Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Tilraunaverkefni um fjögurra daga vinnuviku - líka á Íslandi

Tilraunaverkefni um fjögurra daga vinnuviku - líka á Íslandi

Á undanförnum áratug á Íslandi hefur mikið verið rætt um og tekist á um styttingu vinnuvikunnar, en þökk sé mikilli umræðu og baráttu stéttarfélaga og annarra samtaka fyrir málefninu tókst að semja um styttri vinnuviku í kjarasamningum. Hér léku tilraunaverkefni BSRB um styttri vinnuviku hjá Reykjavíkurborg og ríkinu lykilhlutverk, en með þeim jókst skilningur á því hvernig mætti útfæra styttri vinnuviku þannig að allir hefðu hag af, auk þess sem af þeim varð ljóst hver ábatinn gæti orðið fyrir allt samfélagið.

 

Stytting vinnuvikunnar hefur núna verið útfærð mjög víða um samfélagið og skoðanakönnun sem birt var í Fréttabaðinu í ágúst í fyrra leiðir í ljós að um helmingur vinnandi fólks er ánægt með styttinguna á sínum vinnustað, og um 26% eru hlutlaus. En um 21% eru ekki fyllilega sátt, sem bendir til að gera megi betur, og eftir því sem könnunin leiðir í ljós er það einkaframtakið sem þarf mest að taka sig á. Heilt yfir þó, og sérstaklega þegar haft er í huga að þetta er ein mesta breyting sem vinnumarkaðurinn hefur gengið í gegnum undanfarna áratugi hvað vinnutíma áhrærir, má kalla niðurstöðuna mjög góða.

 

Umræðan hér á Íslandi um styttingu vinnutímans byrjaði fyrr en í hinum enskumælandi heimi; mjög lítið var rætt um málefnið í Bretlandi til dæmis á meðan umræðan var allnokkur og vaxandi á Íslandi. En staðan hefur nú gjörbreyst: Í hinum enskumælandi heimi fer nú fram lífleg umræða um styttingu vinnutímans, og er hún einkum öflug í Bretlandi. 

 

Um þessar mundir eru að fara af stað nokkur tilraunaverkefni í mismunandi löndum undir formerkjum fjögurra daga vinnuviku og íslenskum fyrirtækjum býðst að vera með í einu þeirra. Hér er kjörið tækifæri fyrir íslensk einkafyrirtæki til að sýna framsækni í verki og taka þátt í að móta vinnumarkað framtíðarinnar – því eins og við lærðum á tilraunaverkefnunum hér á Íslandi geta slík verkefni rutt brautina fyrir samfélagsþróun sem hefur látið á sér kræla en er rökrétt skref engu að síður.

 

Breyttur vinnumarkaður - framtíðarsýn

 

Undanfarinn áratug eða svo hefur orðið æ ljósara að samfélög Vesturlanda þurfa að skipta um gír af ýmsum ástæðum: Tæknin þróast hratt, sjálfvirkni eykst, og æ stærri hluti athafna samfélaga er tæknivæddur á alla mögulega vegu. Þá er mörgum að verða betur og betur ljóst tengslin á milli streitu og skertra lífsgæða sem og alvarlegra sjúkdóma. Þá kalla loftslagsbreytingar á endurmat og endurskoðun ýmissa þátta samfélagsins. Hegðun okkar sem heildar verður að breytast. Þetta er mikið til umræðu víða á Vesturlöndum.

 

Einn angi þessa er nauðsyn þess að endurskoða hvernig við vinnum og hve mikið, enda ljóst að nýta má bætta tækni til að vinna minna sé rétt að staðið, auk þess sem fjarvinna og styttri vinnuvika getur gagnast í baráttunni við loftslagsbreytingar. Lífsgæðaaukning getur orðið mikil, sé rétt að staðið. Þetta sýna rannsóknir fræðimanna. 

 

Umræðan um styttri vinnuviku í hinum enskumælandi heimi er knúin áfram af þessu öllu, en heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur mjög bætt í og hraðað á umræðunni og vakið fólk til vitundar um möguleikana á breytingum. Í bakgrunni er þessi hugsun ríkjandi: „Ef við gátum rekið svo mjög breytt samfélag í heimsfaraldri, hvað kemur þá í veg fyrir að við breytum og endurskoðum til dæmis vinnutímann og skipulag sjálfrar vinnunnar?“ – og svarið er: Við sjálf. Mörgum er orðið ljóst að við þurfum á framtíðarsýn að halda um hvernig vinnumarkaður framtíðarinnar eigi að ganga fyrir sig til að breyta ríkjandi hugarfari.

 

Nú þegar hefur skrefið verið tekið meðal allnokkurra einkafyrirtækja. Atom Bank, lítill banki í Bretlandi, hefur tekið upp fjögurra daga vinnuviku. Perpetual Guardian, fjármálafyrirtæki í Nýja-Sjálandi, hefur farið sömu leið. CMC Technologies í Englandi, sem framleiðir íhluti úr málmi, skipti einnig í fjögurra daga vinnuviku. UPAC Group í Skotlandi, sem framleiðir umbúðir, hefur einnig tekið sama skref. Í öllum tilfellum var vinnuvikan stytt án þess að laun lækkuðu – allir starfsmenn héldu sömu mánaðarlaunum. Og árangurinn lét ekki á sér standa: Framleiðni jókst, streita minnkaði og jafnvægi vinnu og einkalífs batnaði stórum. Rannsókn á vegum hins virta Henley viðskiptaskóla í Bretlandi sem tók til mun fleiri fyrirtækja sem hafa skipt yfir í fjögurra daga vinnuviku staðfesti þetta sama: Minni streita, betri líðan, aukin framleiðni, en auk þess að það dró úr veikindum starfsfólksins. Höfundar rannsóknarinnar bentu á að ef eitthvað er gætu allir þessir þættir aukið á hagnað fyrirtækja sem skipta yfir í fjögurra daga vinnuviku, sem styrkir svo samkeppnishæfni þeirra.

 

Í bæði Skotlandi og á Spáni eru fyrirhuguð tilraunaverkefni einkafyrirtækja sem ríkisvaldið aðstoðar við að koma á laggirnar; þar er markmiðið að prófa fjögurra daga vinnuviku. Kallað hefur verið eftir tilraunaverkefni í Wales og á fleiri stöðum. Mikil hreyfing er í þessa áttina í heiminum og dæmin of mörg til að telja upp hér. Öll þessi tilraunaverkefni eru liður í því að þróa framtíðarsýn um vinnumarkað framtíðarinnar.

 

Í Bretlandi er það hugveitan Autonomy sem stendur að tilraunaverkefni þar í landi um fjögurra daga vinnuviku í samstarfi við tvenn félagasamtök – 4 Day Week UK og 4 Day Week Global – ásamt rannsakendum við þrjá heimsþekkta háskóla: Oxford háskóla, Cambridge háskóla og Boston háskóla. Eins og fyrr segir býðst íslenskum fyrirtækjum að taka þátt, en sá möguleiki kemur til vegna samstarfs Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, við Autonomy. Áhugasömum fyrirtækjum stendur til boða að hafa samband beint við Autonomy og óska eftir þátttöku: https://autonomy.work/portfolio/four-day-week-pilot/ 

 

Tilraunaverkefni Autonomy felur í sér vinnustofur þar sem fulltrúar fyrirtækja sem hafa innleitt fjögurra daga vinnuviku segja frá sinni reynslu, auk þess sem þátttakendur hafa aðgang að eigin ráðgjafa. Einnig verður til staðar stuðningsnet og fræðimennirnir aðstoða með því að leggja til aðferðir við að mæla framleiðni og hvernig á að túlka niðurstöðurnar. Allar frekari upplýsingar má fá hjá Autonomy.

 

Frestur til skráningar rennur út í lok mars.

 

Framtíðin og úrtöluraddir

 

Fleirum og fleiru er ljóst að vinnumarkaður framtíðarinnar mun verða öðruvísi en við höfum vanist síðustu þrjátíu ár. Tæknibreytingar og hugarfarsbreytingar, í bland, munu knýja á um að við breytum háttum okkar. Ný viðmið munu verða til, þar með talið um vinnutímann. En oft eru það hugarfarsbreytingarnar sem reynast erfiðastar. 

 

Við hér á Íslandi höfum fengið að finna fyrir því hvernig vissir áhrifamiklir hópar vilja alls engar breytingar sem þjóna vinnandi fólki og kjósa heldur stöðnun og afturhald til fortíðar. Samtök atvinnulífsins sögðu frumvarp um styttri vinnuviku vera „efnahagslegt hryðjuverk“ og voru ásamt Viðskiptaráði og Félagi atvinnurekenda mjög einörð í andstöðu sinni við frumvarpið. Öll þessi sérhagsmunasamtök börðust gegn hugmyndum um styttingu vinnuvikunnar með hræðsluáróðri og útúrsnúningi. Samtök atvinnulífsins spáðu þannig óðaverðbólgu ef af samþykkt frumvarpsins yrði, byggt á því að mikil verðbólga var á Íslandi á áttunda áratugnum eftir að lög voru innleidd um 40 stunda vinnuviku árið 1972 – verðbólga sem kom til vegna hvarfs síldarstofna við Ísland árin 1968 til 1969, með þeim afleiðingum að 40% gjaldeyristekna landsins hvarf á örfáum mánuðum. Um orsakir verðbólgunnar hefur sjálfur Seðlabanki Íslands staðfest: Hvarf síldarinnar. Auðvitað veldur slíkt verðbólgu í ört vaxandi landi sem byggir afkomu sína á innflutningi og útflutningi. Auk þess hófst olíukrísa í heiminum árið 1973, sem jók mjög á verðbólgu víða.

 

Á Íslandi varð heldur engin verðbólga þegar samið var um styttinguna og hún útfærð – sem sýnir innistæðuleysi áróðursins. Verðbólgan nú er vegna útlána banka og húsnæðisskorts.

 

Framtíðin er farin að knýja dyra, og hún er á fullri ferð. Möguleikarnir á meiri lífsgæðum vinnandi fólks vaxa ár frá ári – og það er okkar að grípa þá. Fjögurra daga vinnuvika gæti verið slíkur möguleiki. En til að við getum nýtt möguleikana verðum við að hugsa stærra og sniðganga úrtöluraddir sem byggja sinn málflutning eingöngu á hræðsluáróðri og sérhagsmunum. Höfum í huga að slíkar úrtöluraddir voru háværar þegar fimm daga vinnuvika var innleidd. Við verðum að leyfa okkur að prófa okkur áfram með nýtt lífsmynstur og gáum að því að slíkt gæti hreinlega styrkt samkeppnisstöðu samfélagsins eins og rannsókn Henley viðskiptaskólans bendir til. Heilbrigð gagnrýni á rétt á sér – en heilbrigð gagnrýni þarf að byggja á reynslu. Og einmitt þess vegna eru tilraunaverkefni svo gagnleg; þau hjálpa okkur við að afla reynslu.

 

Ég hvet allt vinnandi fólk, stjórnendur og eigendur fyrirtækja til að ígrunda hvort fjögurra daga vinnuvika geti verið heppileg fyrir sitt fyrirtæki og vinnustað, og ef svo er, ræða málin á vinnustaðnum og í framhaldinu hafa samband við Autonomy. Framtíðin er núna.

 

Höfundur er stjórnarmaður í Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði.

 

Mynd: Pexels

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni