Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Trump og nasistarnir

Trump og nasistarnir

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, heldur áfram að brenna brýr að baki sér. Nú í kjölfar atburða í borginni Charlottesville, í Virginíu-fylki í Bandaríkjunum. Þar myrti ný-nasisti unga konu í mótmælum sem áttu sér stað í borginni síðastliðinn föstudag. Þar var um að ræða ,,bílamorð“, sem eru að verða sífellt algengara form hryðjuverka, en það felst einfaldlega í því að bíl er keyrt á mikilli ferð á gangadi vegfarendur. París, Berlín, London, Stokkhólmur og nú síðast Barselóna hafa orðið fyrir hryðjuverkum af þessu tagi á síðustu vikum og mánuðum.

Trump mistókst hrapallega að fordæma Charlotteville-morðið og hefur fengið harða gagnrýni fyrir það.

Í Charlottesville gengu ný-nasisistar í göngu, með logandi kyndla og hrópuðu slagorð sem eru ekkert annað en beint bergmál frá göngum nasista í Þriðja ríki Adolfs Hitlers á þriðja áratug síðustu aldar. Trump hefði geta unnið mörg pólitísk stig hefði hann fordæmt þetta ofbeldisverk með réttum hætti, en hann valdi að gera það ekki. Hann kaus hinsvegar að haga orðum sínum þannig að þau hafa gefið hreyfingum ný-nasista og öðrum hægri-öfgahópum í Bandaríkjunum byr undir báða vængi. Til dæmis hefur David Duke, fyrrum leiðtogi Ku Klux Klan-samtakanna, hrósað Trump fyrir orð hans og þá er fokið í flest skjól.

Með orðum sínum í kosningabaráttunni og eftir að hann tók við embætti, hefur Donald Trump sýnt að hann virðist ekki hafa neinn skilning á þeirri réttlætingu og hvatningu á ofbeldi og fordómum, sem við erum nú að sjá í Bandaríkjunum og eru vegna hans orða og gjörða.

Fréttaskýrendur segja fullum fetum að Bandaríkin og bandaríkst samfélaga eigi það á hættu að jafnvel liðast í sundur og að forsetinn sé beinlínis orðinn ,,óstöðugur“ - allt að hættulegur. Og þá erum við að tala um menn sem hafa gríðarlega reynslu af stjórnmálum og hafa jafnvel unnið með mörgum forsetum,t.d. David Gergen.

Hreyfingar ný-nasista eru til í mörgum löndum og í Bandaríkjunum hafa nasistar verið virkir frá því um 1960, en virknin hefur verið mis-mikil á þessum tíma. Eftir valdatöku Trump er hinsvegar eins og hreyfingar sem þessar hafi fengið aukið súrefni. En hvað er nasisti?

Nasisti er maður sem er tilbúinn að afmennska þig

Nasisti er maður sem hefur ekkert umburðarlyndi gagnvart öðrum skoðunum en hans eigin.

Nasisti er maður sem lítur á hvíta kynstofninn sem yfir aðra hafinn.

Nasisti er maður sem lítur á það sem skyldu sína að nota ofbeldi til að ryðja andstæðingum úr vegi.

Nasisti er maður sem trúir ekki á og afneitar skynsemi og rökhyggju.

Nasisti er maður sem ekki trúir á lýðræði og frjáls skoðanaskipti.

Nasisti er maður sem trúir á einn sterkan leiðtoga og er tilbúinn að fylgja honum fram í rauðan dauðann.

Nasisti er maður sem trúir á fordóma og beitir þeim skefjalaust.

Nasisti er maður sem trúir á kynþáttahyggju og að mismuna fólki og myrða vegna kynþáttar.

Nasismi var ,,tilraun“ sem reynt var að þvinga upp á heimsbyggðina í boði Adolfs Hitlers og böðla hans. Markmiðið var að koma á ,,þúsund ára ríki“ þar sem hinn aríski kynstofn átti að drottna yfir heiminum. Einræði átti að ríkja. Sem betur fer var þessi ,,tilraun“ brotin á bak aftur í sex ára stríði sem kallast Seinni heimsstyrjöldin, en það kostaði allt að 70 milljónir manna lífið.

Haldi Trump áfram eftir þeirri braut sem hann fór inn á um síðustu helgi, sleppir hann enn frekar lausum og hvetur enn frekar áfram krafta sem eru ógn við allt bandarískt samfélag. Eftir viðbrögð sín hefur Trump einangrast enn frekar á hinu pólitíska sviði og aflað sér enn fleiri óvina, nokkuð sem hann hefði auðveldlega getað komist hjá. Trump sundrar en sameinar ekki.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni