Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ríkir fasismi á Íslandi?

Ríkir fasismi á Íslandi?

Ríkir fasismi á Íslandi? Atburðir síðustu daga gefa tilefni til hugmynda á borð við þessar.

Þegar lögfræðingar fjármálafyrtækja hreinlega ráðast inn á ristjórnarskrifstofur með lögbannskröfur að þá er ekkert skrýtið að manni detti það í hug.

Lýðræði er ekki gefið og það er brothætt. Sagan sýnir að það er ekkert mál að þurrka út á skömmum tíma það lýðræði sem til er í gefnu samfélagi.

Þegar Adolf Hitler komst til valda (í lýðræðislegum kosningum) var það eitt fyrsts verk hans að afnema lýðræðið í Þýsklandi. Sem hann og gerði.

Og allir sem vita eitthvað um sögu vita hvernig hann beitti fjölmiðlum – jú, hann tók yfir alla fjölmiðla og lét Göbbels vin sinn setja upp sérstakt áróðursmálaráðuneyti til þess að heilaþvo þýsku þjóðina. Sem tókst.

Fasistar, undanfarar nasistanna, vinna og unnu með sama hætti. Í Ítalíu, hjá skapara fasismans, Mússolíni, voru engir frjálsir fjölmiðlar og engin gagnrýni leyfð. Á Spáni var öflug ritskoðun á valdatíma Fransico Franco, 1936-1974,  – já það er ekki lengra síðan að Spánn var undir stjórn fasista. Allar tilraunir til að múlbinda eða þagga niður í fjölmiðlum eru í eðli sínu fasismi.

Og þar komum við að lykilatriðinu; gagnrýni! Alræðisleiðtogar virðast nefnilega ekki þola gagnrýni.

En eitt helsta hlutverk fjölmiðla í lýðræðissamfélagi er að halda uppi gagnrýni á VALDIÐ og veita VALDINU virkt aðhald.

Annað hlutverk fjölmiðla er að rannsaka hluti í samfélaginu. Þegra klippt er á þetta, þá er hætta á ferðum.

Ástandið í fjölmiðlun á Íslandi er dapurt. Stórir fjölmiðlar eru ofurseldir sérhagsmunaöflum, sem eru til dæmis tilbúin að ausa hundruðum milljóna í taprekstur, til þess eins að halda ákveðnum forrréttindum og stöðu í samfélaginu, á kostnað almennings og almannahagsmuna. Það er barist með kjafti og klóm til að verja sérhagsmunina.

Staða fjölmiðla á Íslandi hefur því lengi verið slæm og ekkert útlit fyrir að hún batni. Það er slæmt fyrir íslenskt lýðræði.

Meira að segja hefur fyrrum forsætisráðherra (sem gengur illa að taka gagnrýni) haft í hótunum við ákveðna fjölmiðla og hótað þeim lögsókn. Fjölmiðla sem eru honum ekki að skapi. En fyrst ætlar hann að leyfa okkur að kjósa!

Þeir eru því margir Golíatarnir sem eru tilbúnir að ráðast á Davíð litla og beita VALDI sínu, til þess að verja sína hagsmuni.

Allt er þetta merki um hið ógeðslega þjóðfélag sem Styrmir Gunnarssson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins gerði að svo frægum ummælum hér um árið; ,,Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Málið er þetta: Þegar lögmenn ráðast inn á ritjórnarskrifstofur, til þess að stöðva störf blaðamanna, þá erum við komin ansi nálægt því sem kallast fasismi. Það er bara þannig og þá er ástandið í samfélaginu orðið hættulegt – stórhættulegt!

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni