Hugleiðingar um menntamál
Kæri lesandi
Með þessari grein langar mig að tilkynna framboð mitt til formennsku í Félagi framhaldsskólakennara (FF) í þeim kosningum sem standa fyrir dyrum nú um miðjan september.
Það hefur töluvert gengið á í framhaldsskólakerfinu á undanförnum misserum; stytting náms, nýtt vinnumat og fleira. Nú er staðan sú að FF er með lausa kjarasamninga og skiptir miklu máli að ljúka þeim farsællega.
Á Íslandi eru um 1800 framhaldsskólakennarar, sem vinna í 38 skólastofnunum, þar sem boðið er upp á nám á framhaldsskólastigi. Það er fjölbreytt flóra menntunar sem boðið er upp á.
En hverjir eru hagsmunir kennara? Jú, að mínu mati eru þeir fyrst og fremst þessir; góð laun, gott vinnuumhverfi (t.d. nægjanlegt fjármagn) og jákvæð afstaða yfirvalda og almennings til menntunar og kennslumála. Fleira mætti að sjálfsögðu nefna.
Það mál sem að sjálfsögðu hefur verið mest í umræðunni að undanförnu er ,,leyfisbréfamálið.“ Óhætt er að segja að það hefur valdið mikilli óánægju meðal framhaldsskólakennara, en fjölmörg kennarafélög sendu frá sér ályktanir gegn frumvarpi ráðherra. Ekki var tekið tillit til þeirra og málið keyrt í gegn á þingi í vor.
Þá birtist í þessu máli að mínu mati ákveðin gjá á milli okkar og grunnskóla- og leikskólakennara, hér var eitthvað sem brast og í því máli var einfaldlega rúllað yfir sjónarmið framhaldsskólakennara.
Þessvegna er ástæða til þess að fram fari umræða og jafnvel skoðun á því innan FF hvort hagsmunum okkar sé betur borgið innan annars félags og hefur BHM verið nefnt í því samhengi. Það er stórt og öflugt félag, með um 14.000 félagsmenn úr mismunandi félögum. Verði ég kosinn formaður FF hefði ég áhuga á að skoða þetta mál enn frekar í samvinnu við félagsmenn innan FF.
Annars tel ég nauðsynlegt að standa áfram vörð um stöðu og störf framhaldsskólakennara í landinu. Það verður aðeins gert með öflugu starfi í kringum launamálin. Eitt einkenni á launum kennara í gegnum tíðina hefur verið að við sem launþegahópur höfum dregist aftur úr miðað við aðra hópa í samfélaginu. Það verður svokallað launaskrið og þá sitjum við gjarnan eftir. Kjarasamningar okkar hafa því oft snúist um einhverskonar ,,leiðréttingar“. Æskilegt væri að þetta myndi breytast, þannig að kennara gætu sótt fram í launamálum, en ekki verið í sífelldri vörn.
Fleiri mál mætti skoða, eins og t.d. endurmenntun kennara, en fram hafa komið athyglisverðar hugmyndir um skipan þeirra mála, sem miða að því að minnka miðstýringu í þeim efnum og opna upp það kerfi. Endurmenntun kennara er mjög mikilvæg að mínu mati og þarf að nýtast sem flestum.
Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmál, segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra orðrétt: ,,Við erum að móta menntastefnu til ársins 2030. Markmið hennar er að gera íslenska menntakerfið framúrskarandi.“ Ennfremur segir Lilja: ,, Kennarar þurfa að upplifa það að samfélagið kunni að meta störf þeirra, það sé eftirsóknarvert að vera kennari og að færri komist að en vilja.“
Þetta eru góð og göfug markmið. En til þess að þetta geti orðið þarf ríkisvaldið t.d. að sjá til þess að fjármagn til framhaldsskóla verði ekki skorið niður, heldur að fjárþörf skólanna verði mætt, þannig að þeir geti framfylgt hlutverki sínu. Þetta þarf að passa mjög vel og FF þarf að standa vörð um að hér verði ekki afturþróun. Verði ég kosinn formaður mun ég fylgjast mjög vel með þessu, því niðurskurður er eins og orðið sjálft gefur til kynna, er mjög neikvæður. Samfélag sem sífellt sker niður grunnstoðir þess, getur að mínu mati ekki orðið framúrskarandi.
Höfundur er MA í stjórnmálfræði og kennari í samfélagsdeild Fjölbrautaskólans í Garðabæ.
Athugasemdir