Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Donald Trump og áróðurstæknin

Donald Trump og áróðurstæknin

Fasistar, nasistar og kommúnistar voru meistarar í áróðurstækni á 20.öldinni. Hvað eiga þessar stefnur sameiginlegt? Jú, þetta eru allt saman alræðisstefnur, þar sem almenn mannréttindi voru fótum troðin. Samtals hafa þessar stefnur kostað líf tuga milljóna manna.

Fremstur meðal jafningja í áróðursfræðum var Dr. Jósef Göbbels, Áróðursmálaráðherra Þriðja ríkisins, fyrirbæris sem nasistar, undir forystu Adolfs Hitlers ætluðu sér að stofna. Það átti að drottna yfir heimnum og þar átti einn kynþáttur, sá aríski, að vera öðrum æðri.

Þegar nasistar náðu völdum í Þýskalandi árið 1933 bönnuðu þeir alla stjórnmálaflokka og lokuðu öllum fjölmiðlum sem ekki voru þeim hliðhollir. Stofnað var ráðuneyti áróðursmála sem stjórnaði öllum sviðum fjölmiðlunar; blaðaútgáfu, kvikmyndaframleiðslu, leikhúsum og útvarpi.

Nasistar (les: Adolf Hitler) höfðu kynnt sér rækilega áróðurstækni, sem undanfari þeirra, fasistinn Benito Mussolini, hafði náð góðum tökum á, bæði fyrir og eftir hann komst til valda á Ítalíu árið 1922, fyrst sem forsætisráðherra og síðan einvaldur/einræðisherra árið 1925.

Dr. Jósef Göbbels setti saman kerfi um það hverng áróður virkar best, kallað ,,lögmál Göbbels“. Í þeim kemur meðal annars fram að áróður verði að vera rétt tímasettur, að áróður verði að vera einfaldur og að hann verði að endurtaka reglulega.

Endurtekin lygi verður sannleikur

Þó Göbbels hafi ekki sagt það beinum orðum, þá er það sagt um lygina, að ef þú endurtekur lygina nógu oft, þá verði hún að sannleika. Þetta ,,lögmál“ passar ótrúlega vel við aðgerðir Donalds Trump, fráfarandi forseta Bandaríkjanna, að undanförnu. Reyndar má heimfæra áðurnefnd lögmál Göbbels upp á Trump, í ljósi þess sem hann hefur verið að gera síðustu vikur.

Sem er að hann plantaði þeirri lygi á samfélagsmiðlum (á réttum tíma) að forsetakosningunum í byrjun nóvember síðastliðnum hafi verið ,,stolið“ (af honum). Frasinn er einfaldur; ,,Stop the Steal“ eða ,,stöðvið þjófnaðinn“. Þetta var endurtekið sí og æ af forsetanum og bergmálað á samfélagsmiðlum. Afleiðing: Milljónir, jafnvel tugir milljóna Bandatíkjamanna trúa því meira og minna að að kosningunum hafi verið ,,stolið“ – þó ekkert sé sem bendi til þess. Demókratar unnur einfaldlega af því voru klókari en repúblíkanar að beita póstkosningum (Trump kaus sjálfur með þeim hætti).

Fjöldasamkoma

Í framhaldi af þessu var svo lýðurinn, stuðningsmenn Trump, æstur upp úr öllu valdi, af honum sjálfum, fjölskyldu hans og lögfræðingi (Rudy Guiliani, fyrrum borgarstjóri New York) á fjöldafundi (,,mass rally“ – nokkuð sem fasistar og nasistar notuðu grimmt),  þann 6.janúar síðastliðin í Washington-borg.  

Síðan réðist skríllinn á þinghús Bandaríkjanna og gekk þar berkserksgang, braut og bramlaði, rændi og ruplaði.  Í þeim tilgangi að reyna að breyta og koma í veg fyrir að réttar niðurstöður kosninganna yrðu staðfestar. Fimm létu lífið í þessum aðgerðum. Í ræðu sem Trump hélt höfðaði hann til föðurlandástar og hvatti lýðinn til að ,,ná landinu aftur". Aðgerðir Trumps að undanförnu eiga hinsvegar ekkert skylt við föðurlandsást, heldur er hér um hreina og klára valdagræðgi að ræða, sem og vanvirðingu við helstu stofnanir og gildi Bandaríkjanna.

Trump hefur nú verið kærður fyrir embættisglöp í annað sinn og er hann fyrsti forsetinn sem nýtur þess vafasama heiðurs. En hann hefur sterk ítök í Repúbíkanaflokknum og meðal stuðningsmanna, ennþá að minnsta kosti. Margt er hinsvegar sem bendir til þess að flokkurinnn logi af átökum.

Þessi ítök innan flokksins hefur Trump notað til að ógna ýmsum embættismönnum, beint og óbeint. Til dæmis er talið að margir þingmenn flokksins kjósi einungis með Trump vegna ótta, að þeir séu hræddir um sitt eigið líf og fjölskyldna sinna. Það liggur nærri ógnarstjórn.

Hliðrænn verukeiki

Er Trump fasisti? Kannski of djúpt í árinni tekið að fullyrða það. En hann er engann veginn illa haldinn af lýðræðisást, né virðingu fyrir gildum og viðmiðum sem tíðkast hafa í bandarískum stjórnmálum. Hann hefur nánast brotið þau öll. Hann er líka einfaldlega mjög slæm fyrirmynd, sérstaklega fyrir ungt fólk, ljúgandi um allt milli himins og jarðar, hann ber enga virðingu fyrir sannleikanum, enda hugtök á borð við ,,hliðrænn veruleiki“ (,,alternative facts“) verið áberandi í hans forsetatíð. Það hugtak gengur út á ,,sannleika“ sem hentar Donald Trump og engum öðrum.

Jónas heitinn Kristjánsson komst mjög nálægt sannleiknum um Trump í færslu árið 2018 er hann sagði: ,,Sá er haldinn af bunker-sýki, sem lýsir sér í fleiri pólitíkusum, eins og Hitler og Erdoğan. Slíkir stilla heiminum upp í með-og-móti hópa, sjá alla sitja á svikráðum við sig, reka menn á tvist og bast, safna um sig jábræðrum, sem magna heimssýn foringjans. Ljúga í sífellu, krefjast óbilandi hollustu við sig, gegn siðferði og sannleika. Trump er alger hælismatur“ (jonas.is).

Saksóknarar bíða í röðum

Næstkomandi miðvikudag fer Donald Trump úr „bönkernum“ sem hann hefur haldið sig í að undanförnu, verður almennur borgari aftur og hættir að vera forseti. Það verður mikill léttir fyrir heimsbyggðina. Washington og helstu borgir landins eru þó orðnar eins og virki, vegna viðbúinna mótmæla og jafnvel óeirða. Þúsundir þjóðvarðliða eru á vakt í Washington.

Ýmsir saksóknarar bíða í röðum þess að Trump hætti, meðal annars vegna skattamála, en Trump er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur neitað að opinbera upplýsingar um fjármál sín. Dagblaðið The New York Times komst svo að því að Trump greiddi nánast enga alríkisskatta árin 2016 og 2017. Og fyrst hann borgaði nánast ekkert þessi árin, má ætla að hið sama gildi um öll hin. Segja má því að hann leggi nánast ekkert til þess samfélags sem á að heita að hann hafi stjórnað undanfarin fjögur ár.

Mynd: Getty Images.

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Nýtt efni