Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Kosningabaráttan er hafin

Þá er kosningabaráttan um formanninn Í KÍ formlega hafin. Búið er að opna vef með kynningu á frambjóðendum. Og auglýsa opinn fund þann 30. október.

Ég hvet alla áhugasama til að mæta á fundinn.

Á föstudaginn var tekið upp myndband sem bíður birtingar á vef KÍ. Það ætti að detta þar inn á morgun eða í síðasta lagi hinn. Ég hef hinsvegar fengið myndbandið í endanlegri gerð og sett á það texta fyrir heyrnarlausa. Það er hér að ofan. Af einhverjum ástæðum taldi Youtube að tungumálið á myndbandinu væri hollenska og ég þurfti nokkuð að hafa fyrir því að texta það á ástkæra, ylhýra. Enn meira reyndi á mig að talmál er ekki nærri því jafn fallegt og ritmál (í mínu tilfelli allavega) og stundum kvöl og pína að skrifa það niður.

Ég ætla ekki að þreyta ykkur með því að rekja hér áherslur hvers framboðs fyrir sig. Þið lesið bara um það.  Mínar eru í raun einfaldar.

Mér finnst stefna KÍ ekki vera að virka. Hlutirnir eru orðnir býsna alvarlegir. Ég tel að trúnaðar- og forsendubrestur hafi orðið í menntamálum og að stjórnvöld séu alls ekki að reyna að reka hér það menntakerfi sem þau þó sjálf kváðu á um í lögum. Ég vil krefja ný stjórnvöld (sem bíða handan hornsins) um ábyrgð á því menntakerfi sem við, sem störfum á gólfinu, stritum við að halda uppi – og leita í smiðju þeirra ríkja (þau eru til) þar sem samtök kennara og stjórnvöld hafa getað unnið saman að eflingu menntakerfanna.

Svo mörg voru þau orð.

Ég fæ dálítið af fyrirspurnum á netfangið mitt (ragnarkennari@gmail.com) sem ég reyni að svara.

Og svo setti ég upp til málamynda fésbókarsíðu. Sem ég er strax farinn að sjá eftir. Því nú heldur Facebook að ég sé athyglissjúkur og örvæntingarfullur og bombaderar mig með gylliboðum um að borga fyrir að fá læk – auk þess sem það skipar mér að suða í fésbókarvinum mínum um læk.

Ég ætla hvorugt að gera. Ef þú vilt lýsa yfir stuðningi eða vera upplýstari en þegar er þá þigg ég að sjálfsögðu læk á síðuna ... en ég ætla ekki að gera Mark Zuckerberg það til geðs að angra fólk eða borga.

Kynnið ykkur nú endilega grunnmálefnastöðuna. 

Ég á svo eftir að skrifa a.m.k. tvær greinar með nákvæmari útlistunum. Svo fylgist vel með. 

Fésbókarsíðan er hér.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Nýtt efni