Að elska harðjaxla
"Inni í mér dvelur lítill einræðisherra, sem er að reyna að brjótast út."
Halda mætti að það sé það "prinsipp" sem sjónvarpsmaðurinn (og forsetinn) Donald Trump hugsar og vinnur eftir.
Enn og aftur er hann búinn að sleikja einræðisherrann (og morðingjann) Kim Jong Un upp eins og íspinna (sjá mynd).
Og honum fannst greinilega nauðsynlegt að stíga fæti inn í eitt ömurlegasta og einangraðasta land í heimi, Norður-Kóreu, þar sem maðurinn sem hann "segist elska" (..."we fell in love"...) er búinn að murka lífið úr (sennilega) hundruðum þúsunda manna og ættmenni hans (faðir og afi) bera ábyrgð á dauða að því að talið er milljónum manna frá lokum Kóreu-stríðsins árið 1953 (því er reyndar ekki lokið, það er bara vopnahlé).
Trump er mjög veikur fyrir einræðisherrum, það er eitt helsta einkenni hans sem forseta. Frá því að hann tók við embætti hefur hann mært og dáðst að öllum helstu einræðisdurgum þessa heims, Xi, leiðtoga Kína, Pútin Rússlandsforseta og ekki minnst Kim Jong Un. Manni dettur helst í hug að Kim sé sonurinn sem Trump aldrei eignaðist, svo "Freudískt" er þetta. Á móti hefur hann svo gert lítið út ýmsum hefbundnum bandamönnum Bandaríkjanna, bæði einstaklingum og ríkjum. Mexíkó er eitt helsta dæmið.
Einræðisherrarnir eru allir svo "harðir gaurar" ("tough guys") og það er greinilega eitthvað sem Trump fílar í botn, s.s. harðjaxlar! Það sem þeir eiga sameiginlegt er að standa fyrir stórkostlegum mannréttindabrotum í heimalöndum sínum. Og breyta stjórnarskrám, svo þeir geti verið lengur til völd (Pútin og Xi Jinping).
Í grein á cnn.com má lesa öll helstu ummæli Trumps um helstu "harðjaxla" heims, sem Trump virðist líta mjög upp til og dást að.
Trump er fyrst og fremst bissness og sjónvarpsmaður og þetta "leikatriði" um daginn, þar sem hann tók nokkur skref inn í N-Kóreu, var fyrst fremst til áróðurs og heimabrúks. Fyrir bæði hann og Kim, ekki síst. Eflaust eiga ritskoðaðir fjölmiðlar í N-Kóreu eftir að gera sér mikinn mat úr þessu á næstu vikum.
Ok, Trump er fyrsti sitjandi forseti Bandaríkjanna til að stíga fæti inn í þetta guðs volaða land, sem er undir járnhæl sérkennilegustu útgáfu af kommúnisma/Stalínisma sem til er. En hvað svo? Hvað ætlar hann að gera næst? Hver verður næsti þáttur í leikritinu "Un-Trump"?
Athugasemdir