Þessi færsla er meira en ársgömul.

Ófriðarský

Ófriðarský

Sagan segir að á þessum degi, 11/11, kl. 11.11 árið 1918 hafi síðustu skotunum í fyrri heimsstyrjöld verið skotið og þá hafi tekið gildi vopnahlé, sem þýddi endalok þeirrar slátrunar sem þetta skelfilega stríð var.

Aldrei hafði mannkynið séð aðra eins ,,skilvirkni“ i slátrun á fólki. Vélbyssur, eiturgas, fallbyssur og sprengjur, sem ,,sprengdu“ alla skala.

Ef það er eitt orð sem lýsir þessu stríði hvað best, þá er það orðið ,,skotgrafir“. Menn grófu sig niður á vígvöllunum og gerðu þaðan áhlaup, ungir menn hlupu beint í vélbyssukjaftana og voru sallaðir niður.

En gleymum ekki almenningi, á þessum fjórum árum féllu um um 10 milljónir almennra borgara. 2,5 milljónir per ár. Svipað féll af hermönnum. Særðir voru um 20 milljónir, samtals um 40 milljónir manna. Það er álíka og allir íbúar Úkraínu.

Hermenn og almenningur hlutu örkuml út ævina, áfallastreituröskun var algeng vegna hrikalegrar notkunar á fallbyssum. Í sumum orrustum féllu allt að milljón hermanna (dæmi Somme/Verdun, Frakklandi).

Að sumu leyti erum við nú, 105 árum síðar, að sjá þessa hluti endurtaka sig, bæði í Úkraínu og á Gaza. Á fyrri staðnum er allt hlaupið í baklás og hvorugur stríðsaðilinn kemst hvorki lönd né strönd, en mannfall er gríðarleg. Þar verða menn í skotgröfum í vetur. Sumarsókn Úkraínumenn gekk alls ekki sem skyldi, en Rússar eru einnig fastir á margan hátt.

Á Gaza sjáum við svo dæmi um ógnvænlega ,,skilvirkni“, þar sem Ísraelsher er búinn að slátra um 11.000 manns á um einum mánuði, þar af 3-4000 börnum. Eða frá 7.október þegar Hamas-hryðjuverkasamtökin gerðu skyndiárás inni í Ísrael, frá Gaza.

Hrikaleg frásögn birtist fyir skömmu í þættinum Hard Talk á BBC, þar sem rætt var við hátt settan Palestínumann, Mustafa Barghouti, en hann leiðir samtök sem kallast ,,Palestinian National Initiative.“ Hann er eðlisfræðingur að mennt og var meðal annars ráðherra í stjórn Palestínumanna árið 2007. Þessum samtökum hefur verið lýst sem ,,þriðja aflinu“ í stjórnmálum Palestínu (hin eru Fatah og Hamas).

Hjá Mustafa kom fram að frá fyrstu Intidafa-uppreisninni (gegn hernámi/landnámi Ísraels) árið 1987 er búið að drepa um 120.000 Palestínumenn á Gaza og Vesturbakkanum. Búið er að handtaka um eina milljón manna, af fimm milljónum, s.s. um 20% palestínsku þjóðarinnar.

Allar tölur í þessum átökum eru með þeim hætti að halda mætti að Ísraelsmenn væru óðir. Þeir borga yfirleitt alltaf margfalt til baka, með ,,nýjustu og bestu“ græjum sem þeir fá frá Bandaríkjamönnum, en þaðan koma um 4 milljarðar dollara í beinan hernaðarstuðning á ári hverju, eða um 600 milljarðar íslenskra krróna á gengi dagsins (dollari = 144 kr). Best er að lýsa þessum átökum sem leik kattarins að músinni.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin "Bibi" Netanyahu, hegðar sér nú eins og stríðsherra, staðráðinn í ganga milli bols og höfuðs á andstæðingnum. Fyrir hann er gott að hafa stríðið sem lengst, því þegar því lýkur á hann yfir höfði sér rannsókn á því hvað klikkaði hjá hinni mögnuðu Mossad-leyniþjónustu og öllu ,,öryggisbatteríinu“ í Ísrael. Af hverju vissu þeir ekki af hinni hræðilegu árás Hamas? Þar var um 1400 manns var slátrað, engum eirt og fleiri hundruð mans tekin í gíslingu. Hefur þessu verið lýst sem einum mestu ,,leynþjónustumistökum“ síðari ára, eða á ensku ,,intelligence failure“.

Ástandið i heiminum er því miður þannig að manni líst ekki á blikuna, það er virkilega ófriðlegt um að litast, ekki laust við að hugrenningar manns renni til bókarinnar ,,Veröld sem var“ eftir Stefan Zweig, þar sem hann lýsir uppgangi nasista í Þýskalandi á 3ja áratug síðustu aldar. Bók sem allir ættu að lesa.

Svo virðist vera sem lýðræði, umburðarlyndi og umhyggja fyrir mannslífum séu á miklu undanhaldi, en öfgar, hatur, lítilsvirðing, og grimmd séu að sækja verulega í sig veðrið. Skýin á sjóndeildarhringnum eru dökk, því miður.

Við þetta blandast svo máttleysi bæði leiðtoga valdamikilla þjóða, beggja vegna Atlantshafsins, sem og mikið getuleysi stofnana á borð við Sameinuðu þjóðanna til að stilla til friðar. Það hlustar enginn á SÞ, sem er eins og getulaus kjaftaklúbbur.

Eina sem SÞ virðist geta gert er að koma með einhverja plástra í formi mannúðaraðstoðar, sem auðvitað er mjög gott, en það bara dugar ekki til gegn öllum þeim hörmungum og óhugnaði sem örfáir kallar (þetta eru allt karlmenn) orsaka á móti.

Menn standa því uppi ráðalausir gegn grimmdinni, svo virðist sem hún standi alltaf uppi sem "sigurvegari". Þetta er eiginlega saga heimsins. Það er dapurt, virkilega dapurt. Og svo auðvitað, almenningur, saklausir borgarar, virðast alltaf vera þeir sem borga brúsann.

Myndir fengnar að láni frá History.com (samsett), slóð: https://www.history.com/haunting-photos-of-wwi-soldiers-at-the-battle-of-the-somme

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Nýtt efni