Þessi færsla er meira en 10 ára gömul.

Minnislyklar, stéttarfélög og endurnýjun hugmyndafræði

Fyrir nokkrum dögum fékk ég sent í pósti umslag merkt stéttarfélagi mínu, en í umslaginu var lítíll pakki og bréf. Fyrsta setning bréfsins er á þessa leið:

„Um leið og .... sendir þér óskir um gleðilegt nýtt ár viljum við minna á nýja heimasíðu félagsins www....is og sendum þér minnislykil með slóðinni áletraðri.

Í pakkanum var sem sagt minnislykillinn. Hann er snoturlega útbúinn, festur inn einhvers konar leðurumgjörð og áfest henni er lyklakippa; og vissulega er minnislykillinn áletraður með nafni og slóð félagsins líkt og segir í bréfinu.Minnislykillinn

Ég spurði sjálfan mig þegar ég fékk þetta bréf: Af hverju er stéttarfélagið mitt að senda mér og öðrum félagsmönnum minnislykil til að minna á tilvist sína? Þarf stéttarfélag að senda fólki gjafir til að minna á sig? Ætti stéttarfélag að gera slíkt? Svarið er að slíkt ættu stéttarfélög ekki að gera.

Stéttarfélög, líkt og önnur félagsstarfsemi, þurfa á meðlimum sínum að halda til að geta starfað, bæði vegna félagslegs stuðnings og fjárhagslegs. Það að fá fólk til að starfa með sér er ekki auðvelt, raunar hefur það reynst stéttarfélögum allmikil þraut í gegnum tíðina. Gjafir til meðlima sinna sem eru líka skjólstæðingar félaganna eru óheppileg leið í besta falli til að ná fram félagslegum og fjárhagslegum stuðningi.

Stéttarfélögin ættu að huga að öðrum leiðum til að minna á sig: Opna tjöld sín gagnvart skjólstæðingum sínum, láta bera á sér í fjölmiðlum með þau mál sem á þeim brenna, þrýsta á Alþingi varðandi mikilvæg mál, og þar fram eftir götunum. Með því móti minna stéttarfélögin óbeint á tilvist sína og starfsemi, en jafnframt vekja þau upp þá tilfinningu hjá fólki að þau séu virk, að þau séu að berjast fyrir hagsmunum skjólstæðinga sinna. Það er nokkuð um að fólki finnist sem stéttarfélögin séu óvirk.

Það er ýmislegt sem þarf að taka á í okkar samfélagi. Í staðinn fyrir að senda út minnislykla hefði stéttarfélag mitt getað sett peningana t.d. í að berjast fyrir styttri vinnutíma, með því að fjármagna stöðu innan félagsins í því skyni. Félagið hefði líka getað haft fólk í vinnu við að sinna öðrum þáttum sem snúa að starfsemi þeirra: Óæskilegum mismun launa í samfélaginu, viðhaldi og endurbótum menntakerfisins og þar fram eftir götunum.

Ég hef rætt við allmarga forystumenn stéttarfélaga um styttingu vinnutíma, og nefnt að það þurfi helst einhver að sinna þessu verkefni af fullum krafti í lengri tíma. Bæði eru stéttarfélögin mörg og erfitt að samræma átak um styttingu vinnutíma þeirra á milli, en svo þarf líka að hafa samstarf við samtök vinnuveitenda sem og hið opinbera. Ég hef bent á að stytting vinnutíma gæti orðið fyrr að veruleika, ef einhver á vegum félaganna myndi sinna þessu hlutverki þá starfsmaður sem vinnur nú þegar innan verkalýðshreyfingarinnar og þekkir vel til. Tilsvörin sem ég hef fengið eru á þá leið að félögin eigi ekki peninga fyrir slíku, og að þau séu nú þegar útþanin til hins ítrasta. Ég fékk meðal annars slíkt svar frá allstóru sambandi ekki alls fyrir löngu.

Getur verið að félögin eyði talsvert miklu fé í óæskilega hluti eins og minnislyklasendingar, pennasendingar, útsendingu sumarbústaðabæklinga og annað slíkt? Í mínu stéttarfélagi eru um 1.500 manns, og hafi einn minnislykill kostað um 1.000 krónur með öllu (sendingarkostnaði þar með talinn), er heildarkostnaðurinn um 1,5 milljónir. Vera má að lykillinn hafi kostað minna, en það skiptir ekki öllu: Þetta er vísbending um að félögin geti varið (meira) fé í nauðsynleg mál, t.d. styttingu vinnutíma, en að þau forgangsraði ansi óheppilega. Það má vera að stéttarfélögin séu misvel fjáð, en þau þurfa þá kannski að efla samstarf sín á milli um vissa hluti og aðstoða hvort annað fjárhagslega.

Minnislykillinn er bara eitt merki um að stéttarfélögin í landinu verða að endurhugsa sinn gang: Þau þurfa að endurhugsa hvert hlutverk þeirra er, hvernig þau starfa, hver hugmyndafræðin er og þar fram eftir götunum. Um fram allt geta þau ekki höfðað til félagsmanna sinna með sama hætti og hvert annað fyrirtæki með gjöfum og prangi.

***

Þessi pistill birtist áður á bloggsíðu höfundar á DV.is

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu