Sokkinn borgarfulltrúi
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir er sokkinn borgarfulltrúi. Og hún sökkti sér sjálf. Farinn, bæ og bless við Framsóknarflokkinn, sem hún segir ekki eiga lengur samleið með sér. Sem er gott fyrir Framsóknarflokkinn.
En Sveinbjörg Birna er náttúrlega bara popúlisti, sem er enska orðið yfir lýðskrumara. Hún sannaði það með rækilegum hætti fyrir síðustu borgarstjórnarskosningar þegar Framsókn var í "dauðateygjunum" í borginni og stefndi í sögulegt afhroð.
Þá kom Sveinbjörg inn á sviðið og byrjaði að ráðast á minnihlutahópa, aðallega múslima og þar með sló hún á strengi sem fáir hafa slegið á hér á landi.
Það er eitt elsta "trixið" í (stjórnmála)bókinni að spila á hræðslu fólks við hið óþekkta og fjölmargir stjórnmála og áhrifamenn nota það og hafa gert í gegnum tíðina.
Sveinbjörg Birna gerir sér að öllum líkindum grein fyrir þessu.
Og það er ekki neinum blöðum um það að fletta að hér á landi er fullt af rasistum. Í þeim heyrir maður til dæmis á útvarpi Sögu, bæði almennum hlustendum, sem og þáttastjórnendum.
Það sem er í gangi hér rímar við það sem er í gangi erlendis, en þar hefur umræða um flóttamenn og innflytjendur verið heiftúðug.
Í kjölfarið á afsögn Sveinbjargar koma nú fram raddir sem lýsa eftir "kjarki" til þess að ræða innflytjendamál? Hverskonar kjarkur á það að vera? Kjarkur til þess að segja útlendingum að hypja sig heim og að þeir séu óæskilegir, dýrir og svo framvegis? Er það þannig "kjarkur" sem að menn eru að lýsa eftir?
Sem stendur er málið þannig vaxið að hér á landi eru tugir þúsunda útlendinga sem nánast allir eru í vinnu og að borga skatta. Í vikunni fékk undirritaður sér að snæða kvöldmat á einum veitingastaða borgarinnar og af c.a. 10 starfsmönnum í sal voru 2 Íslendingar. 20%! Stúlkan sem afgreiddi mig var frá Portúgal og sagðist búa hér ásamt fimm vinum sínum, sem allir eru að vinna í hótel og veitingabransanum að hennar sögn. Þetta eru fólkið sem er að vinna láglaunastörfin sem Íslendingar fást ekki í!
Stúlkan sagði að henni liði vel og að hér vildi hún búa.
Málið er þetta: Útlendingar sem vinna hér á landi, skapa ríkinu og fyrirtækjum sínum miklu meiri tekjur heldur en sem nemur kostnaði við innflytjendur og flóttamenn, enda tekur Ísland við mjög fáum flóttamönnum á alþjóðavísu. Þar getum við í raun gert miklu betur.
Því Ísland er ríkt land, eitt það ríkasta í heimi.
Athugasemdir