Vandinn við stjórn Pútíns í Rússlandi
Joe Biden sagði (óvart) það sem ég var rétt í þessu að skrifa um Pútínstjórnina í Moskvu og reyndar almenningur hugsar. Garri Kasparov skammaði síðan starfsfólk Hvíta hússins fyrir að endursegja orð forsetans með mildari hætti. Látum sannar fullyrðingar standa! skrifaði hann.
Biden hefur umbúðalaust sagt það sem stendur ekki í skrifuðum ræðum hans; Pútín er stríðsglæpamaður, Pútín er slátrari og Pútín ætti að víkja af valdastóli í Rússlandi. Óháð því hvort Biden mátti segja þetta eða hvort það væri snjallt, þá var þetta satt.
Ég var sem sagt að skrifa pistil (þennan hér) sem átti að nefnast Vandinn við stjórn Pútíns í Rússlandi (og heitir það enn). Allir vita þetta en best að halda því til haga:
Vandinn við stjórn Pútíns í Rússlandi
- Hún virðir ekki landamæri, sjálfstjórn, fullveldi og lýðræði nágrannaríkja, ekki tjáningarfrelsi, stöðu, eignir, hamingju, líf né mannréttindi borgarana.
- Hún hefur þ.a.l. fyrirgert rétti sínum - og ekki er lengur hægt að ætlast til þess að nokkur manneskja eða þjóð vilji deila þessari jörð með henni og hún verður aldrei aftur velkomin í samfélag þjóðanna (óbeint tilvitunun í Hannah Arendt).
- Hún kúgar eigin þjóð, dreifir lygum og blekkingum, bannar upplýsingar og staðreyndir. Hún tekur allt frá Úkraínumönnum og stendur fyrir morðum á börnum þeirra og foreldrum.
Vandinn er að stjórnin situr enn við stjórnvölinn í Moskvu. Hvernig má fella hana? Það er spurningin.
Vonandi með því að
- opinbera umbúðalausan sannleikann um innrásina í Úkraínu um víða veröld
- gera helstu staðreyndir á blóðvellinum heyrinkunnar
- koma þeim til skila inn fyrir landamæri Rússlands.
Sannleikurinn er greinilega það sem valdhafar óttast mest af öllu., segjum hann vafningalaust.
Skrifað 26.3.2022
Aðrar greinar eftir Gunnar Hersvein í Stundinni um innrásina:
Mikilvægir lærdómar af innrásum á 21. öld
Athugasemdir