Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Töpuð tækifæri - um Ísland og ESB

Töpuð tækifæri - um Ísland og ESB

Í anda uppblásinnar þjóðernisrembu var skrifað bréf og umsókn Íslands að ESB lögð á ís fyrir þremur árum síðan, með sérhagsmuni að leiðarljósi, en gegn almannahagsmunum. Velta má hinsvegar fyrir sér þeim tækifærum sem hefði skapast ef Íslendingar hefðu fengið að kjósa um aðildarsamning og ef ferlið hefði fengið að ganga til enda.

Íslendingar glutruðu niður miklum tækifærum fyrir íslenskan landbúnað. Íslendingar glutruðu niður miklum tækifærum til innviðauppbyggingar og á sviði umhverfismála, þó svo að dulítið hafi verið bætt úr því um daginn. Einnig glutruðu þeir niður tækifæri til þess að taka upp alvöru gjaldmiðil, sem sveiflast ekki eins og pendúll og skapar stórbrotin vandræði. Nýlegt dæmi er bygging Marriot-hótelsins við Hörpu, þar sem allar kostnaðaráætlanir eru foknar út í veður og vind vegna krónunnar. Einnig fóru út um gluggann tækifæri fyrir byggðir landsins að gerast aðili að raunverulegri byggðastefnu og menn nú enn og aftur að glíma við stórkostlegan vanda (hrun?) í sauðfjárbúskap, það sem daglega kallast ,,vandi sauðfjárbænda.“ Ein rök gegn aðild voru einmitt þau að íslenskur landbúnaður myndi hrynja við aðild.

Uppblásin þjóðernishyggja

Þessi tækifærin sem nefnd eru hér fyrst í þessari grein hefði verið hægt að raungera með fullri aðild að Evrópusambandinu. En í stað þess að ganga alla þá leið, viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð með því að klára að ræða málið og til dæmis leyfa fólki að kjósa um fullklárðaðan samning, þá var gripið til lýðskrums, þjóðernishyggju og yfirgengilegs þjóðernisrembings. Umsóknin var sett á ís árið 2015 með því sem kalla mætti ,,uppblásnum bréfaskriftum.“ Þeir aðilar sem komu að því voru með brjóstkassann á lofti, nú hefðu þeir loksins gert þjóðinni gagn. Við þetta blandaðist svo afturhald á vinstri-væng stjórmálanna, þar sem reyndar margir umhverfissinnar eru og er það í raun rannsóknarefni hversvegna þeir eru ekki jákvæðari gagnvart ESB-aðild, en einhverjar mestu umhverfisrannsóknir í heiminum fara einmitt fram í Evrópu og ESB.

Sérstaða landbúnaðarins var viðurkennd

Í sambandi við landbúnaðarmálin er það nánast á tæru að Ísland hefði fengið hagfelldan samning, því ESB var búið að viðurkenna sérstöðu íslensks landbúnaðar. Líklegast má telja að ,,finnska módelið“ verið notað og sniðið að Íslandi. Það gengur út frá mjög mismunandi skilyrðum í landbúnaði, meðal annars því sem kallast ,,heimskautalandbúnaður“ en hann er stundaður hér á landi. Sumir vilja reyndar meina að sauðfjárbúskapurinn sé bara ein tegund af hirðingjabúskap. Með aðild að ESB hefðu íslenskir bændur fengið fullan og óheftan aðgang að öllum byggðaáætlunum ESB, en sambandið hefur stutt dyggilega við landbúnað í álfunni með ýmsum hætti og einnig stuðlað að rannsóknum og þróun í greininni. Í engu aðildarlandi hefur landbúnaður hrunið við inngöngu, en þetta eru meðal annar þau rök sem heyrst hafa frá íslenskum bændum gegn aðild að ESB. Falsök um að fæðuöryggi sé í hættu við aðild að ESB eru svo notuð til þess að hræða fólk, en það er eitt af klassískum aðferðum í áróðurstækni að nota hræðsluna sem vopn. Nú bíða íslenskir bændur eftir björgunarlínu frá alræðisríkinu Kína fyrir lambakjötsframleiðsluna, sem þarf s.s. að bjarga enn einu sinni.s Það er þó allsendis óvíst hvort um einhverja björgun verður að ræða.

Við veiðum – við ráðum

Nær fullvíst má einnig telja að Ísland hefði fengið hagfelldan samning í sjávarútvegsmálum, vegna þeirrar staðreyndar að við erum með viðurkennda 200 mílna lögsögu síðan um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar í kringum landið og yfirráð yfir henni. Og veiðireynslan innan hennar er yfirgnæfandi okkar. Að vísu höfum við gert samninga við önnur ríki um ,,slatta hér og þar“ og sennilegast að það hefði haldið áfram. Við höfum líka verið að innan lögsagna annarra landa í skjóli samninga. En yfirráðin hefðu verið okkar (og eru okkar) og ráðgjöf um aflaheimildir og veiðar myndu verða teknar samkvæmt ráðleggingum íslenskra vísindamanna. Auðvitað hefðum við sett fram þá kröfu og það hefði engan veginn verið hagsmunamál fyrir ESB að gera lélegan fiskveiðisamning við okkur, eina mestu fiskveiðiþjóð heims. Ef ekki, þá hefði á því strandað, bókstaflega, og því vorum við alltaf í betri samningsaðstöðu. Fals og hræðslurökin hér eru þau að ESB muni hirða af okkur auðlindina við aðild, þ.e.a.s. að hér myndu koma erlendir togarar og ryksuga miðin. En ESB hefur ekki hirt auðlind af neinni þjóð hingað til; Finnar eiga t.d. enn sína skóga, og bæði Skotar og Bretar sína olíu.

Innviðir hér og í Póllandi

Í fréttum að undanförnu hefur komið fram að svokölluð ,,innviðauppbygging“ hér á landi er með fjárþörf upp á nokkur hundruð milljarða króna. Vegakerfið hér á er nánast í rúst og stórhættulegt á mörgum stöðum (einbreiðar brýr, holur, gatslitnir kantar og fleira). Þetta vegna gríðarlegs álags, meðal annars vegna túrismans, sem og breytingum á flutningum hér innanlands. Hefði Ísland borið gæfu til þess að vera aðili að ESB, hefði landið getað framkvæmt, lagað og byggt upp með langtímaáætlun þar sem íslenska ríkið og ESB hefðu unnið saman að hinum ýmsu verkefnum. Oft er það þannig að aðildarríkið borgar 50% og uppbyggingarsjóðir ESB önnur 50%, eða álíka. Þetta er það sem Pólverjar hafa gert af miklum móð síðan þeir gengu í ESB árið 2004, en þar hafa verið unnin innviðaverkefni fyrir hundruðir milljarða evra. Um að ræða ein mestu innviðaverkefni í Evrópu eftir seinna stríð og Pólland orðið sjöunda stærsta efnahagskerfi ESB (sjá hér). Árið 2013 var framkvæmt fyrir um 16 milljarða evra í Póllandi og hefur ESB-aðild Póllands bæði skapað mikinn hagvöxt og störf. Búið er að byggja þúsundir kílómetra af nýjum vegum í Póllandi frá 2004. En hér á Íslandi höldum við áfram að ,,plástra“ og ,,klína“ í hér og þar, t.d. í vegakerfinu. Sem síðan spænist upp næsta vetur og endurtaka þarf sama leikinn að ári. Í sumar sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngumálaráðherra í samtali við Spegilinn að hann gæti hugsað sér að leggja um eitt prósent af þjóðarframleiðslu á næstu árum til uppbyggingu innviða, aðallega vegakerfis. En það er einmitt sú upphæð sem Ísland myndi greiða í aðildargjald að ESB, en á móti fá þá fullan aðgang að uppbyggingarkerfi sambandsins.

Svo er það krónan

Þá er það Krónan, blessuð krónan, minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi. Sem fært hefur okkur verðtryggingu og vaxtastig út úr öllu korti, miðað við önnur lönd. Gjaldmiðill sem þvingar fasteignakaupendur til að borga að minnsta kosti 1,5 til 2 fasteignir til baka þegar upp er staðið. Á tímabili gaf reyndar krónan íbúðaeigendum fasteignir sínar og sýnir þetta enn frekar hverskonar ólíkindatól krónan er. Nú er grátið vegna þess að nú er krónan einn ,,sterkasti gjaldmiðill í heimi“. Grátkórinn samanstendur nú af útflutningsaðilum og ferðaþjónustunni. Fyrir nokkrum árum var það almenningur vegna hruns krónunnar (já, hún hefur hrunið, en evran er enn ekki hrunin). Stóra spurningin er í raun þessi; hvenær munu Íslendingar fatta að það gengur ekki til lengdar að vera með svona ,,jó-jó-gjaldmiðil“? Krónan er eins og einstaklingur sem glímir við geðhvörf, einn daginn er allt frábært, hinn allt glatað! Í frétt í desember árið 2015 kom fram í samantekt efnahagstímaritsins Vísbendingar að árlegur aukakostnaður vegna krónunar er um 110-130 milljarðar. Einnig er það svo að öll helstu stórfyrirtæki hér á landi gera upp í evrum eða dollurum. Hversvegna skyldi það nú vera? Íslenskir launamenn sitja hins vegar uppi með Svarta Péturinn. Já, það þarf svo sannarlega að fara að ræða gjaldmiðilsmálin hér á landi og koma þeim í skikkanlegt horf. Ekki væri verra að gera það áður en næsta hagsveifla lætur á sér kræla, sem er þegar kannski byrjuð, hver veit?

Höfundur er M.A. í stjórnmálafræði

Ps.Fyrir áhugasama eru svo hér að neðan tenglar inn á síður um verkefni í Póllandi og fleira.

Frárennslisverkefni í Póllandi

Yfirlit yfir verkefni í Póllandi og fleiri ríkjum ESB

Framlög til verkefna í Póllandi 2014-2020

Grein þessi birtist fyrst á vef Kjarnans 19/9 síðastliðinn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni