Hin raunverulega bylting
Það má margt segja um samfélagsmiðla; fésbók, snapchat og allt það dót. Það má vel vera að ofnotkun þeirra leiði til vanlíðunar, en það er kannski bara eins og með ofnotkun á öllu – hún leiðir yfirleitt til vanlíðunar. Það er ef til vill dökka hliðin þessu.
En bjarta hliðin er sú að samfélagsmiðlar eru byltingartæki þegar á þarf að halda. Fall Engeyjarstjórnarinnar er meðal annars afleiðing mikillar umræðu á samfélagsmiðlum og málið er þetta; fólk lætur ekki bjóða sér hvaða skít sem er lengur. Og nú hefur það réttu tækin til þess að beita, án þess að grípa til ofbeldis.
Stjórnmálamenn sem halda að þeir komist upp með endlaust pukur og leyndahyggju þekkja ekki umhverfi sitt og skynja nútímann með röngum hætti.
Íslendingar eru í hæstu hæðum á heimsvísu í notkun fésbókar og því með virkustu þjóðum á henni. Svokallaður „aktivismi“ blómstrar á henni og er það vel.
Valdamenn verða að skilja að þeir eru ekki með völd í þeirra eigin þágu og að sá tími er liðinn á Íslandi. Þeir eru fulltrúar fólksins og eiga að vinna að almannahagsmunum.
Allir á Íslandi er búnir að fá sig fullsadda af ofurvaldi sérhagsmuna, frænd og vinahygli, spilingu og vangetu til þess að setja sig í spor venjulegs fólks.
Fésbók og samfélagsmiðlar eru tækin sem á Íslandi koma í stað heykvísla og barefla í frönsku byltingunni 1789.
Athugasemdir