Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Kyrkingartakið

Kyrkingartakið

Það er kallað ,,kyrkingartakið“ (e. ,,The Chokehold“) en þetta hugtak vísar til þeirrar meðferðar sem margir svartir í Bandaríkjunum telja sig verða fyrir af hendi lögregluyfirvalda og þar sem félagslegt óréttlæti gagnvart svörtum virðist vera að aukast frekar en hitt og orðið ,,bakslag“ kemur upp í hugann.

Persónuleg reynsla

,,Kyrkingartakið“ er einnig nafnið á bók sem kom út árið 2017 og er eftir fyrrum alríkissaksóknarann Paul Butler (The Chokehold – Policing Black Men). Hann er sjálfur svartur og hefur persónulega reynslu af ,,kyrkingartakinu“, þ.e.a.s. hann hefur orðið fyrir því sem kalla má lögregluofbeldi eða óhófleg valdbeiting.

Bók Butlers er nöturleg lýsing á hlutskipti svartra í Bandaríkjunum, sem hafa logað í mótmælum, eftir að blökkumaðurinn George Floyd var kyrktur (og myrtur) á götu úti í borginni Minneapolis þann 25.maí síðastliðinn. Það var hvítur lögreglumaður, Derek Chauvin, sem lá með annað hnéð á hálsi Floyd í næstum 9 mínútur og hreinlega kæfði og drap Floyd að viðstöddum fjölda vitna, sem kvikmynduðu aftökuna (þetta var ekkert annað en aftaka).

Á myndupptökum sést að Floyd veitti nánast enga mótspyrnu, en hann var undir áhrifum fíkniefna þegar hann var handtekinn eftir að hafa reynt að kaupa sígarettur með fölsuðum peningaseðli.

Almenna hugmyndin um lögreglu er sú að hún framfylgi lögunum og sé til þess að vernda almenna borgara, en ekki myrða þá (,,to protect and to serve“ – einkunnarorð lögreglunnar í Los Angeles). En tölfræðin er sláandi; árin 2018 og 2019 voru um þúsund einstaklingar skotnir til bana af bandarískum lögreglumönnum, ár hvert, eða samtals um 2000 manns. Lögreglumenn deyja líka við skyldustörf, að meðaltali falla um 60 til 70 lögreglumenn á ári hverju í Bandaríkjunum (Heimildir: Statista.com/Wikipedia).

Fékk 18 kvartanir á 19 árum

Á 19 ára ferli sínum hjá lögreglunni í Minneapolis, hafði Chauvin fengið á sig 18 kvartanir, eða næstum eina á ári, og einnig hefur Chauvin fengið opinbera viðvörun vegna starfa sinna. Þess ber þó einnig að geta að hann hefur fengið viðurkenningar fyrir störf sín, en Chauvin er fyrrum herlögreglumaður.

Chauvin var rekinn úr starfi daginn eftir atvikið og er nú ákærður fyrir manndráp, en einnig hefur honum verið birt skattaákæra, sem er frekar talin líkleg til þess að hann verði sakfelldur, því það er sjaldgæft að lögreglumenn séu sakfelldir fyrir alvarleg brot í starfi í Bandaríkjunum.

Eitt frægasta dæmið um slíkt er mál Rodney King árið 1991, þar sem nokkrir lögreglumenn í Los Angeles voru sýknaðir af ákærum og allt varð vitlaust útaf, borgin logaði í óeirðum í nokkra daga. Á Netflix er hægt að sjá mjög fróðlega heimildamynd um það mál, LA 92.

Kyrkingartakið, bók Butlers, er í raun tvennt; hún er nöturlega lýsing á aðstæðum og hlutskipti svartra (karlamanna) í Bandaríkjunum og síðan eru hún einskonar leiðbeiningarrit um hvað svartir (karlmenn) geta gert til þess að lenda ekki í því sem Butler kallar ,,kyrkingartakið“, en það bitnar langmest á svörtum körlum.

,,Svartur að keyra“

Kyrkingatakið er meðal annars safnhugtak yfir hegðun og háttsemi margra bandarískra lögreglumanna (alls ekki þó allra) gagnvart samborgurunum og er neikvæð, til dæmis að handtaka svarta menn í bílum sínum án nokkurrar sýnilegrar ástæðu (kallast ,,DWB“ ,,driving while black“) og eða að handtaka unga svarta menn á götum úti, líka án nokkurrar sýnilegrar ástæðu.

Hugtakið vísar líka til ýmissa laga sem Butler segir að séu sett í þeim tilgangi að halda svörtum niðri og stjórna þeim sem þjóðfélagshópi. Butler segir að fjölmargt í bandarísku samfélagi miði einfaldlega að því að kúga og þar með stjórna svörtum.

Eitt ,,verkfærið“ sem fellur undir kyrkingarhugtakið kallast ,,frisking“ og hefur verið beitt grimmilega í New York, en í því felst að stoppa og leita á einstaklingum (án gruns eða dómsúrskurðar). Árangur þessarar aðferðar við ,,brotaminnkun“ (,,crime prevention“) hefur þó verið nánast enginn samkvæmt bók Butlers.

Á árunum 2002-2013 voru yfir 5 milljónir einstaklinga teknir fyrir með þessum hætti í borginni og yfirgnæfandi meirihluti þeirra voru svartir. Árið 2011 voru tæplega 700.000 svona tilvik! Þau voru þó aðeins um 13.000 árið 2019. Við þetta er yfirleitt gerð niðurlægjandi líkamsleit á viðkomandi einstaklingi.

Engin gögn eru til sem benda til þess að þessi aðferð hafi aukið öryggi í borgum Bandaríkjanna eða minnkað glæpi. Margt er hinsvegar sem bendir til þess að þetta hafi aukið verulega á andúð á lögreglunni og torveldað samvinnu við hana.

Svartir 1/3 af föngum

Alls eru svartir um 13% íbúa Bandaríkjanna og eru svartir karlar um helmingurinn af þessari tölu. Í allri afbrotatölfræði hallar verulega á svörtu karlana, þeir eru t.d. um 35% af öllum föngum í Bandaríkjunum á hverjum tíma (fer þó fækkandi) en á hverjum tíma eru meira en 2 milljónir fanga á bakvið lás og slá í landinu. Ekkert land er með fleiri fanga að staðaldri.  Á árinu 2016 voru um 860 fangar pr. 100.000 íbúa í Bandaríkjunum, en það samsvarar því að hér á landi hefðu um 3000 manns verið í fangelsi. Á Íslandi eru um 40 fangar pr. 100.000 íbúa samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands og því um 120 – 130 fangar að staðaldri í afplánun hérlendis.

Fangelsi sem iðnaður

Í frægri bók árið 1993 (Crime Control As Industry Towards Gulags, Western Style) lýsti norski afbrotafræðingurinn Nils Christie (nú látinn) bandaríska fangelsiskerfinu sem ,,fangelsisiðnaði“ og kerfi sem þyrfti sífellt ,,nýtt hráefni“ (fanga) til að viðhalda sér. Enda hluti fangelsa einkarekin og þurfa því að skila hagnaði. Ýmislegt bendir til þess að hann hafi rétt fyrir sér.

Í Bandaríkjunum eru svartir á aldrinum 18-35 ára í sérstökum áhættuhópi og þeir eru mun líklegri en hvítir (sem eru um 31% af íbúafjöldanum) að verða fyrir allskyns ofbeldi, ekki síst lögregluofbeldi. Á árunum 2010-2012 voru um 75% þeirra sem voru skotnir af lögreglunni svartir.

Svartir fá lengri dóma

Að vera svartur í Bandaríkjunum þýðir einnig að þú ert með minnstar lífslíkur, 72,2 ár, á móti 76,6 hjá hvítum og 78.8 hjá spænskumælandi. Hjá svörtum karlmönnum fæddum árið 2001 mun einnig einn af hverjum þremur lenda í fangelsi á lífsleiðinni og almennt fá svartir lengri dóma en aðrir hópar.

Þeir eru einnig mun líklegri til þess að vera teknir af lífi í fangelsum landsins, þ.e.a.s að aftökudómum sé framfylgt. Meðal annars eru dæmi um að bætt hafi verið við stigum á greindarprófi svartra fanga svo hægt hafi verið að taka þá af lífi! Það eru hreinlega lög í sumum fylkjum Bandaríkjanna sem leyfa þetta.

Það er meira en 200% líklegra að svartir lendi í handjárnum en hvítir og yfir 300% líklegra að beint sé byssu að svörtum manni en hvítum. Þeir eru nær tvöfalt líklegri að verða fyrir spörkum, piparspreyi og álíka og um 170% líklegri en hvítir til að verða gripnir (,,grabbed“) af lögreglu.

Glæpatíðni á niðurleið

Morðtölfræði meðal svartra er einnig átakanleg; um helmingur morða eru framin af svörtum og um helmingur fórnarlambanna eru svört (,,svartir drepa svarta“) en algengt mynstur í morðum er að þau eru ,,innan kynþátta“ (,,intra-racial“). Á meðan glæpatíðni hefur almennt verið á niðurleið í Bandaríkjunum eru hún hinsvegar ekki á niðurleið meðal svartra, heldur þvert á móti og árið 2013 voru svartir um 10 sinnum líklegri en hvítir að verða fórnarlamb morðs.

Fleiri drepnir en í Írak og Afganistan

Um 40% af öllum ofbeldisglæpum í Bandaríkjunum voru árið 2013 framdir af svörtum og á síðustu 15 árum hafa fleiri svartir menn verið drepnir í ofbeldisglæpum í borginni Chicago, en hafa fallið í stríðunum í Írak og Afganistan (um 10.000 manns, innskot GH).  Um miðjan júlí síðastliðinn voru 10 manns drepnir í Chicago á einni helgi og 70 særðust. Karlmenn eru yfirgnæfandi, meira en 90%, í allri afbrotatölfræði í Bandaríkjunum.

Ein skýring á þessu er að sjálfsögðu sú að gríðarlegur fjöldi skotvopna í umferð, en byssueign meðal almennings er sennilega hvergi meiri en í Bandaríkjunum. Enda er skotvopnalöggjöfin þannig víða að fólk getur verið þungvopnað á almannafæri. Að sjálfsögðu eru fleiri skýringar á þessu, flestar félagslegar, þar sem það er nokkurn veginn öruggt að enginn einstaklingur fæðist glæpamaður.

Löng saga

Almennt telur Paul Butler hinsvegar að meðferð yfirvalda á svörtum megi meðal annars rekja til ótta hvítra við svarta,  en að þessi meðferð sé ekkert nýtt fyrirbæri og megi rekja langt aftur, t.d. til þrælahaldsins. Þessi ótti, segir Butler, birtist með margvíslegum hætti í menningunni, í fjölmiðlum, kvikmyndum og öðru slíku. Butler vísar í rannsóknir þar sem fram kemur að margir Bandaríkjamenn líti ekki á svarta sem manneskjur heldur tengja þá frekar við apa.

Butler rekur dæmi frá lögreglunni í Los Angeles, þar sem tilvik um glæpi þar sem eingöngu svartir komu við sögu voru flokkaðir sem ,,NHI-tilvik“ (,,No Human Involved“)! Nálgun sem þetta er kallað ,,afmennskun“ en þekktasta sögulega dæmið um það er afmennskun nasista á gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni.

Undanfarið hafa verið dagleg mótmæli í fjölmörgum borgum Bandaríkjanna, meðal annars í Portland (Oregon-fylki) þar sem óeinkennisklæddir hermenn/aðilar á vegum bandaríska alríkisins hafa verið ásakaðir um ástæðulausar handtökur á mótmælendum. Ofbeldi og eignaskemmdir hafa fylgt þessum mótmælum, sem er mjög miður.

Morðið á George Floyd (og fleirum í gegnum tíðina) dregur því miður upp þá mynd að enn sé mjög langt í land á mörgum sviðum fyrir svarta í Bandaríkjunum og í bók Butlers er einfaldlega varpað fram þeirri hugmynd hvort Bandaríkin séu ,,misheppnað ríki“ fyrir svarta?

Það er slæmt ef svo er, því ein af grunnhugmyndum Bandaríkjanna er persónulegt frelsi og rétturinn til leitar að lífshamingju (,,pursuit of happyness“). En miðað við það sem gengið hefur á að undanförnu er fátt sem bendir til þess að lífshamingja svartra sé að aukast í Bandaríkjunum.

Greinin birtist fyrst á vef Kjarnans.

Ljósmyndin/skjáskotið sem fylgir er úr líkamsmyndavél lögreglunnar í Minneapolis, en myndböndin úr þeim eru nú opinber.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu