Stöðvum túrismann - krónunnar og okkar vegna - eða öfugt?
Undanfarin misseri hafa þenslueinkennin hrúgast upp í íslensku samfélagi:
Gríðarleg eftirspurn eftir vinnuafli - allir sem vilja vinna - geta unnið
Erlent vinnuafl streymir inn sem aldrei fyrr, mest Pólverjar, til að vinna störf sem Íslendingar annað hvort vilja ekki vinna eða eiga ekki starfsfólk í.
Túristasprengjan tútnar úr (um 10 ferðafyrirtæki verða til á mánuði).
Hótel spretta upp eins og gorkúlur, höfuðborgin er orðin eitt hótel og nánast allar lausar íbúðir eru AirBnB, eða hýsa erlent verkafólk.
Fasteignaverð rýkur upp, vegna skorts á húsnæði og örvæntingar gætir meðal ungs fólks.
Krónunni hefur verið sleppt úr gjaldeyrishöftum, sem hún var í frá nóvember 2008, vegna banka og efnhagshrunsins sem varð hér nokkrum vikum fyrr. Nú þegar höftunum hefur verið aflétt er eins og þessi minnsti gjaldmiðill heims sé kominn með mikilmennskubrjálæði og sé á sterum. Uppsveiflan, eitt megineinkenni íslensks efnahagslífs (hitt er niðursveiflan) er hafin og vel það.
Það hófst eftir að Jóhönnustjórnin var búin að skera íslenskt samfélag niður við trog og rétta af um 200 milljarða halla á fjárlögum.
Íslendingar streyma nú til útlanda (dollarinn að nálgast 100 kallinn) og erlendur varningur, bílar og annað góðgæti flæðir inn í landið. Bílaumboðin fitna eins og púkinn á fjósbitanum.
En menn eru byrjaðir að væla, vælu og grjenukórinn hefur hafið upp raust sína: Ferðaþjónustan vælir (ferðamenn eyða minna og staldra styttra við), útflytjendur á fiski væla og bændur hafa bæst í þenna vælukór.
Þar með erum við komin með enn eitt megin einkenni hagkerfsins; krónan ýkir sveiflurnar og þeir sem bæði hagnast á sveiflunum og eða tapa á þeim, verða hundfúlir og krefjast aðgera.
Í gamla daga dugði símtal frá LÍU (gamla SFS) til fjármálaráðherra eða forsætis - og gengið var fellt daginn eftir. En það var þá og menn sem betur fer búnir að leggja þann ósið af.
Í staðinn reyna menn að beita "fágaðri" aðferðum til að hafa hemil á genginu, aðallega beitingu stýrivaxta, til þess að "kæla" hagkerfið, þegar sagt hefur verið að um "ofhitnun" þess sé að ræða. Þetta er svona svipað og þegar slökkvilið er að slökkva eld. En stundum dugar það bara ekki til og eldurinn brennur áfram og eyðir öllu sem fyrir honum verður. Það hefur því miður verið raunin með íslensku krónuna - hún hefur einfaldlega látið illa að stjórn og stýrivextir hafa bitið illa hingað til. Krónan er því eins og "villingurinn í hverfinu" sem lætur ekki segja sér fyrir verkum. Og nú er hann aftur kominn á stjá.
En hvað er þá hægt að gera? Á að setja innflutningshöft? Bæði á ferðamenn og varning? Einfaldlega setja takmörk á það hvað við tökum inn mikið af "drasli" - sem og ferðamönnum? Menn hafa nú þegar sagt að miðað við innviði landsins, sem túrisminn kominn á þann stað, að menn geti spurt sig; er þetta orðið gott?
Frelsispostular segja að sjálfsögðu nei nei nei, við hugmyndum sem þessum og í sjálfu sér eru höft og bönn ósækileg og ekki skemmtilegt fyrirbæri. Við viljum vera frjáls, hafa frelsi, bæði til orðs og æðis. En frelsið er vandmeðfarið og ekki alltaf auðvelt viðureignar.
Það er hinsvegar ekki hægt að láta hagkerfið fara í klessu eina ferðina enn og kannski má spá því að verði ekkert að gert (og haldi til dæmis þessi styrking krónunnar áfram), að þá verði allt komið í bál og brand, eftir segjum tvö ár; haustið 2019.
Aðsjálfsögðu er þetta bara ágiskun, en það er bara eðli Íslendinga sem vekur pínu ugg. Við erum nefnilega enn vertíðarfólk og nú "gefur vel" - allir (a.m.k. flestir) eru glaðir og þá vilja menn ekkert vera að krukka í hlutunum. Ekki skemma partíið. En við skulum bara vona að það fjari bara hægt og rólega út og allir komist heilir heim, en það endi ekki með einhverri hræðilegri uppákomu, eins og gerðist haustið 2008. Það vill enginn fara í þannig partí aftur.
Athugasemdir