Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Vangaveltur um styttingu vinnudags og skapandi greinar

Vangaveltur um styttingu vinnudags og skapandi greinar

Þegar mannskepnan er borin saman við önnur dýr kemur margt merkilegt í ljós. Raunar svo margt, að best er að takmarka sig strax við tiltekið svið mannlífsins: Getuna til að skapa margbrotna hluti, en þessi geta er ótvíræð. Þökk sé meðal annars þessari getu hefur mannskepnan umbreytt sinni eigin tilveru rækilega á síðastliðnum tveimur til þremur öldum. Sköpun og nýting nýrrar tækni á þessum tíma, allt frá gufuvélum til tölvutækni, hefur umturnað lífi okkar, ekki síst atvinnuháttum og híbýlum.

Þessar breytingar náðu til Íslands í byrjun tuttugustu aldar með vélvæðingu af ýmsu tagi.1 Með tíð og tíma breyttist hagkerfið frá því að flest allir (75% árið 1901) vinna við landbúnað og sjávarútveg, yfir í að flestallir vinna við þjónustu (75% árið 2008).2 Samfélagið hefur umturnast á þessum tíma, en sumt í hugarfari okkar hefur ekki breyst með.

Vaxandi hluti þjónustugreinanna eru hinar skapandi greinar, þar sem fólk fæst við að nýta hugvit sitt til að mynda og móta eitthvað nýtt, eitthvað frumlegt. Hönnun, vefsíðugerð og kvikmyndagerð teljast til skapandi greina, sem dæmi. Talið er að um 5% vinnuaflsins starfi innan skapandi greina á Íslandi í dag, en það er um tveimur prósentustigum meira en starfar við landbúnað og fiskveiðar samanlagt.3

Skapandi greinar eru afar ólíkar t.d. landbúnaði eða steypuframleiðslu, því það sem þarf til er mjög ólíkt. Í báðum greinum þarf vissulega þekkingu, en munurinn er helst sá að til skapandi greina þarf öllu meira ímyndunarafl og frjórri hugsun, því sjálf vinnan snýst um sköpun. Við getum líka verið nokkuð viss um að þetta sama eigi við þegar skapandi greinar eru bornar saman við fjölmargar aðrar atvinnugreinar. Og einmitt vegna þess að skapandi greinar eru eðlisólíkar öðrum greinum atvinnulífsins, þá bjóða þær upp á við endurhugsum vinnuna sem slíka.

Eitt það sem við sem samfélag eigum að setja í framkvæmd er stytting vinnudagsins. Ég hef haldið því fram í mörgum pistlum að það sé samfélagslega brýnt málefni sem varði lífsgæði í landinu. Helsta ástæðan er sú að vinnudagurinn sé það langur að hann valdi skaða á fjölskyldulífi landsmanna, en einnig að það sé einkennilegt að eyða næstum helmingi af vökustundum sínum í vinnunni á 21. öldinni. Vangaveltur mínar snúast um að við eigum að geta látið vélarnar hjálpa okkur við að stytta vinnudaginn – til er hvers annars öll þessi tækni?

Stytting vinnudagsins í samfélagi þar sem aldrei má slaka á kröfum um arð flækir málin hins vegar. Þess vegna hef ég boðað að við eigum að auka framleiðni og nýta hina auknu framleiðni til að vinna minna. Framleiðnina getum við aukið með því að vinna öðruvísi – skipta öðruvísi milli okkur verkum, breyta vaktakerfum og þess háttar.

Í skapandi greinum er þessu öðruvísi háttað. Fyrirtækin sem starfa innan skapandi greina eru vissulega rekin flest með arðsemi í huga. Munurinn liggur í því að aukning á framleiðni er tæplega kölluð fram með sömu aðferðum í skapandi greinum og má beita í mörgum öðrum atvinnugreinum – einmitt af því að um er að ræða atvinnugreinar sem eru svo ólíkar. Við „endurskipuleggjum“ ekki hugsanaferli né getum við stytt þau. En er þá yfir höfuð hægt að vinna minna innan hinna skapandi greina? Getum við látið rekstur fyrirtækjanna ganga upp eftir styttingu? Án efa er það hægt.

Á Íslandi er mjög rótgróin vinnumenning, sem meðal annars felst í því að vinna helst fulla vinnu, en um 75% starfandi vinna fullt starf.4 Að vinna skemur þykir skrítið, nema helst ef um er að ræða foreldra eða námsmenn. Skapandi greinar eru ekki undanþegnar þessari menningu. Átta tímar eru venjan þar eins og annarsstaðar, menn virðast þó heldur liprari við að leyfa fólki að stjórna hvenær sólarhringsins vinnan er ynnt af hendi, en full vinna skal vera átta tímar og yfirvinna er í boði fyrir þá sem það vilja.

Hugmyndin um átta tíma vinnudag var mótuð fyrir meira en öld í samfélagi þar sem verksmiðjuvinna var algengasta tegund atvinnu. Þegar skapandi greinar svo verða til í æ meira mæli, löngu síðar, „erfa“ þær vinnudaginn, því samfélagið sem þær mótast og myndast í er gegnsýrt af þessari hugmynd. En þessi lengd á vinnudeginum á sennilega ekki heima innan skapandi greina – lengdin er sennilega hamlandi fyrir greinarnar. Það er t.d. áhugavert að margir rithöfundar sem hafa tjáð sig um hvernig þeir skrifa leggja áherslu á skrifa reglulega, en ekki í löngum lotum. Átta tíma vinnudagur er eitthvað sem virðist ekki tíðkast meðal þeirra, fjórar til fimm stundir virðast vera venjan.5 Af hverju ætti þetta sama ekki að eiga við skapandi greinar í heild sinni? Alls staðar innan skapandi greina er jú verið að vinna með hugmyndir og sköpunargáfu – rithöfundar eru ekki einir um það.

Líklega má stytta vinnudaginn innan skapandi greina án þess að það bitni nokkuð á greininni – kannski flæða hugmyndirnar betur með skemmri vinnudegi. Hvernig væri að fyrirtækin prófuðu sig áfram með styttingu vinnudagsins á eigin spýtur? Hver veit nema að það gæti orðið starfsmönnum þeirra til góðs, og fyrirtækjunum sömuleiðis. Við höfum nú þegar nokkur dæmi um það, og hefur reynst vel, meðal annars hjá fyrirtæki á Íslandi sem starfar innan skapandi greina.

***

1. Gunnar Karlsson (2009). Atvinnubylting og ríkismyndun, bls. 37-104. Í Saga Íslands X. (Ritstj. Sigurður Líndal og Pétur Hrafn Árnason). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

2. Gunnar Karlsson (2009), bls. 17. Hagstofa Íslands (e.d.) Gögn sótt af vefsíðu Hagstofunnar.

3. Hagstofa Íslands (e.d.). Sótt af http://tinyurl.com/yxekdt5k þann 13. september 2019.

4. Sjá t.d. Hagstofa Íslands (7. febrúar 2019). Vinnumarkaður á 4. ársfjórðungi 2018. Hagtíðindi, 104(3), bls. 8-9.

5. Silvia, P. J. (2007). How to write a lot. Washington: APA Life Tools.

***

Mynd: Opið rými í Glasgow, Skotlandi. Myndin er fengin af Wikimedia commons, hér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni