Bandarískur Alfa-kall hringir í rússneskan Alfa-kall
Eiga einræðisherrar inni hamingjuóskir frá fólki? Sér í lagi valdamönnum annara landa? Þessar spurningar vakna kannski við þá staðreynd að Donald Trump hafi hringt í Vladimír Pútín, forseta Rússlands, en hann var kjörinn forseti í þriðja (og síðasta?) sinn í kosningum fyrir skömmu og óskað honum til hamingju.
En hann gerði það gegn ráðum frá helstu ráðgjöfum sínum sem skrifuðu „DO NOT CONGRATULATE“ á minnisblöð forsetans. Þetta lak að sjálfsögðu út eins og hvað annað og olli víst mikilli bræði Trumps.
Donald Trump dáir bersýnilega ýmislegt í fari Pútíns og hefur farið hinum mýkstu orðum um þennan ,,tsar“ eða keisara Rússlands. Því Pútín er í raun ekki neitt annað. Ekkert, sem af alvöru gerist í Rússlandi, fer framhjá Pútín. Hann hefur ,,töglin og hagldirnar“ í rússnesku samfélagi. Og lýðræðissinni er Pútín ekki, að minnsta kosti ekki samkvæmt þeim skilningi sem lagður er í orðið á Vesturlöndum. Hann hefur í raun gert nánast allt til þess að kæfa lýðræði í Rússlandi.
ALFA-karlar
Það er líka augljóst að þegar rætt er um Trump og Pútín að þar eru tveir ALFA-karlar á ferð. Trump hefur stjórnað viðskiptaveldi sínu og rekið og ráðið menn að vild og Pútín hefur gert það sama í Rússlandi frá árinu 2000. Þetta eru kallar sem láta engan segja sér fyrir verkum og eru leiðtogar sinnar (úlfa)hjarðar. Þeir ráða og ,,ég áidda – ég máidda“- viðhorfið er sterkt.
Það kemur því ekkert sérstaklega á óvart a Trump hafi farið gegn ráðum undirmanna sinna og óskað Pútín til hamingju með sigurinn í kosningnum og þau 77% atkvæða sem ,,óháði“ frambjóðandinn Pútín fékk (næsti var með um 12%). Sem ekki einu sinni hafði fyrir því að heyja það sem kallast kosningabarátta og nefndi í raun andstæðinga sína aldrei með nafni. Sérstaklega þann sem hefði raunverulega hefði getað ógnað honum, Aleksei Navalny. Enda var hann sleginn út úr keppninni í því sem kallast mætti ,,tæknilegt rothögg“ og bannað að bjóða sig fram á vafasömum forsendum.
Staðreyndin er sú að í Trump og Pútín birtast mörg sameiginleg einkenni einræðisherrans: Vanvirðing gagnvart skoðunum annarra, yfirgangur/yfirráð, hroki, andúð á lýðræði og gífurleg sjálfhverfa. Og samþykki þessi að beita ofbeldi, t.d. í innlimum Krím 2014 og Úkraínustríð Pútíns, til ofbeldishvatninga Trumps á kosningafundum. Það er því ekkert skýtið að þeir smelli saman eins og flís við rass og virðist líka vel hver við annan.
En eiga svona kallar inni einhverjar hamingjuóskir? Varla.
Ps. Alfa-köllunum fjölgar: Kína, Xi Jing Ping, Tyrkland, Erdogan, Hvíta-Rússland, Lukasjénkó einræðisherra, Egyptaland, Abd al-Fattah as-Sisi, sem hefur þar allt í höndum sér. Þetta er hættuleg ,,dýrategund“.
Athugasemdir