Kalt stríð milli stjórnarflokkanna
Það er með ólíkindum að fylgjast með ríkisstjórninni að störfum. Á milli flokkanna (sérstaklega Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks) andar köldu – það er nánast kalt stríð. Sem ætti kannski ekki að koma á óvart þegar haft er í huga að Viðreisn er eiginlega klofningsframboð til höfuðs ákveðnum öflum innan Sjálfstæðisflokks. Fyrsta verulega stóra áfallið í sambúð flokkana var auðvitað sjómannaverkfallið þar sem Þorgerður Katrín harðneitaði lengi að setja lög á sjómenn þrátt fyrir ítrekaðar óskir Sjálfstæðismanna. Þá var skattlagning á ferðaþjónustu snúin niður sem setti í stórkostlegt uppnám loforð Viðreisnar um innviðastyrki til landsbyggðarinnar. Fjármálaráðherra var stillt upp við vegg og honum sagt að ef hann vildi efna þetta loforð sitt skyldi hann fjármagna það með öðrum leiðum, t.d. þeirri að selja Leifsstöð. Og sá fann krók á móti bragði. Hann ætlar nú að slá tvær flugur í einu höggi: Torvelda skattsvik og hefja í áföngum afnám krónunnar með því að taka úr umferð seðla.
Viðreisn hefur ekki mikinn tíma. Það heldur enginn dampi sem umbótaafl í fjögur ár með dansfélaga eins og Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn er and-umbótaflokkur og innan hans vita menn eins og er að með því að þvælast fyrir hinum „nýju stjórnmálum“ og tefja og teygja alla mögulega hluti mun fylgið rjátlast af bæði Viðreisn og Bjartri framtíð. Þá er tveimur keppinautunum færra.
Þrátt fyrir allt er innan Viðreisnar raunverulegt hugsjónafólk og í stöðu sem þessari er lendingin sú að reyna í ofboði að troða málum sínum í gegn með góðu eða illu.
Nú á Sjálfstæðisflokkurinn leik. Stóra kosningaloforð Viðreisnar fól í sér mikil útgjöld til uppbyggingar innviða. Á bak við þau átti ferðaþjónustan að standa. Þegar sú leið var gerð ófær ákvað fjármálaráðherra að skattsvikarar skyldu þá bera kostnaðinn í staðinn. Ef Sjálfstæðisþingmenn ætla að stoppa það líka getur Viðreisn gert skýra kröfu um að gefið verið eftir í andstöðu við skattlagningu ferðaþjónustunnar.
Þó gleymist eitt. Peningar út málmi og pappír eru auðvitað deyjandi og það eru ekki mörg ár í að þeir verði hverfandi. Gamaldags peningar hafa ekki átt sér marga vini.
Fyrr en nú. Með því að taka stöðu gegn krónunni særði Fjármálaráðherra upp tugþúsundi vini hennar.
Hugmyndin er enda eiginlega glötuð. Bæði praktískt og pólitískt. Fyrirbæri allt frá fermingarveislum til persónuverndar eru í uppnámi verði ákvörðuninni fylgt eftir. Og almenningur mun ekki fylgja fjármálaráðherra í þessu máli.
Slíkt má Viðreisn ekki láta gerast. Sjálfstæðisflokkurinn á engin sterkari vopn gegn umbótakröfum en að þæfa mál af þessu tæi. Þegar menn ætla í slag við Sjálfstæðisflokkinn er lykilatriði að hafa á sínum gunnfána vinsælli afstöðuna af tveimur. Viðreisn er því í vanda. Raunveruleikinn er sá að þar á bæ eiga menn hreinlega ekki fyrir kosningaloforðum sínum og tíminn líður hratt.
Tíminn vinnur með Sjálfstæðisflokki enda hagnast engir meira en íhaldsmenn á óbreyttu ástandi.
Það er á endanum úthaldið sem vinnur köld stríð.
Athugasemdir