.
Enginn skyldi þó halda að þetta sé einfalt verkefni eða borðleggjandi. Þá ber það vott um einfeldni að halda að orsakirnar séu auðgreinanlegar. Þau okkar sem komin eru á miðjan aldur þekkja vel hvort og hvernig lestur festir sig í sessi í persónuleikanum. Við lásum fyrst og fremst okkur til afþreyingar og ánægju. Skólabækurnar voru óverulegt innlegg í lestrarforða okkar.
Það er ekki nóg að geta
Ef Íslendingar eiga að vera læs þjóð er nauðsynlegt að fá fólk til að lesa – og lesa mikið. Það krefst auðvitað ákveðinnar færni. En færnin ein er ekki nóg. Það þarf líka að koma til ástríða eða löngun til að lesa. Það er ekki sjálfgefið að sömu aðferðir dugi þegar kemur að því að hlúa að þessum tveimur þáttum. Ef horft er á læsi sem tæknilegt viðfangsefni er býsna rökrétt að börn lesi í réttri röð bækur í stigvaxandi þyngd. Þannig er raunar megnið af lestrarkennslu íslenskra skóla í dag eftir að farið var í átak til að efla læsi. Búið er að skilgreina lestrarferilinn fyrirfram með röðum bóka. Nemandinn les hverja bók þar til hann les hana vandræðalaust og fær þá næstu bók á listanum. Í mörgum tilfellum eru þetta margir tugir bóka. Árangur er síðan mældur með hraðamælingu.
Fjársjóður bókasafnsins
Vandinn við þessa aðferð er að hún tryggir ein og sér ekki lestraráhuga eða varanlegan árangur. Hraðaprófin hafa leitt í ljós að árangur gengur yfirleitt hratt til baka ef ekki er lesið stöðugt. Bækurnar sjálfar eru í fæstum tilfellum merkilegar bókmenntir og oft ekki líklegar til að kveikja áhuga. Það er jafnvel mögulegt að þessi aðferð skili árangri til skamms tíma á kostnað langtímaárangurs. Það er enda ekki tilviljun að það sem einkennir flesta varanlega lestrarhesta er tilhneiging til að lesa „upp fyrir sig“ í aldri og efni. Það getur hver mátað sjálfan sig við þessa stöðu. Hversu líklegt er að bókhneigðin hefði orðið sú sama hefðu fullorðnir rétt manni bækur í röðum á þeim tíma sem maður var að verða læs? Hve mörg okkar upplifðu ekki bókasöfn sem risastórar fjársjóðskistur þar sem frelsið til að vafra og velja skipti meginmáli?
Byrjendalæsi
Þessi hugmynd, að varanlegt læsi sé að stórum hluta persónulegs eðlis og grundvallist á áhuga, er ástæða þess að hér á landi var þróuð kennsluaðferð sem kallast Byrjendalæsi. Þar er hugmyndin sú að læsi sé ekki eingöngu tæknilegt viðfangsefni heldur að markmiðið sé að með færni fylgi áhugi og ígrundun. Í Fréttablaðinu birtist um helgina grein um meint árangursleysi aðferðarinnar séu áhrif hennar mæld með samræmdum prófum. Með fullri virðingu og þakklæti fyrir vilja Fréttablaðsins til að fjalla með gagnrýnum hætti um skólamál þá bera slík efnistök ekki vitni um sérlega þroskaðan lesskilning.
Sannleikurinn er sá að við getum ekki búist við bættum lesskilningi (og þar af leiðandi árangri á lesskilningsprófum eins og Písa) fyrr en tekið er ítrasta tillit til hvors tveggja: hinnar tæknilegu hliðar lestrarkennslu og hinnar persónulegu hliðar lestraráhuga. Ofuráhersla á annan þáttinn mun engu varanlegu skila. Það er ekki nóg að láta börn lesa áratugagamlar lestrarbækur til að tryggja að þau verði eins og jafn læs og foreldrarnir. Góður staður til að hefja þessa rannsókn á er að líta í eigin barm og spyrja sig sem foreldri hvort maður lesi enn jafn mikið og maður gerði – og stuðli þannig að því að smita lestraráhuga til barnanna sinna. Næst mætti stórefla bókaútgáfu fyrir börn og lækka skatta á bækur. Síðan ætti samfélagið allt að fara í stórátak til að bjarga íslensku ritmáli – með því að kenna yngri kynslóðum að nota það og elska það.
Hvernig Bretar björguðu skólakerfinu sínu
Þá aftur að pistli Sifjar. Hún vill meina að íslenska skólakerfið sé í einhverskonar afneitun eða feluleik. Það sé sjálfsagt að nota mælingar til að gefa skólum einkunn og bendir á dæmi um skólakerfið í Bretlandi þar sem hverfisskólanum hennar hafi verið bjargað.
Ef fjölmiðlaumfjöllun um menntamál væri betri á Íslandi hefði þegar átt sér stað blómleg umræða um nákvæmlega þessi mál. Þetta er nefnilega margslungið fyrirbæri. Það eru bæði heilmikil átök og gróska um nákvæmlega þessa hluti í menntakerfum heimsins. Lítið af umræðunni ratar til Íslands.
Bretar fóru þá leið að stokka upp allt sitt skólakerfi og setja upp margvíslega mæli- og gæðakvarða. Það er mjög bresk nálgun. Það hljóp verulegt kapp í þetta allt hjá þeim fyrir rúmum áratug þegar vísbendingar voru um að Bretland væri að dragast aftur úr í alþjóðlegum samanburði. Umræðan varð býsna heitfeng. Leitað var að blórabögglum og réðist það að mestu af pólitískum hneigðum viðkomandi hvort stjórnmálamenn, kennarar eða foreldrar yrðu fyrir valinu. Bresk stjórnvöld gengu mjög hart fram gegn skólum og stjórnendum þeirra og notuðu til þess gæðamælingar eins og þær sem Sif ræðir í pistli sínum. Víða um heim hefur sama leið verið farin.
Árangurinn skilar sér ... og þó
Árangurinn lætur yfirleitt ekki á sér standa. Skóli sem tekinn hefur verið í gegn á grundvelli slíkra mælinga batnar undantekningalítið mjög mikið og hratt. Vandinn er sá að slíkar árangursmælingar eru ekki allar þar sem þær eru séðar.
Segjum sem svo að fjölmiðill fái falleinkunn í úttekt eftirlitsaðila og skipt sé um stjórnendur hans. Mælingin samanstandi af skráningu yfir mætingar starfsmanna og talningu á fjölda læka við hverja birta grein. Það má alveg ímynda sér að nýir stjórnendur fjölmiðilsins sýndu fram á verulegan árangur strax á næstu mælingu. Það sjá samt allir í hendi sér að þar með er ekki sagt að blaðamennskan hafi batnað. Það skiptir nefnilega miklu máli hvað er mælt og hvernig.
Síðasta Písa-próf varð Bretum verulegt áfall. Þrátt fyrir gríðarlegar kerfisbreytingar og mikinn staðbundinn árangur og nokkuð rífleg útgjöld til menntamála syrti enn í álinn á Písa-prófunum. Náttúrufræði kom reyndar sæmilega út en stærðfræðin hafði aldrei verið verri og lesturinn stóð í stað. Vísbendingar sáust um stöðnun í breska menntakerfinu. Það kom nokkuð á óvart vegna þess að almenningur vissi ekki betur en að umbætur hefðu verið bæði markvissar og verulegar. Stjórnmálamenn höfðu meira að segja lofað stórkostlegum árangri. Verst var þó að „umbæturnar“ höfðu skapað nýjar hættur.
Tæring í menntakerfinu
Kennaraskortur hefur aukist verulega í Bretlandi og nú er svo komið að líklega þarf að fara að gera sífellt minni kröfur um menntun þeirra svo hægt sé að manna skólana. Það er alveg ljóst að sú tilhneiging margra að leita blóraböggla í kennurum hjálpaði ekki til. Þó er annað sem skipti enn meira máli. Einn þeirra þátta sem stuðlar að árangursríku skólastarfi er valdefling og starfsþróun kennara. Kennarar eru í flestum tilfellum hreyfiaflið í sterku menntakerfi. Ef gengið er of langt í að skilgreina störf kennara með yfirborðskenndum mælistikum og stöðluðum aðferðum breytist eðli starfsins verulega. Það fælir frá kennara og gjarnan flýja öflugustu og bestu kennararnir fyrst. Þessi atgervisflótti tærir skólakerfið innanfrá og skilar sér í verri árangri til lengri tíma litið. Eftir síðasta Pisa-prófið benti OECD á þetta sem einn mest aðkallandi veikleika breska skólakerfisins.
Áhugi foreldra
Sif bendir á mjög merkilega staðreynd. Áhugi foreldra á menntun í Bretlandi er gríðarlegur. Umræður foreldra snúast um fátt annað. Slíkt er tvímælalaust styrkleiki samfélags ... ef foreldrar eru upplýstir. Þar er ábyrgð fjölmiðla mikil. Ef umræða er einhæf, yfirborðskennd eða léleg nýtist ekki vogarafl foreldrasamfélagsins eða getur jafnvel verið skaðlegt. Óskoðaðar skoðanir geta verið skaðlegar.
Hér á landi mættu foreldrar hafa miklu meiri áhuga. Núna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga ættu umræður um menntamál að vera miklu háværari. Þetta er einn veikleiki íslensks samfélags og íslensks skólakerfis.
Vandi okkar og vandvirkni
Menntamál eru í mikilli þróun. Hér á landi er vandinn ekki leyndarhyggja heldur áhugaleysi. Það þarf að ræða þessi mál af miklu meiri dýpt og læra af því sem vel er gert hér á landi og erlendis. Það þarf að forðast popúlisma og patentlausnir. Þær virka ekki. Mjög margt vekur þó miklar vonir. Skólakerfið okkar er að mörgu leyti frábært og öfundsvert en að öðru leyti síðra. Til að geta bætt það þurfum við samfellt átak. Til þess átaks þurfum við að ganga af bjartsýni en raunsæi. Þetta eru flókin og margslungin mál. Það þýðir ekki að við getum ekki náð árangri. Það þýðir bara að við verðum að vanda okkur.
Athugasemdir