Hverskonar hópur eru útgerðarmenn?
Nokkur af nýjustu og flottustu fiskveiðiskipum heims eru í íslenskri eigu og á undanförnum mánuðum hefur fjöldi skipa verið keyptur til landsins. Kannski ekki nema von, því að hagnaður útgerðarinnar hefur verið með ólíkindum frá hruni, eða um 400-500 milljarðar króna, eins og sést hér.
Þess vegna er það óskiljanleg staðreynd að sjómenn hafi verið samningslausir í á sjötta ár og ekkert gengur í samningum við ,,hetjur hafsins.“ Og þetta verður enn óskiljanlegra í ljósi þeirrar staðreyndar að kröfur sjómanna hljóma upp á um 4 milljarða . Sem er í raun hlægileg upphæð miðað við hagnað útgerðarinnar síðastliðinn 6-8 ár.
Skortir útgerðarmenn algerlega virðingu gagnvart launamönnum sínum? Er það markmið útgerðarmanna að hafa sjómenn sem 2. eða 3ja flokks launþega? Mennina sem í raun draga auðinn úr hafi? Vilja útgerðarmenn hafa sjómenn hundóánægða, arga og ósátta við stöðu sína? Hvurslags vinnuveitendur eru íslenskir útgerðarmenn? Finnst þeim þetta vera sér til framdráttar?
Mér er það til efs að álíka staða hafi komið í samskiptum við t.d. norska sjómenn, sem við miðum okkur gjarnan við. Það væri mjög áhugavert að heyra af því hvort norskir útgerðarmenn hafi sýnt sínum sjómönnum þá lítilsvirðingu að hafa þá samningslausa svo árum skiptir. Því þetta er íslenskum útgerðarmönnum til háborinnar skammar.
Eru það virkilega peningarnir sem stoppa þetta? Sjá útgerðarmenn eftir 4 milljörðum í sjómenn? Það mætti halda að svo sé raunin. Eða er útgerðin hrædd við sjómenn og að þeir fái sjálfsögð réttindi, sem vinnandi stétt?
Og það er útgerðarmönnum til enn meiri smækkunar að hlaupa ríkisvaldsins, í þeirri von að ríkið leysi deiluna, væntanlega með því að setja lög. Þetta er óhemju vandræðalegt. Eða eru útgerðarmenn bara viljandi að bíða eftir að allt far í kaldakol í greininni og lög verði sett? Slíkt væri gersamlega óábyrgt. Semjið við sjómenn strax, þetta er bara hallærislegt og útgerðinni til minnkunar.
Mynd: GHÁ
Athugasemdir