Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Svör Jóns Inga Gíslasonar, Vættaskóla

Svör Jóns Inga Gíslasonar, Vættaskóla

Svör Jón Inga Gíslasonar:

Hver telur þú stærstu forgangsmálin í þróun skóla- og kjaramála næstu tvö ár?

Ég tel að þróun skóla- og kjaramála sé samtvinnuð og óaðskiljanleg viðfangsefni. Ég tel að greina megi verkefnin niður með þessum hætti til að byrja ferlið.

  1. Kennarar þurfa nýja forystu með nýja hugmyndafræði og áherslur. Samhliða kjöri á nýrri forystu þarf að breyta lögum í grundvallaratriðum og innleiða fullt lýðræði í starfsemi félaga þeirra sem kennarar halda úti. Með innleiðingu á lýðræði sem aflagt hefur verið að mestu (td aðalfundir með ótal girðingum í FG á 4. ára fresti) næst betri slagkraftur og almennt betri og metnaðarfyllri ákvarðanataka.
  2. Henda þarf þeim kjarasamningum sem í gildi eru og byrja með autt blað. Efst á þessu auða blaði þarf að skilgreina starfið upp á nýtt. Þar er útgangspunkturinn sá að endurheimta fullt sjálfstæði, virðingu og traust kennara. Viðurkenningu á þeirri staðreynd að kennarinn er fagmaður sem ræður för í öllu skólastarfi. Í kjarasamningi er skilgreint að fullt starf kennara sé sú kennsla (24-28t) sem hann ber ábyrgð á ásamt þeim undirbúningi og úrvinnslu sem hann kýs að viðhafa. Innan þessa ramma eru venjubundið samstarf við foreldra og samkennara. Allt annað starf sem sett er inn á borð kennara á að vera greitt sem aukavinna og/eða frítökuréttur. Má þar nefna fundarhöld hverskonar, námsskrárvinna og nýtt námsmat, ný tæknikerfi frá Mentor, fyrirskipaðar skráningar persónulegra samskipta við nemendur, samráðsfundir og skýrslugerðir vegna nemenda með sérþarfir, gerð heilsufarsprófa og hvers kyns lýsingar á hugarástandi og líðan nemenda etc etc. 
  3. Endaskipti eru semsagt á starfsskyldum. Í stað þess sem nú er þar sem ALLT sé innifalið í starfinu nema annað sé tekið fram þá er EKKERT innifalið í starfinum nema það sem er í grunnskilgreiningu starfsins.

 

Hvaða tækifæri telur þú að mikilvægt sé að grípa í skóla- og kjaramálum?

Ég tel að tækifæri hafi skapast til umtalsverðra breytinga í haust þegar grasrót kennara vann á stuttum tíma til sín almenningsálit með markvissri og kröftugri baráttu sem Ragnar Þór Pétursson leiddi. Slíkt tækifæri þarf að skapa aftur. Án þess að vinna almenning á sitt band vinnst engin barátta. Forsenda þess er ný forysta með nýja hugmyndafræði sbr svar við lið 1. Umtalsverð kauphækkun er forsenda þess að öflugir kennarar vinni að skólaþróun af metnaði. Þeir verða að fá til þess fullt sjálfstæði og traust. 

Hvaða ógnunum telur þú okkur standa frammi fyrir í skóla- og kjaramálum?

Það er komið að ögurstund tel ég í þessum efnum. Ef ekki verður tekin U beygja á næsta ári þá molnar undan þessu kerfi okkar enn frekar með kennaraskorti , lélegri skólum og óánægðari foreldrum. Vilji til að fjármagna kerfið eins og þarf næst ekki fram nema að vinna almenning á okkar band. Það verkefni er úthugsuð fagvinna nýrrar forystu.

Hver er afstaða þín til vinnumats? Hvers vegna?

Vinnumatið er byggt á afleitri hugmyndafræði þar sem útfærslunni var að auki klúðrað í samningum. Því á að henda.

Hvers vegna? Af mörgu að taka hér. En það að stilla kennurum upp gegn stjórnanda á sama vinnustað þar sem prúttað er um vinnustundir á bak við vel gerða hluti er kolröng aðferðafræði til árangurs á vinnustað. Þá var ekki gengið frá fjármögnun C liðar í vinnumati við gerð samningsins og því um marklausa froðu að ræða þar sem engir peningar fylgdu metnu vinnumagni C liðar, amk ekki í Reykjavík.

Telur þú að breyta þurfi áherslum í starfi KFR og þá hvernig?

Já það tel ég. Félagið þarf líka að lýðræðisvæða þó það sé skárra hvað það varðar en móðurfélögin. Stórauka þarf félagsvirknina og þetta stóra félag höfuðborgar landsins á að vera leiðandi aðili í FG. Stefnumörkun í menntastefnu landsins og framtíðarsýn á að koma frá okkar félögum sem kjörnir fulltrúar landsins síðan taka undir sýna arma og framkvæma á Alþingi og ráðuneyti menntamála. Allar breytingar eiga að koma frá kennurum og foreldrum upp til ráðamanna og ráðuneytis en ekki öfugt!

Svo verður að vera skemmtilegt í félagsstarfi. því þarf félagið að standa fyrir öflugum viðburðum sem áhugi er á að taka þátt í.

Nú hefur stjórnun FG og KÍ verið nokkuð umdeild síðustu misseri. Hver er afstaða þín til stjórnunar og starfsemi hinna stóru aðildarfélaga kennara?

Hef gert grein fyrir því með skýrum hætti hér að ofan.

Er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?

Næst á dagskrá í félagsmálum kennara er aðalfundur KFR. Til að hafa þar áhrif þarf að mæta.  Í kjöri til stjórnar eru aðilar eins og ég sem vil berjast fyrir breytingum. Þar eru líka í boði frambjóðendur sem hafa öndverðar skoðanir á því. Þar þarf jafnframt að ákveða lýðræðislega aðferð við val á fulltrúum á aðalfund FG. Á þeim fundi gæti verið upphaf að einhverju góðu fyrir okkur. Vonandi verður það.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni