Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Sérlegur dagur borgarans

Sérlegur dagur borgarans

Það er ekki nóg að telja atkvæði, gera skoðanakannanir, rétta upp hönd og velja. Lýðræði er aðferð til að laða fram visku eða vilja fjöldans. Lýðræði er samræða þar sem leitað er heillavænlegra leiða fyrir alla til að halda áfram. Mannréttindi og lýðræði haldast í hendur, stjórnarfarið á að mótast af jafnræði og jafnrétti borgaranna. 

Lýðræði krefst sterkrar vitundar borgaranna um gildin í samfélaginu. Lýðræði er aðferð sem krefst jafnframt góðra skilyrða í samfélaginu. Það krefst umhugsunar, tíma og gaumgæfilegra athugana, gagnsæis, virðingar og umfram allt náungakærleika. 

Tími, virðing, hófsemd og ígrundun ásamt leikni í rökræðum eru forsendur fyrir lýðræðissamfélagi. Lýðræði er andstæðan við öfgar, meðalhófið á að vera við völd í lýðræðissamfélagi.

Lýðræði er ekki bein lína líkt og tímahugtakið á Vesturlöndum er oft táknað, lýðræði er fremur spírall sem vindur sér hægt upp eða niður. 

Lýðræðið þarf nauðsynlega á öflugum almenningi að halda og borgararnir þurfa góðan vettvang þar sem viska fjöldans getur brotist upp á yfirborðið. 

Borgarar geta látið til sín taka á margvíslegan hátt, þeir geta tekið valdið til sín ef þeir vilja og án þess að beita ofbeldi. Kraftmiklir borgarar geta steypt hverjum sem er af stóli með samstöðu sinni. 

Lýðræðið getur reynst svifaseint en það er kostur sem getur komið í veg fyrir ýmsan óskunda og skyndiákvarðanir óraunsærra valdamanna. Lýðræði er ekki fyrir einn hóp umfram annan og þar af leiðandi skal jöfnuður ríkja í lýðræðissamfélagi. 

Öflugur borgari lætur ekki telja úr sér kjarkinn heldur verður fullnuma, velur sér vettvang og byrjar starf sitt í þágu annarra. Það þarf löngun og ástríðu til að vinna að gæfu annarra. Það er rangt sem fólki er stundum talið trú um, að best sé að sitja áhyggjulaus heima og búast við þjónustu. Þá fyrst fer lúmsk spillingin á stjá.

Það minnsta hægt er að gera er að mótmæla fáviskunni, deila gæðunum með öðrum og berjast fyrir mannréttindum allra. 

Dagur borgarans er ekki aðeins þegar kosið er, heldur alla daga, en segja má að dagurinn í dag sé sérstakur. 

Teikning: Sirrý Margrét Lárusdóttir með texta um borgaravitund úr bókinni Hugskot, skamm- fram- og víðsýni eftir Friðbjörgu Ingimarsdóttur og Gunnar Hersvein.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni