Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Undirgefni eða heiðarleiki

Undirgefni eða heiðarleiki

Hugtakið og lösturinn undirgefni á erindi við okkur um þessar mundir. Það er ómaksins vert að gefa undirgefni gaum eftir lestur á nýustu bók Michel Houellebecq. „Það er undirgefnin,“ sagði Rediger lágt. „Sú sláandi og einfalda hugmynd hafði aldrei áður verið sett fram af slíkum krafti, að hámark mannlegrar hamingju felist í algerri og skilyrðislausri undirgefni.“ (Undirgefni. 2015, bls. 238).

Undirgefni birtist á margan hátt. Hún er auðsveipni og ákveðin tegund af hlýðni, hlýðni til að þóknast, til að ögra ekki eða valda usla. Hún er undirlægjuskapur og dindilmennska sem er þýlunduð þrá eftir mannvirðingum eins og Þeófrastros sem skrifaði árið 319 f.o.t. í bók sinni Manngerðir.

Undirlægjan er taumlipur, því sá sem hún vill geðjast þarf aðeins að kippa laust í tauminn og þá er hún komin á sinn stað með lafandi tungu. Dindilmennska felst í því að vera handbendi, aðeins þarf rétta því verkefni og það gengur fram.

Einkenni og sérkenni

Bleyðimennska, skortur á hugrekki til að segja skoðun sína og til að mótmæla er einkenni undirgefni. Hún lætur óréttlætið yfir sig ganga, segir fátt og gætir sín á því að ögra ekki yfirgangsmanni til að tefla ekki hagsmunum sínum í tvísýnu. Hún lætur lítið fyrir sér fara á meðan hún er á báðum áttum en fylgir svo straumnum.

Þetta einkenni hennar er vissulega afar óheppilegt fyrir samfélag sem hefur lýðræði, jöfnuð og mannréttindi að leiðarljósi, því undirlægjan getur aldrei staðið vörð um eitt eða neitt, ekki einu sinni eigin velferð. Sérkenni undirgefni er þó enn verra.

Hjarðmennska, sérkennið er viljinn til að lúta valdinu og vera auðmjúkt verkfæri þess. Sérkenni hennar birtist þegar misréttið og spillingin hafa orðið ofan á. Undirgefnin liggur flöt fyrir vildarvini sínum og snýst í kringum hann, stjanar jafnvel við hann. Hrósar í hástert og þylur upp kosti valdamannsins og vill vinna með honum, jafnvel þótt það kosti fórnir annarra.

Alvarlegur löstur

Það eru til mörg heiti um þessa manngerð: taglhnýtingur, strengjabrúða, skósveinn, hækja, hlaupatík og hrákasleikja svo dæmi séu nefnd. Lítilmennskan kyssir á vöndinn, skeinir og sleikir rassinn. Allt þetta er að finna í orðgnótt íslenskunnar. Undirlægjan skríður í duftinu og vinnur skítverkin fyrir yfirboðarann.

Undirgefni er bæði alvarlegur og hættulegur ókostur í öllum tegundum af þjóðfélögum. Undirgefni er löstur sem þjóðin ætti að vinna gegn með markvissum æfingum. Það er oft undirgefni að kenna að þjóð tapar helstu ávinningum sínum að markmiðinu um jöfnuð allra mannvera. Hennar vegna getur gagnsæi breyst í spillingu, réttlæti í misrétti, traust í vantraust og frelsi í ánauð.

Heiðarleiki var valinn helsta þjóðgildið hér á landi á þjóðfundi fyrir nokkrum árum, góður og sterkur vilji var til að staðar til að efla hann og styrkja eftir Hrunið. Enn óljóst er hver staða heiðarleikans er í samfélaginu um þessar mundir. Ef til vill er hann í prófi?

Það er alls ekki nóg að gera sjálfkrafa ráð fyrir að stjórnmálamenn standi vörð um þjóðgildin, heldur verða borgararnir, helst með liðstyrk fjölmiðla, að gera það sjálfir og sýna hugrekki þegar þeir greina bakslag þjóðgildanna - og mótmæla.

Að gera athugasemd

 Sá sem ræktar daglega vinsemd en gerir ekki athugasemd þegar náungi hans beitir ofbeldi hefur orðið undirgefni að bráð.

Sá sem býr í samfélagi jafnréttis og jöfnuðar en gerir ekki athugasemd þegar fólk er misrétti beitt er huglaus.

Sá sem segist standa vörð um heiðarlegt samfélag milli stofnana, fjölmiðla, stjórnmála og borgara en gerir ekki athugasemd þegar loforð eru svikin og spilling afhjúpast er ekki aðeins undirgefinn heldur skapar einnig rými fyrir aðra svikahrappa og verra samfélag.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni