Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Styttri vinnuvika, heilbrigðiskerfið og hugmyndafræði: Um bætt jafnvægi atvinnugreina

Styttri vinnuvika, heilbrigðiskerfið og hugmyndafræði: Um bætt jafnvægi atvinnugreina

Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir var í viðtali á Rás 2 í vikunni um styttingu vinnuvikunnar á Landspítalanum.

 

Segist Tómas í viðtalinu vera efins um styttinguna þótt hann væri hlynntur markmiðum hennar. Hugmyndin sé góð og vel meint, að styttingin sé réttlætismál og eðlilegur liður í kjarabaráttu heilbrigðisstétta, en tímasetningin sé kannski röng. Hann segist hafa áhyggjur af því að styttingin bitni á sjúklingum, að biðlistar lengist og þjónustan versni í einhverjum tilvikum.

 

Þessar efasemdir læknisins eru skiljanlegar. Öll heilbrigðiskerfi eru dýr og viðkvæm, en jafnframt gríðarlega mikilvæg: Þau eru undirstaða góðs lífs í heilbrigðu samfélagi. Var ánægjulegt að heyra að Tómasi finnist hugmyndin góð og vera réttlætismál, þrátt fyrir efasemdirnar.

 

En í viðtalinu ræðir Tómas einnig þann vanda sem blasir við á Landspítalanum um þessar mundir: Niðurskurð og manneklu.

 

Hvenær skal innleiða styttinguna?

 

Byrjum á megingagnrýni Tómasar, um hvort sé rétt að innleiða styttinguna núna. Hann virðist efins um tímasetninguna, nú þegar heimsfaraldur hefur staðið yfir og starfsfólk heilbrigðiskerfisins er skiljanlega þreytt eftir langdregið og mjög erfitt ástand.

 

En hvenær yfir höfuð er þá rétt að innleiða breytingar af þessu tagi? Ef ekki núna í vor, þá kannski í haust? Er ekki aukið álag á heilbrigðiskerfið á haustin? En kannski næsta vor – en eru þá ekki sumarleyfi framundan? Er hægt að velja besta tímapunktinn fyrir breytingar sem þessar? Þetta hefði Tómas gjarnan mátt ræða nánar í viðtalinu, því þetta er líklega veigamesta gagnrýnin af hans hálfu.

 

Hér er um er að ræða einhverjar þær stærstu breytingar á vaktakerfum í heilbrigðiskerfinu sem hafa verið gerðar í áratugi, eftir því sem komið hefur fram í fjölmiðlum. Kannski þess vegna, og vegna þess að málaflokkurinn er viðkvæmur og flókinn, verða breytingar sem þessar alltaf erfiðar?

 

En hér má segja að efasemdir Tómasar um styttinguna sjálfa endi, eins og þær birtast í viðtalinu góða, því málflutningur hans að öðru leyti einkennist aðallega af áhyggjum af manneklu, niðurskurði og fjársvelti heilbrigðiskerfisins. Nefnir Tómas að deildin sem hann starfi á hafi verið undirmönnuð lengi, að bannað sé að kaupa veitingar fyrir kveðjuhóf starfsfólks sem er að hætta eftir áratuga starf, og fleira. Styttingin sjálf virðist þannig ekki vera aðal vandamálið, heldur fjársveltið.

 

Fjársvelti, hugmyndafræði og jafnvægi atvinnugreina

 

Ég þekki fólk sem starfar í heilbrigðiskerfinu; hjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa, lífeindafræðinga, lækna. Á Íslandi og í Bretlandi raunar. Og við þetta fólk ég hef átt mörg samtöl um styttri vinnuviku undanfarinn áratug, enda hef ég verið að velta henni fyrir mér lengi. Mér hefur verið ljóst frá upphafi að heilbrigðiskerfin yrðu alltaf erfið hvað þetta varðar, og það þyrfti alltaf að bæta mönnun í þessum kerfum til að styttingin gengi upp.

 

Ástandið í heilbrigðiskerfinu okkar var slæmt fyrir faraldurinn, en er núna kannski að verða óbærilegt. Má það sama segja um heilbrigðiskerfi Bretlands. Áhyggjur eru af fólksflótta, og réttilega svo.

 

Orsökin er í grunninn þessi: Samfélög Vesturlanda eru mörg hver rekin þannig að heilbrigðiskerfi beri helst að svelta. Á sama tíma skulu skattar á fyrirtæki og ríkasta lag samfélagsins vera sem allra lægstir, lægri en á þá sem minna hafa. Þetta hefur verið ríkjandi hugmyndafræði stjórnmálanna í áratugi, ekkert nýtt þar. Yfirlýst markmið er víst að auka hagvöxt sem mest – raunverulegt markmið virðist vera að skapa misskiptingu. En núna eru afleiðingarnar af þessari stefnu farnar að bitna mjög illilega á samfélögunum okkar, og er mannekla í heilbrigðiskerfunum bara eitt merki þess.

 

Afleiðingin af hugmyndafræðinni er sú að sumar atvinnugreinar, eins og sjávarútvegur og fjármálaiðnaður, standa í blóma og eru gríðarlega auðugar, á meðan aðrar atvinnugreinar, eins og opinberu heilbrigðiskerfin, eru í sífelldri krísu. Hugmyndafræðin býður heim þeirri hættu að sumar atvinnugreinar standi vel og nærist vel, meðan aðrar hrörna og hætta að geta þjónustað samfélagið sem skyldi. Þó eru þær allar mikilvægar fyrir samfélagið: Öflug mennta- og heilbrigðiskerfi gera öflugt atvinnulíf mögulegt. Atvinnugreinarnar mynda allar eitt hagkerfi, sem er nauðsynlegt fyrir samfélagið allt, þótt svo þær byggist á mismunandi hugmyndum um aðgengi og fjármögnun, og þótt svo hlutverk þeirra sé mismunandi.

 

Ofanreind hugmyndafræði er komin á endastöð. Eftir faraldurinn ætti að vera komið að uppgjöri, því ef ekkert verður að gert, þá verður þjónustuskerðing raunin. Það sem læknirinn Tómas Guðbjartsson virðist hafa mestar áhyggjur af þegar hann efast um styttingu vinnuvikunnar er kannski þetta, fremur en styttingin sjálf. Styttingin þýðir nefnilega að fjölga þarf starfsfólki í heilbrigðiskerfinu, og þess þurfti raunar fyrir hvort eð er. En það gengur ekki lengur að við horfum upp á heilbrigðiskerfið hrörna. Við verðum hreinlega að ná betra jafnvægi milli atvinnugreina hagkerfisins.

 

Styttingin er mikilvæg fyrir spítalann eins og aðra vinnustaði, því annars er hættan sú að spítalinn dragist aftur úr öðrum atvinnugreinum hvað varðar starfsaðstæður, laun og vinnutíma, en sú samblanda gæti þýtt að færri vilji vinna á spítalanum í framtíðinni. Það er því mikilvægt að spítalinn fái að þróast, eins og aðrar atvinnugreinar.

 

Það er því augljóst mál að nú verður að vera stefnubreyting í rekstri okkar samfélags. Ef við ætlum að reka samfélagið okkar sómasamlega verðum við að hafna ofangreindri hugmyndafræði og feta nýjar slóðir, með meira jafnvægi lykilatvinnugreina samfélagsins að leiðarljósi. Þannig náum við árangri, þannig rekum við heilbrigðara samfélag.

 

Höfundur er stjórnarmaður í Öldu – félagi um sjálfbærni og lýðræði.

 

***

 

Mynd fengin af Wikipediu, hér. Höfundur: Vera de Kok.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni