Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Söguendirinn sem aldrei var skrifaður

Í kvöld fékk ég að vita nokkuð sem ég hafði beðið í mörg ár eftir að heyra. Ég get líka núna skrifað sögulok sem ég vissi ekki hvort ég ætlaði nokkru sinni að gera. Léttirinn er gríðarlegur.

Snemma árs 2013 var mér tilkynnt af skólastjórnanda mínum að yfirmenn skólamála í Reykjavík hefðu fengið ábendingu um að ég væri hættulegur barnaníðingur. Ég tengdi það við hótanir sem ég hafði fengið þegar ég fjallaði um mál Karls Vignis á blogginu mínu. Þar sagði einhver í kommentum að hann hefði samið tilkynningu um að ég væri níðingur og að hann ætlaði að senda til skólayfirvalda í Reykjavík. Ég hélt að málið væri runnið þaðan.

Ég bað um að málið yrði strax sent til lögreglu og/eða barnaverndar svo rannsaka mætti það án tafar. Borgin vildi ekki gera það alveg strax, heldur skoða málið betur. Að endingu fékk ég því framgengt að málið yrði rannsakað. Þegar lögreglan hafði samband við borgina þóttist sá sem með málið fór ekkert vita um það, hvorki hvaðan það kæmi né hver hefði tilkynnt. Það endaði þannig að senda þurfti bréf á alla staði sem ég hafði búið á til að leita að einhverju tilfellum um ósæmilega hegðun. 

Ekkert fannst.

Lögreglan reyndi ítrekað að fá að vita meira um tilkynninguna svo hægt væri að rannsaka málið betur. Henni var alltaf neitað um upplýsingarnar – þær væru bara ekki til. Þetta væri nafnlaust og órekjanlegt. 

Þar sem ég vissi að ég væri saklaus var mér verulega misboðið. Ég ákvað að afhjúpa málið, tala um það upphátt. Ég sagði frá öllu sem gerst hafði og krafðist úrbóta. Lög höfðu verið brotin af hálfu yfirmanna minna.

Þegar ég kærði í upphafi sagði ég við lögregluna að ég vildi að þeir myndu rekja þessa tilkynningu. Ef þetta væri einhver illgjarn aðili að reyna að koma höggi á mig vildi ég fylgja málinu eftir. Ef þetta væri hinsvegar einhver sem væri ekki fyllilega sjálfrátt, væri sjúkur eða í erfiðleikum vildi ég að reynt yrði að útvega honum aðstoð. Ég þyrfti ekki einu sinni að vita hver það væri.

Nú fór í hönd undarlegur tími. Allskonar ógeð sem verið höfðu í fréttum sendu mér skilaboð og stuðningsyfirlýsingar. Mér fannst það ónotalegt. Ég fékk líka fullt af uppbyggilegum skilaboðum og mikinn stuðning. Mér fannst þetta erfiður tími vegna þess að sem kennari þá hefur maður snertingu við þennan málaflokk. Á þessum tíma sat m.a.s. maður í fangelsi vegna tilkynningar sem ég hafði sjálfur sent inn (hann var raunar grunaður á tímabili um að hafa verið að hefna sín).

Það endaði á því að ég kom fram í Kastljósi þar sem ég reifaði málið. Þar gagnrýndi ég meðferð málsins. Það væri ótækt að búa við þær aðstæður í starfi að hvenær sem er væri hægt að bera á mann alvarlegar ásakanir án þess að maður gæti varið sig. Þetta er miklu algengara en flestir vita. Margir kennarar sem ég þekki hafa á einum eða öðrum tímapunkti verið sakaðir um eitthvað misjafnt sem þeir eru saklausir af.

Hitt er auðvitað líka til að kennarar brjóti af sér. Það er enn alvarlegra.

Þegar ég hafði komið fram í Kastljósinu opnaðist málið loks upp á gátt. Ég fékk tilkynningu um að aðilinn hefði gefið sig fram við lögreglu og vildi kæra mig en að málinu hefði verið vísað frá eftir skoðun. Ég bókaði strax viðtal og fór og hitti lögregluna. Þar fékk ég aðgang að þeim upplýsingum sem ég hafði beðið eftir.

Ungur maður hafði mætt á lögreglustöð og sagt að það hefði verið systir hans sem hefði tilkynnt mig. Hann hefði, eftir mjög erfið unglingsár, sagt henni að ég hefði mörgum árum áður sýnt honum klám.

 Af lestrinum að dæma var alveg ljóst að drengurinn hefði átt verulega erfitt líf. Ég ætla ekki að rekja það nánar. Það kemur engum við og skiptir engu máli. Mín fyrsta hugsun var auðvitað sú að leita að einhverju sem hægt væri að nota til að sanna sakleysi mitt. Svo ekki stæði bara orð á móti orði.  Og í lýsingunni var vissulega eitt atriði sem hreinlega gat ekki staðist. Það var einfaldlega útilokað. Hann lýsti tölvunni sem hann sá klámið í – en sú tölva var ekki til á þessum tíma og kom ekki á markað fyrr en nokkrum árum seinna.

Nú lagðist ég undir feld. Ég hugleiddi að sækja hann til saka. Ég hugleiddi það stíft. Ég vildi sanna sakleysi mitt. 

Ég hætti við það af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi vildi ég ekki vera náunginn sem léði þeirri skoðun aukið vægi að fólk væri almennt og yfirleitt að ljúga um svona hluti. Ég hef horft upp á fórnarlömb svona glæpa aftur og aftur – og veit að mörg fá aldrei viðurkenningu. Meðal annars vegna þess að þeirri skoðun er haldið á lofti að fólk ljúgi.

Ég held að fólk ljúgi almennt ekki. Og ég vil alltaf trúa. Ég vil enn trúa.

Ég veit hinsvegar að það er ekki undantekningalaust. Ég sýndi þessum dreng ekki klám.  Ég veit það – og get sannað það upp að því marki sem það er fræðilega mögulegt. 

Hitt skipti mig þó miklu meira máli að lýsingin á lífshlaupi drengsins var átakanleg. Hann hafði verið á mjög vondum stað og ég gat alls ekki útilokað að hann tryði þessu sjálfur. Ef hann hefði sagt systur sinni þetta þá hefði hún auðvitað trúað honum. Það hefði ég líka gert. Og þá hefði hún að sjálfsögðu sagt einhverjum frá þessu. Það hefði ég líka gert.

Ég sannfærði sjálfan mig um að í miðju málsins væri manneskja sem ætti mjög erfitt. Ég hefði líklega aldrei opnað málið svona upp á gátt í fjölmiðlum hefði ég vitað það. Þar fyrir utan hefði enginn gert neitt rangt. Nema Reykjavíkurborg sem brást á rangt við tilkynningunni. Það hefði verið hægt að gera þetta allt án umstangsins.

Ég sannfærði mig líka um að það að draga drenginn fyrir dóm þjónaði þeim eina tilgangi að refsa honum til að fá yfirlýst sakleysi mitt opinberlega. Það fannst mér ekki göfugur tilgangur. Hann ætti bersýnilega erfiðara en ég. Ég lét þess vegna málið niður falla.

Ég vissi auðvitað að þarna úti væri allt þetta fólk ennþá. Það væru einhverjir sem tryðu því að ég hefði sýnt dreng klám og hann hefði í framhaldinu misst stjórn á lífi sínu. Ég fékk það meira að segja staðfest einu sinni þegar kona sem ég þekki ekki neitt skrifaði hjá sameiginlegum fésbókarvini að hún vissi barasta fyrir víst að ég væri óþokki. Ég talaði beint við þessa konu og það var hreinskilið og gott spjall.

Í kvöld komst ég svo að því að sagan hafði ekki öll verið sögð. 

Maður, sem starfaði einnig hjá Reykjavíkurborg, var sá sem hafði komið með tilkynninguna á sínum tíma. Hann var kunnugur þessu fólki og hafði fengið söguna þaðan. Og hann hafði trúað henni. Það var hann sem kerfið var að fela. Þess vegna var logið.

Þegar málið komst í hámæli og mikil vorkunn braust út í minn garð fékk hann efasemdir um að hann hefði gert rétt en í tilefni af framboði mínu í KÍ vill hann ítreka að hann hafi gert rétt.

Um þetta vil ég segja: Hann gerði rétt. Það á að tilkynna og treysta kerfinu. Systirin gerði líka rétt. Það á að tilkynna.

En kerfið gerði ekki rétt.

Málið átti að rannsaka strax – en ekki hylja slóð þess. Yfirmenn hjá Reykjavíkurborg lugu ekki aðeins að mér, heldur líka lögreglunni. Þeir brutu lög af meiri staðfestu en ég hafði haft hugmynd um. Og vissi ég þó mikið fyrir. 

Eins og alltof mörg svona mál hefði það líklega alltaf endað á orði á móti orði. Og ég hefði talist saklaus.

Ég veit að ef ég væri hinum megin við borðið myndi ég trúa ásökuninni. Ég myndi alltaf trúa þeim valdaminni gegn hinum valdameiri. 

Af einhverjum ástæðum skammast ég mín. Þótt ég viti að þetta sé ekki satt. Þótt ég viti að ég myndi aldrei gera neitt þessu líkt.

Ég hef vitað lengi að skrifa þyrfti endann á þessa sögu fyrst upphafið var opinbert. Nú hef égloks  ástæðu til. Það er léttir. Það er búið að vera óþægilegt að vita af þessu í bakgrunninum – vitandi að þetta gæti alltaf blossað upp.

Ég hef aldrei sýnt barni eða unglingi klám. Ég hef aldrei komið illa fram við barn. Ég hef alltaf gætt virðingar í samskiptum við nemendur. Ég hef, frá því ég var mjög ungur, tekið það mjög alvarlega að vera góður við annað fólk.

Ég hef hinsvegar valið mér starfsvettvang þar sem ég er í stöðugum samskiptum við jafnvel mjög veikt fólk. Ég hef kennt börnum sem sjá dáið fólk. Ég hef kennt börnum sem saka samkennara mína um kynferðisofbeldi að ósekju – ég hef kennt með mönnum sem hafa verið sakaðir um fullkomlega tilhæfulaust einelti og ofbeldi. Ég hef horft á sterka menn molna frammi fyrir slíkum ásökunum. Ég hef horft upp á það hvernig kerfið fær flog og veit ekkert hvernig það á að haga sér þegar svona mál koma upp.

Þetta mál hef ég reynt að höndla eins vel og ég gat. Þegar ég fékk loksins að vita sannleikann sneri ég aftur til kennslu. Ég var búinn að fá það sem ég vildi.

Nú veit ég að ég fékk aldrei allan sannleikann.

Ég veit líka að átök eins og það sem ég skrifaði þetta um í kvöld 

eru fullkomlega nauðsynleg. 

En ég veit líka að þau geta verið hættuleg. Afhjúpanir eru ekki í öllum tilfellum sannar.  Af sárri reynslu veit ég hvernig það er að vera saklaus sakaður um fyrirlitlegan glæp. Og ég veit að hvert orð sem ég legg fram til stuðnings sakleysi mínu dýpkar aðeins fyrirlitninguna í brjósti þess sem ákveðinn er í að ég hljóti að vera að segja ósatt.

Ég óttast ekki svo um mig. Samviska mín er hrein. Ég veit líka að það var mörgum kollegum mínum mikilvægt að einhver stigi fram og opnaði á svona mál. Þau grassera undir yfirborðinu. Þetta ranglæti sem ég upplifði er eitt af því sem hefur knúið mig áfram síðustu misseri. Ég vil að kennarar njóti meiri verndar – en ég vil gera það með hætti sem eykur ekki á vanda raunverulegra fórnarlamba.

Ég óttast ekkert meir en að leggja lóð á vogaskálar þeirra sem standa fyrir leynimakk og ofbeldi. Það neita allir, alltaf. Þannig er það bara. Nú hef ég skrifað heillanga málsvörn fyrir mig sem hinir seku munu líta á sem málsvörn fyrir sig. 

En það er ekki minn stíll að fara í felur og lifa í skömminni. Við sem samfélag verðum að skoða allar hliðar mála ef við ætlum að meðhöndla þau rétt. Þetta er ein hlið á málaflokki sem verður að vera í lagi.

Við eigum að hafa hátt og við eigum að skila skömminni. Ég á ekki að skammast mín og enginn í þessu máli heldur. Það er ekkert skammarlegt við það að trúa, það er ekkert skammarlegt við það að segja frá. Við eigum að gera það. Ef þú átt bróður sem segir eitthvað svona við þig, þá skaltu trúa. Hann þarf á því að halda.

En við þurfum betra kerfi. Kerfi sem fer ekki í kerfi og klúðrar málum. Kerfi þar sem ekki eru lygar. Kerfi þar sem hlutirnir eru uppi á borðum.

Ég skrifaði í framboðspistli mínum að ég vildi láta rannsaka ofbeldi sem kennarar upplifa í starfi. Fræ þess var þetta mál. En líka samstarfsmaður minn sem var laminn af brjáluðum föður – og vinur minn sem var dreginn gegnum vítiseld vegna ásakana geðbilaðs foreldris.

Ég er ekki reiður út í neinn nema kerfið sem brást hérna með svo stórkostlegum hætti að maður hlýtur að efast um færni þess til að taka á öllum svona málum.

En ég vil lýsa því yfir að ég ætla ekki að skammast mín og ég áfellist engan. Ekki þá sem trúðu, ekki þá sem sögðu – og ekki drenginn. Ég veit ekkert hvað hann hefur lifað þótt ég viti að þetta er ekki eitt af því. Og ég ætla ekki að dæma hann eða leita hefnda. Ég vona heitt og innilega að líf hans sé betra í dag en það var miðað við lýsinguna sem ég las á lögreglustöðinni. Og ég vona að líf hans batni enn.

En ég er fokvondur við kerfið. Bullandi reiður. 

Kerfið á vissulega að vernda börn áður en það verndar fullorðna – en það á ekki að traðka á neinum. Og það á alltaf að gera ráð fyrir þeim möguleika að fólk geti verið saklaust. 

Ef einhver vill ræða við mig vegna þessa máls eða annarra skyldra þá er hægt að senda mér tölvupóst á ragnarkennari@gmail.com. Að öðru leyti hef ég sagt mitt síðasta orð.

Og þótt fyrr hefði verið.

Vinsamlegast ekki læka þennan pistil.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu