Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Sögurnar fylla lesandann sælu

Sögurnar fylla lesandann sælu

Sögurnar fylla lesandann sælu sem sprettur af dýpt og fegurð orðanna. Þær eru spegill þar sem veröldin birtist í öðru ljósi en oft áður. Lest(r)arferð þar sem numið er reglulega staðar en á hverri stöð er samfélag ólíkt því síðasta. Tígrisdýr í búri birtist á einum stað og breytist í þjóðfélagsþegn í borg. Á öðrum stað flýtur lík stúlku framhjá vatnsmelónubát og ræðarinn finnur í hjarta sínu til hryggðar yfir mannlegu hlutskipti. 

Bókin Smásögur heimsins – Asía og Eyjaálfa er full af smásögum frá 20 löndum. Sú elsta er dásamleg saga frá 1918 eftir Katherine Mansfield og sú yngsta frá 2014 eftir Stehpahnie Ye og gerist á flugvelli. Allar veita þær innsýn í menningu Nýja-Sjálands, Indlands, Japan, Kúveit, Indónesíu, Malasíu, Tyrklands, Ástralíu, Pakistan, Vietnam, Singapúr, Íran, Kína, Norður-Kóreu, Ísrael, Suður-Kóreu, Líbanon, Filippseyja, Tailands og Sýrlands.

Það er gjöf að fá þessa bók í hendurnar.

Það er satt sem stendur á kápunni og á svo sannarlega við um bókina „Að skrifa smásögu er eins og að sýna töfrabrögð í návígi – nokkur þúsund orð fara með mann í ferðalag um alheiminn eða kremja hjartað.“  Bókin er yfir 300 síður og ég varð hugfanginn á hverri einustu. Las eina sögu á dag í tuttugu daga og leyfði áhrifunum að berast um vitundina með tímanum.

Það er gott jafnvægi í bókinni, milli aldurs og kyns höfunda og hvað efni varðar, það er um samfélagsþætti, um kúgun, mæður, feður, lífbaráttu. Þær eru um samband, fjötra, dauða, töfra, ást, leit, val, misrétti, frelsi og gleði. Hver saga ber sinn tón.

Það er vandasamt að sjá fyrir sér þá útkomu sem verður í huga lesenda þegar smásögur eftir 20 höfunda eru saumaðar saman í eitt verk í íslenskri þýðingu. Töfrar gerast og óvæntar tengingar eiga sér stað. Lesandanum gefst tækifæri til að hugsa um mannlegt hlutskipti út frá mörgum sjónarhornum en megineinkennið er að finna fyrir þeirri mannúð sem ofin er fínlega milli orða af ósegjanlegri kennd, sársauka og hlýju.

Þýðingar á Íslensku gefa okkur tækifæri til að ferðast með öðrum frá menningu til menningar á móðurmálinu.  Sögurnar er afburðaþýddar af 14 þýðendum og verkinu ritstýrt af Rúnari Helga Vignissyni, Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur og Jóni Karli Helgasyni. Aðrir þýðendur eru Dagbjört Gunnarsdóttir, Freyja Auðunsdóttir, Heiður Agnes Björnsdóttir, Hjörleifur Rafn Jónsson, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Ingunn Snædal, Jón Egill Eyþórsson, Lárus Jón Guðmundsson, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir, Sindri Guðjónsson og Steingrímur Karl Teague. Einnig má nefna stuttar kynningar á undan hverri sögu sem vekja áhuga á höfundum. 

Asía og Eyjaálfa er þriðja bindi í flokkunum Smásögur heimsins. Útgefandi er Bjartur. 2018.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni