Sjúklingurinn er útskrifaður
Það er búið að útskrifa sjúklinginn. Sem næstum gaf upp öndina fyrir rúmum átta árum síðan og hefur allt frá því verið meira eða minna á gjörgæslu.
Hann hefur verið að hressast og sumir vilja í raun meina að hann sé nú við hestaheilsu. Aðrir hafa hinsvegar áhyggjur og telja að mögulega geti hann fallið aftur í fyrra horf og hreinlega orðið hundveikur aftur. Hvað varir þetta ástand lengi? Hve lengi getur sjúklingurinn verið í "eðlilegu" umhverfi?
Það versta er að þessi sjúklingur er svoddan ólíkindatól, enginn veit hvernig hann mun hegða sér í framtíðinni eða hverju hann mun taka upp á. Já, þetta er eiginlega það al-versta.
Sem og sú staðreynd að þau lyf sem menn telja sér trú (og vilja trúa) um að virki, þau hafa í raun ekki gert það hingað til og í raun engin vissa fyrir því að þau muni gera það í framtíðinni. Ekkert er öruggt og enginn er öruggur.
Þegar þessi sjúklingur verður lasinn, þá verður hann yfirleitt illa lasinn og óheilsa hans bitnar oftar en ekki mjög illilega á öllum almenningi. En svo eru ákveðnir aðilar sem reyndar græða vel á óheilsu hans og hafa í raun gert undanfarin ár.
Við höfum engar tryggingar um það hvað framtíð þessa sjúklings munir bera í skauti sér. Honum fylgir jafnan mikil óvissa og jafnvel ótrúverðugleiki. Þegar sjúklingurinn virðist hress, þá virðist hann ofur-hress, en það treystir því enginn að það muni vara til langframa.
Þessvegna er alltaf fullt af sérfræðingum ráðnir í fulla vinnu til þess að vega og meta framtíðarhorfur sjúklingsins. Menn spá mikið og spekúlera í þessum sjúklingi. En alltaf verður óvissan samt til staðar. Sama hvað menn reyna.
Og við hin bíðum í raun með hjartað í buxunum…
Athugasemdir