Kosningar í Rússlandi - skoðanakönnun um Pútín
Næsta sunnudag verða forsetakosningar í Rússlandi. En þær eru í raun bara skoðanakönnun um fylgi Pútíns. Hann mun vinna og verður forseti til 2024 hið minnsta. Samskipti Rússlands og Vestursins hafa sjaldan verið verri frá lokum Kalda stríðsins og nýtt eiturefnamál í Bretlandi gerir illt verra. Þá er Rússland aðili að borgarastríðinu í Sýrland og átökunum í Úkraínu.
Næstkomandi sunnudag ganga Rússar að kjörborðinu í forsetakosningum. Það er að segja ef kosningar skyldi kalla. Sumir segja nefnilega að þetta sé í raun bara skoðanakönnun á vinsældum sitjandi forseta, Vladimírs Pútíns. Sem hafa verið miklar undanfarin ár, meðal annars vegna brota hans á alþjóðalögum árið 2014, þegar hann hrifsaði Krím-skaga af Úkraínu, sjálfstæðu ríki. Kosningarnar ber einmitt upp á fjögurra ára minningu þess atburðar.
Pútín hefur í raun stjórnað Rússlandi frá því að hann var skipaður forseti af Boris Jeltsín, sem sagði af sér um aldamótin 2000. Jeltsín var fyrsti forseti hins ,,nýja“ Rússlands, sem reis upp úr hruni Sovétríkjanna árið 1991. Á árunum þar á eftir gengu Rússar og Rússland í gegnum ótrúlegar þrengingar, með óheftum dólgakapítalisma, auknum glæpum, fólksfækkun og mikilli niðursveiflu í lífskjörum hins almenna Rússa.
Á þessum árum urðu ofurríkir menn, svokallaðir ,,ólígarkar“ mjög áberandi menn í rússnesku samfélagi, en margir þeirra (þetta var í raun mjög fámennur hópur) sölsuðu undir sig gríðarleg auðæfi, með allskyns bellibrögðum, enda eftir miklu að slægjast, Rússland er jú gríðarlega ríkt af auðlindum á borð við olíu og málmum.
Ræturnar eru í KGB
Við valdatökuna sagðist Pútín staðráðinn að snúa gæfu Rússlands við og hefja landið á ný til vegs og virðingar. Hann sagði að hrun Sovétríkjanna hefði verið einskonar ,,sögulegt stórslys“ á 20.öldinni. Sem fyrrum ofursti KGB-leynþjónustunnar var Pútín (og er) hinsvegar afkvæmi gamla sovét-kerfisins. Margir gagnrýnendur segja njósnferil hans einkenna mjög störf hans sem forseti, enda hefur hann raðað KGB-mönnum og öðrum aðilum úr öryggisgeiranum í kringum sig. Þessir menn eru kallaði ,,siloviki“ á rússnesku. Fjöldi þeirra kemur frá Sankti Pétursborg (fyrrum Leníngrad) en Pútín er þaðan (fæddur 1952).
Pútín var kosinn í embætti í forsetakosningum mars árið 2000 og aftur árið 2004. Árið 2008 var svo komið að hann mátti ekki bjóða sig fram aftur sökum ákvæða í stjórnarskrá landsins. Þá bar hinsvegar svo við að helsti vinur hans og samstarfsmaður, Dmitry Medvedev, var kosinn forseti og Pútín gerður að forsætisráðherra. Þá var stjórnarskránni einnig breytt, sem gerði Pútín kleift að bjóða sig aftur fram og valdatími forsetans nú lengdur úr fjórum í sex ár. Árið 2012 var Pútin því kosinn enn á ný og nú er ekkert sem bendir til þess að hann vinni ekki kosningarnar. Hann verður því forseti til að minnsta kosti 2024. Enginn annar leiðtogi en hinn grimmi Jósef Stalín hefur verið lengur við völd í Rússlandi (1922-1953).
Lífskjör upp en svo niður
Á fyrstu árum Pútíns í embætti fóru lífskjör batnandi í Rússlandi og réði hækkandi olíuverð þar mestu um. Þegar Pútín tók við embætti kostaði tunnan af hráolíu um 30 dollara, en árið 2008 var hún komin í um 100 dollara. Frá 2012 seig hinsvegar á ógæfuhliðina árið 2015 var olíutunnan komin í aðeins 50 dollara. Þýddi þetta neikvæðan hagvöxt (samdrátt) í rússneska hagkerfinu. Þá var Rússland líka komið í stríð (ekki þó með formlegum hætti) í Úkraínu og stríð kostar peninga. Nú er tunnan í kringum 65 dollara.
Umfjöllun um spillingu og ,,rányrkju“ ráðamanna hefur einnig verið yrirferðarmikil hin síðari ár. Um og eftir þingkosningar í desember 2011 og forsetakosningarnar vorið 2012 urðu mjög mikil mótmæli víða um Rússland. Stjórnvöld tóku mjög hart á þeim og fjöldi fólks var handtekinn. Margt bendir til þess að umfangsmikið kosningasvindl hafi verið um að ræða í þessum kosningum og fékk Pútín ,,aðeins“ um 63% atkvæða, sem ekki þykir mikið fyrir hann. Það þykir ekki mjög ,,pútínsk“ kosning. Nú vilja hans menn að hann fái minnst 70% atkvæða og að þátttaka verði hið minnsta í kringum 70%.
Er Rússland stórveldi?
Sovétríkin urðu að stórveldi á 20.öld, en ekki eru allir á þeirri skoðun að Rússland sé stórveldi í dag og sumir meira að segja hafna því alfarið. Þeir sem stjórna ganga hinsvegar út frá því og sérstaklega Pútín, sem hefur það í raun sem markmið. Að minnsta kosti á svæðinu í kringum Rússland. Þó Rússland sé ríkt land þá er þjóðarframleiðsla þeirra aðeins á pari við Spán, sem er sjötta stærsta hagkerfi Evrópu. Misskipting er óvíða meiri en í Rússlandi og um 110 manna hópur auðmanna er talinn eiga um 35-40% alls auðs í rússnesku samfélagi. Þessi misskipting er stöðugt umfjöllunarefni á samfélagsmiðlum, sem Rússar eru duglegir að nota. Misskiptingin veldur gremju og óánægju. Hafa menn til dæmis áhyggjur af því að vegna hennar og versnandi lífskjara yfirgefi ungt fólk Rússland. Það sjái ekki möguleika í sínu heimalandi.
Hinir sjö vonlausu
Í kosningunum núna á sunnudag er enginn af þeim sjö sem bjóða sig fram gegn Pútín talinn eiga minnsta möguleika á að vinna og ganga þeir undir nafninu ,,hinir sjö vonlausu“. Þeir eru frekar meira sem punt og þjóna tilgangi upp á útlit kosninganna að gera. Eini aðilinn sem mögulega gæti veitt Pútín samkeppni hefur verið útilokaður, en það er lögfræðingurinn og bloggarinn Alexei Navalny (mynd). Hann var ákærður á sínum tíma fyrir svik með timburvörur og því útilokaði rússneska kjörnefndin hann. Mannréttindadómstóll Evrópu (sem Rússland er aðili að) komst hinsvegar að því að dómurinn bryti gegn mannréttindaákvæðum, væri handahófskenndur og ,,ósanngjarn“. En það breytti engu. Navalny hefur hinsvegar talsverða hreyfingu á bakvið sig og hefur skipulagt fjölda mótmæla. Hann hefur líka verið handtekinn og stungið steinninn nánast í hvert skipti sem hann mótmælir.
Milljónamæringur í framboði fyrir Kommúnistaflokkinn
Meðal hinna frambjóðenda eru svo skrýtnir fuglar á borð við Pavel Grúdinin, frambjóðandi Kommúnistaflokksins. Hann er milljónamæringur og forstjóri samyrkjubús nálægt Moskvu. Auk þess er hann ekki félagi í Kommúnistaflokknum, sem hlýtur sð teljast nokkuð merkilegt. Eina konan í hópnum er Ksenia Sobchack, en svo vill til að hún er dóttir lögfræðingsins Anatoly Sobchack, sem var aðalmaðurinn í stjórnmálum Pétursborgar á tíunda áratug síðustu aldar og Pútín vann fyrir. Líta má á hann sem ,,guðföður“ Pútíns í stjórnmálum, en Sobchack var einn af höfundum núverandi stjórnarskrár Rússlands. Hann lést úr hjartaáfalli árið 2000, sama ár og Pútín varð forseti Rússlands.
Pútín er ,,óháður“ frambjóðandi
Pútín býður sjálfur fram sem ,,óháður“ frambjóðandi, stundar nánast enga kosningabaráttu (og hefur eiginlega aldrei gert). Hann notar bara sjónvarpið, enda ræður hann yfir því og flestir Rússar fá allar sínar uppslýsingar úr miðlum sem Pútín (ríkið) stjórnar beint eða óbeint. En breytist eitthvað núna í Rússlandi við kosningarnar? Nei, að öllum líkindum ekki. Pútín verður kosinn og mun að öllum líkindum stjórna til 2024, en þá verður hann 72 ára gamall. Fréttaskýrendur eru þegar farnir að velta fyrir sér arftaka hans, en það er enginn slíkur í sjónmáli. Hinsvegar er að vaxa upp kynslóð í Rússlandi sem þekkir ekkert annað en stjórn Pútíns, það er að segja ,,einstjórn Pútíns“ - ,,kerfi Pútíns.“ Varla getur það verið hollt fyrir rússneskt lýðræði, sem er ekki eins og við skiljum hugtakið hér á Vesturlöndum, heldur eitthvað alveg sér-rússneskt. En því er stýrt af einum manni og sá maður er Vladimír Pútín.
Höfundur er MA í stjórnmálum A-Evrópu frá háskólanum í Uppsölum, Svíþjóð.
Grein þessi birtist fyrst í Kjarnanum þann 6.mars og er hér lítillega uppfærð.
Athugasemdir