Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

1. maí

1. maí

Ef Fréttablaðinu er flett í morgun detta út úr því tvö glansrit. Annað er frá ASÍ, hitt frá Fasteignasölu. Þema ASÍ-blaðsins er að fólk verði að geta eignast húsnæði. Fasteignasalan kveður það hægt, t.d. sé laust fallegt hús í Vesturbæ Reykjavíkur. Það kostar rétt á annað hundrað milljóna. 

Fletti maður Fréttablaðinu áfram verður maður þess fljótt áskynja að lítið eða ekkert er um það að fyrirtæki óski launamönnum til hamingju með daginn. Þvert á móti virðist megináherslan vera á það að í stórum og stöndugum fyrirtækjum sé fólk við vinnu þennan dag eins og aðra. Það eru jafnvel auglýst tilboð eða afslættir til að lokka viðskiptavini á staðinn.

Þetta er semsagt 1. maí 2017.

Ég sagði í gær á fésbókinni að mér sýndist einsýnt að ég hefði kost á að mæta á tvo kröfufundi í miðborg Reykjavíkur í dag, annan til stuðnings Salek, hinn gegn Salek. 

Það er auðvelt fyrir mig að velja þar á milli. Ég ætla ekki að verða við óskum Kennarasambands Íslands og mæta á ASÍ fundinn. Raunar skil ég eiginlega ekki af hverju Kennarasambandið er að púkka upp á ASÍ og Gylfa Arnbjörns. Kennarasambandið á fáa stærri óvini og ætti að hlusta á Amabadama og drekka  kaffi með einhverjum öðrum en honum á þessum degi.

Ég hef of lengi litið á 1. maí sem táknrænan dag. Ég hef mætt á hann í virðingarskyni við þá sem ruddu brautina. Fólkið sem barðist fyrir því að við byggðum ekki hér samfélag vinnumaura og drottninga. Nú er mér hinsvegar orðið ljóst að það er hættulegt hugarfar. Verkalýðsbaráttan á ekki heima á safni, hún á heima á vinnumarkaðinum. Hún er órofa hluti þess að skapa hér réttlátt samfélag. Hún er ekki púkó og hún er ekki tímaskekkja.

Sú klofnun sem verður í dag með tveim fundum er góð. Hún bendir til þess að lífsmark sé með baráttunni. Mjór er mikils vísir. Ég mæti auðvitað á Austurvöll með öðrum og reyni að gefa lífsmarkinu þrótt. Það má ekki minna vera. Annars gætum við sem best keypt auglýsingu í blöðum að ári og auglýst að opið sé í skólum fyrsta maí – svo foreldrarnir geti í næði nýtt sér tilboðin í búðunum. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni