Fiskar sá sem rær (um Miðflokkinn og Báknið)
Það er nauðsynlegt fyrir hvern kaptein að hafa vind í seglum. Þetta veit Sigmundur Davíð, formaður Miðflokksins. Og hann veit líka að það er lífsnauðsynlegt að sigla ekki með storminn í fangið. Í þessu ljósi má skoða nýjasta útspil flokksins um báknið, þar sem flokkurinn auglýsir eftir reynslusögum fólks sem hefur orðið illa úti í samskiptum sínum við kerfið. Hér er róið á kunnugleg mið; „fiskimið lýðhyggjunnar“ þar sem nánast alveg er gefið að vel ber í veiði. Á svona veiðum fær enginn trollið í skrúfuna eða öngulinn í rassinn, ef út í það er farið! Sigmundur þarf heldur engu að kosta til, bara henda út á netið einu tölvupóstfangi og svo er bara að hala krásirnar inn. Netið er net Sigmundar!
Kapteinn Sigmundur veit það einnig að eftir mesta „lýðskrumsmálþóf“ lýðveldissögunnar (Orkupakkinn, sem nú er að koma í ljós að kostar Alþingi nokkra tugi milljóna króna), þá var viss hætta á að einmitt logn hefði færst yfir Miðflokkinn og hann hefði mögulega átt hættu á að falla í gleymskunnar dá.
Þess vegna þurfti Sigmundur að finna mál sem hægt er að gera út á með þeim hætti sem hann hyggst gera í sambandi við báknið. Hann hefur hinsvegar ekki skýrt neitt sérlega vel út, hvað hann á við með orðinu báknið; er það embættismannbáknið, er það heilbrigðisbáknið, eða öll yfirbyggingin á íslensku samfélagi? Eða hvað á hann við?
Flokkurinn hefur birt áherslur sínar í sambandi við báknið og sækir þar með í smiðju ungra sjálfstæðismanna (SUS), sem börðust á seinni hluta síðustu aldar undir frasanum „báknið burt.“ Miðflokkurinn er jú þjóðernissinnaður íhalds og lýðhyggjuflokkur á hægri væng stjórnmálanna. En athygli vekur að Sigmundur gleymir einu aðalbákni íslensks samfélags (sennilega viljandi), en það er landbúnaðarbáknið, sem kostar íslenskan almenning um 15.000 milljónir á hverju ári. Sigmundur segist hinsvegar nánast „endalaust heyra sögur um báknið“ á ferðum sínum um landið, sama hvert hann fari (Silfur Egils, 10.11 2019). En spurningin er kannski, hvernig bákn vill Sigmundur eða vill hann bara ekkert bákn yfirleitt? Vill hann kannski „lítið ríkisvald“ að hætti frjálshyggjunnar, það sem enskumælandi kalla „small government.“?
Báknið var rætt í Silfri Egils þann 10. nóvember og þar var ekki annað að skilja á mönnum en að Sigmundur væri mjög djarfur að leggja út í þessa baráttu og vísuðu menn til merkis flokksins, sem er (væntanlega) íslenskt hross, sem rís upp á afturlappirnar. Sigmundi var óskað velfarnaðar í krossferð sinni gegn bákninu, já það var einmitt eins og menn væru að tala um riddara sem væri að leggja í djarfa ferð. Sigmundur er sem sagt aftur sestur á hrossið og ríður nú gegn bákninu (minnir svolítið á eitthvað í sambandi við vindmyllur). En hross Miðflokksins nýttist þeim Miðflokksmönnum vel í umræðunni um Klaustur-málið, segja má að Miðflokksmenn hafi allir verið á einskonar „Ródeó-hrossi“ – sem kastaði af sér öllu óþægilegu í því máli. Þeir voru jú allir meira eða minna saklausir af þessu og það var farið mjög illa með flokkinn í því máli. Allir voru vondir við Miðflokkinn og að sjálfsögðu var þetta allt saman eitt risastórt samsæri, skipulagt af vondu fólki úti í bæ. Því var gott að hafa alvöru ródeó-hross til að nota í að hrista hlutina af sér.
Það verður áhugavert að sjá hverju nýjasta krossferðin hjá riddurum Miðflokksins muni skila af sér. Kannski verður að lokum splæst í eina „selfie“ á Austurvelli eins og þegar krossferð flokksins í Orkupakkamálinu stóð yfir. Þar slógu menn sér á brjóst! En klikki þetta hinsvegar, mun „skipperinn“ örugglega finna einhver önnur mið til að róa á – það verður jú góður skipper að gera! Og sjá til þess að lýðskrumið skaffi byr í seglin.
Höfundur er framhaldsskólakennari og starfar því sennilega í bákninu.
Greinin birtist fyrst í Kjarnanum.
Athugasemdir