Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Verkamannaflokkurinn í Bretlandi: Stefnan er tekin á 32 stunda vinnuviku

Verkamannaflokkurinn í Bretlandi: Stefnan er tekin á 32 stunda vinnuviku

 Á nýafstöðnu ársþingi Verkamannaflokksins í Bretlandi sem haldið var á dögunum, var mótuð sú markvissa stefna flokksins að stytta vinnuvikuna í 32 stundir á næsta áratug (#). Í Bretlandi, rétt eins og á Íslandi, er sterk menning fyrir því að vinna mikið og lengi. Þannig er vinnuvikan löng, en hún er um 43 stundir á viku að meðaltali hjá fólki í fullu starfi, en um 37 stundir ef fólk í hlutastarfi er einnig tekið með í myndina. Einnig er starfsævin löng, en hún er um 39 ár í Bretlandi. Rétt er að taka fram að vinnuvikan á Íslandi er lengri sem nemur um tveimur stundum á viku, auk þess sem starfsævin á Íslandi er um 47 ár (#, #, #). 

En ekki er allt sem sýnist í Bretlandi. Þessar tölur eru vissulega hinar opinberu tölur frá Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), en þær eru meðaltöl, og vitað er að margir vinna ýmist meira eða minna en sem þessu nemur. Þá er allt eins líklegt að tölurnar séu enn hærri í reynd, því inn í þær vantar trúlega fólk sem vinnur í lausamennsku og gerviverktöku af ýmsu tagi, en það fyrirkomulag hefur verið í sókn á undanförnum árum – þetta fyrirkomulag hefur oft í för með sér mikla vinnu, án réttinda til veikindaleyfis, sumarleyfa eða annars sem launþegar á Íslandi eru vanir. Þetta fyrirkomulag er kallað „zero hour contracts“ í Bretlandi og eru allstórir hópar sem reiða sig á vinnu sem byggir á þessu fyrirkomulagi. Þá eru allstórir hópar fólks sem fá litla eða ónæga vinnu. Má segja að það sé mikill ójöfnuður í vinnuálagi í landinu; sumir hópar vinna gríðarlega mikið á meðan aðrir fá ekki næga vinnu til að geta lifað.

Stefna Verkamannaflokksins er að hluta til að taka á þessu ójafnvægi með því að dreifa vinnunni á fleiri hendur, og til þess á að beita ýmiss konar aðgerðum. En það sem mikilvægara er, þá á að efla hagkerfið til að geta staðið undir skemmri vinnuviku, en þetta á að gera því að fjárfesta í innviðum, innleiða græna orku, og innleiða ýmiss konar lausnir til að auka framleiðni. Þessi fjárfesting er sérlega mikilvæg, vegna þess að aukning á framleiðni í Bretlandi hefur verið lítil undanfarin ár. Þá hefur hin aukna framleiðni undanfarinna þrjátíu ára ekki leitt til skemmri vinnuviku, því öllu heldur hefur lengd vinnuvikunnar staðið í stað, og taka á því meðal annars með því að fjölga frídögum.

En þetta er ekki allt, því Verkamannaflokkurinn stefnir líka að því að styrkja réttindi stéttarfélaga til kjarasamningagerðar, en þau réttindi hafa verið verulega skert undanfarna fjóra áratugi, þökk sé þeirri nýfrjálshyggjustefnu sem rekin hefur verið í stjórnmálum landsins. Stefnan er því að styrkja getu stéttarfélaga til að geta samið um vinnutíma og kaup og kjör, enda eðlilegt að hægt sé að semja um þessi atriði í frjálsu nútíma hagkerfi. Þá er stefnan tekin á að banna „zero hour contracts“, enda grafa samningar af þessu tagi undan kjörum launafólks, og raunar skapa þeir hættu fyrir sjálft hagkerfið með ójöfnuði af ýmsu tagi.

John McDonnell, þingmaður Verkamannaflokksins og skuggaráðherra fjármála, er aðalhöfundurinn á bakvið þessa stefnu, en hann lýsti henni þannig að: „Við eigum að vinna til að geta lifað, ekki lifa til að vinna“. Sem stendur er eins og við lifum til að vinna – ekki bara í Bretlandi, heldur líka á Íslandi.

Það er mjög gleðilegt að sjá að Verkamannaflokkurinn hefur nú innleitt róttæka stefnu hvað varðar vinnutíma, öllu launafólki og almenningi til heilla. Þetta er nokkuð sem þingmenn og forsvarsmenn vinstrisinnaðra flokka á Íslandi mættu íhuga vel og taka sér til fyrirmyndar, enda er um að ræða heildstæða stefnu sem eykur lífsgæði almennings án þess að setja hagkerfið á nokkurn hátt í hættu, heldur beinlínis nostrar við það og hjálpar því. Það er til mikils að vinna af róttækri og heildstæðri framtíðarsýn eins og þessari, og vonandi að á Íslandi sjái stjórnmálamenn sér tækifæri í að mynda sér slíka framtíðarsýn.

Öflug og heildstæð framtíðarsýn er mikilvæg til að geta breytt hagkerfinu þannig að við getum farið að lifa betra lífi, almenningi og fjölskyldum í landinu til heilla. Tíminn til þess er núna.

 ***

Myndin er frá mótmælum í Danmörku árið 1912, þar sem átta tíma vinnudags var krafist, hér má nálgast frekari upplýsingar um myndina. 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni