Þessi færsla er meira en mánaðargömul.

Jafnaðarsamfélagið: Aukin lífsgæði, jafnari tækifæri og meiri samheldni

Íslenskt samfélag hefur lengi viljað jöfnuð meðal borgaranna – við höfum jafnvel stært okkur af jöfnuði og verið stolt af því að ójöfnuður hafi ekki aukist á meðan það hefur verið raunin annars staðar. Og um margt byggðum við upp samfélag jöfnuðar, þar sem munurinn á aðstæðum og tækifærum fólks var ekki of mikill. En við vikum af braut jöfnuðar fyrir all-löngu og höfum ekki tekið nægilega stór skref í átt til jöfnuðar á ný, þótt tækifæri og ástæður hafi verið til. Undanfarna áratugi hefur ójöfnuður á Íslandi aukist.

 

Frá því við vikum frá jöfnuði á Íslandi – í kringum 1995 – hefur mikil þekking safnast af áhrifum ójöfnuðar á fólk og samfélag. Við vitum nú að jöfnuður eykur lífsgæði allra hópa, á meðan ójöfnuður dregur úr lífsgæðum, einkum þeirra sem minnst hafa, en þó líka þeirra sem mest hafa. Jöfnuður stuðlar að öflugra lýðræði og jafnari dreifingu valds. En aðstæður í heiminum hafa líka breyst til hins verra – vaxandi óstöðugleiki, stríð í Evrópu, versnandi afkoma margra, loftslagsbreytingar eru farnar að birtast okkur – frá því ójöfnuður fór verulega á skrið fyrir um fjórum áratugum. Við skiljum betur nú að hófsamur jöfnuður er forsenda þess að fólk geti lifað saman í sátt og samlyndi innan samfélags og tekist á við vandamál og ógnir samfélagsins sem ein heild. Ógnirnar eru ærnar og allt bendir til að svo verði áfram; aukinn jöfnuður myndi auðvelda okkur að lifa í óstöðugum ytri heimi án mikils taps á lífsgæðum.

 

Jöfnuður á sér margar hliðar, en má lýsa með einföldum hætti: Hóflegur jöfnuður er þegar sá hópur sem hefur mestar tekjur og býr yfir hvað mestum auð hefur ámóta tækifæri í lífinu og sá hópur sem hefur minnstar tekjur og auð – ekki endilega þau sömu, en ekki nógu ólík til að þau sem minnst hafa eigi í verulegum vandkvæðum við að komast áfram í lífinu. Þannig stuðlar hóflegur jöfnuður að sem jöfnustum tækifærum í lífinu, án þess að allir séu eins eða búi við sömu aðstæður í tilverunni. Ójöfn tækifæri og lífsskilyrði, hins vegar, hafa veruleg áhrif á líðan og stöðu fólks í samfélaginu.

Ójöfnuður á Íslandi í dag

Við verðum að horfast í augu við að á Íslandi í dag er tækifærum mjög misskipt. Á landinu býr tiltölulega lítill hópur sem þarf engar áhyggjur að hafa af afkomu sinni og barna sinna, meðan annar hópur – mun stærri – lifir í stöðugum ótta um afkomu sína og barna. Þessir hópar eiga lítið skylt efnahagslega og eru líklegir til að búa í sitthvoru hverfinu og jafnvel sveitarfélaginu.

 

Annar hópurinn getur hjálpað börnum sínum af stað í lífinu með því að kaupa fyrir þau húsnæði og bíla, á meðan hinn á vart fyrir óvæntum útgjöldum. Við viljum kannski ekki trúa því að staðan sé svona, en okkur er hollara að gera það – rannsóknir sýna það: 10% tekjuhæstu landsmanna áttu árið 2022 jafn mikinn sparnað í banka samanlagt og 50% tekjulægstu áttu. Þetta sama ár arfleiddu 10% eignamestu börnin sín um 48,9 milljarða á meðan hin 90% arfleiddu um 24,9 milljarða. Í fyrra átti 37% launafólks ekki fyrir óvæntum útgjöldum upp á 80.000 krónur nema að stofna til skuldar.

 

Þetta er ekki einkenni jafnaðarsamfélags, því augljóslega getur hópurinn sem á mestar eignir og hefur mestar tekjurnar leyft sér mun meira og borgað sig og sína fram hjá ýmsum hindrunum, sem hinn hópurinn getur alls ekki. Munurinn á tækifærum hópanna er meiri en við getum sætt okkur við.

 

Og áhrifin af ójöfnuðinum á líðan eru greinileg: Konur með minna en 500 þúsund í laun á mánuði eru mun líklegri en tekjuhærri að búa við skort og þær jafnvel neita sér um mat til að börnin þeirra fái að borða. Þær eru einnig líklegri til að finna fyrir einkennum kvíða, þunglyndis og streitu og segjast minna hamingjusamar en tekjuhærri konur. Þessi munur kemur til vegna ólíkra aðstæðna hópanna – tekna, húsnæðisstöðu, álags í vinnu og vegna streitu og áhyggja um afleiðingarnar þegar óvænt útgjöld koma til. Tekjurnar skipta máli, en líka aðrir þættir. Langtíma streita af þessu tagi er skaðleg, það er vel rannsakað. Þá eru greinileg tengsl ójafnaðar við verri líkamlega heilsu á Íslandi, heilsan er lakari hjá efnaminna fólki.

 

Þegar bilið á milli hópa er mikið er hætt við að skilningur annars á stöðu hins dali. Þau sem tekjuhærri eru og búa við fjárhagslegt öryggi deila ekki fjárhagslegum og félagslegum veruleika með hinum og skilja lítið í áhyggjum og vandamálum hinna — fólk fer að lifa mjög ólíku lífi. Það verður erfiðara fyrir fólk að taka á vandamálum samfélagsins í sameiningu. Efnahagslegur munur brýst út í ósætti. Þetta er að ágerast á Íslandi.

 

Þegar ósættið eykst verður erfiðara að viðhalda samstöðu um grundvallaratriði eins og lýðræði, mannréttindi, sameiginlegt eignarhald á auðlindum og innviðum, og öflugu velferðarkerfi.

 

Undanfarin misseri hefur nokkuð verið fjallað um ójöfnuð á Íslandi – ofangreint byggir á þeirri umfjöllun að hluta. Fræðafólk á Íslandi hefur fundið stef sem erlendir fræðimenn eins og Kate Pickett og Richard Wilkinson hafa fundið í sínum rannsóknum á öðrum samfélögum. Hér er því ekkert sér-íslenskt á ferðinni: Áhrif ójafnaðar eru orðin vel þekkt og íslenskt samfélag er farið að sýna einkenni um óhóflegan ójöfnuð.

 

Umræða um jöfnuð, réttilega, snýr oftast að þeim í samfélaginu sem minnst hafa á milli handanna, enda gagnast jöfnuður þessum hóp einna mest. En ójöfnuður hefur líka áhrif á hópinn sem hefur meira og mest: Meiri hætta er fyrir alla á að verða fyrir ofbeldi eða veikjast í ójafnari samfélögum – glæpatíðni eykst og dregur úr almennu heilbrigði með auknum ójöfnuði – og byrðinni af hvoru tveggja lendir á öllu samfélaginu. Samanburðarkvíði eykst. Á hinn bóginn verða tengsl á milli þeirra sem mest hafa og minnst betri og sterkari í hóflega jöfnum samfélögum, samfélagið styrkist og viðnámsþrótturinn eykst. Þannig gagnast jöfnuður öllum.

Ójöfnuður og völd

Ójöfnuður hefur líka áhrif á valddreifingu í samfélaginu. Þegar þröngur hópur fólks og fá, fjársterk fyrirtæki eiga orðið miklar eignir í samanburði við aðra í samfélaginu færast óbein völd til þeirra. Erlendis – mjög sterklega í Bandaríkjunum – sést þetta á því að tækni-, lyfja- og fjármálafyrirtæki hafa mikil áhrif á stjórnsýsluna – eftirlit með þeim sjálfum – og á löggjöf. Bandarík lyfjafyrirtæki komu því þannig fyrir – með því að beita áhrifum sínum – að ríkið mátti ekki fara í útboð á lyfjum fyrir opinbera heilbrigðisþjónustu til að fá sem hagstæðast verð – nokkuð sem mörg vestræn ríki gera –, heldur varð ríkið að kaupa lyfin á uppsettu verði. Þetta leiddi til hærri lyfjakostnaðar og ofurhagnaðar fyrirtækjanna. Þrýstiöfl, með gnægð fjármuna á bak við sig, hafa mikil áhrif á bandarísk stjórnmál, raunar svo mikil að löggjöf sem kemst í gegnum Bandaríkjaþing er í flestum tilfellum í þágu stórra fyrirtækja og efnafólks – löggjöf sem gagnast venjulegu fólki er ólíkleg til að komast í gegn.

 

Við skulum ekki halda að íslenskt samfélag sé ónæmt fyrir áhrifum ójafnaðar á lýðræðið. Minna má á áhrif bankanna á eftirlit með þeim sjálfum á árunum fyrir hrunið 2008. Þá var augljóst að fyrirtæki vildu hafa áhrif á löggjöf með styrkveitingum til stjórnmálaflokka á þeim árum. Á hverjum degi á Íslandi er raunar reynt að hafa áhrif á lög og reglur af hálfu öflugra samtaka atvinnurekenda og fjármagnseigenda – og stundum tekst þeim að hafa áhrif. Á Íslandi eru greinileg merki um neikvæð áhrif ójöfnuðar á lýðræðið.

 

Ójöfnuður – eftir ýmsum leiðum – hefur slæm áhrif á traust í samfélaginu. Ein mikilvægasta forsenda lýðræðis er þó traust – að við getum treyst hvoru öðru í daglegu lífi, traust um að farið sé eftir lögum og reglum og sanngirnis sé gætt í framfylgd þeirra, og svo framvegis. Á Íslandi hefur dregið úr trausti til opinberra stofnana og stjórnmála undanfarna áratugi. Þótt minnkað traust sé oft rakið til bankahrunsins 2008 og atburðanna sem leiddu til þess, þá má mun frekar ætla að óhófleg áhrif sérhagsmunahópa – líkt og bent er á að framan – á lýðræðið og áhrifamátt þess sem skaðvald; traust fólks minnkar þegar ítrekað verður ljóst að raunveruleg völd hafa færst til og lýðræðislegar stofnanir hafa minni áhrif en ætti að vera.

 

Mikill ójöfnuður grefur þannig undan sjálfu lýðræðinu og minnkar áhrifamátt almennings gagnvart þeim sem eiga mikinn auð.

 

Jöfnuður getur snúið þessu við með því að draga úr mætti stórra fyrirtækja og auðugs fólks til að hafa óhófleg áhrif á lýðræðið og gang þess. Þá gefst vinnandi fólki meira tóm og tími til að taka þátt í félagastarfsemi og stjórnmálum – vegna minni áhyggja af peningum, minni yfirvinnu og aukavinnu – sem eykur afl almennings og styrkir þannig lýðræðið. Mögulega eykst þátttakan einnig þegar fólk sér að áhrif efnameiri hópa á lýðræðið minnka og skynjar að þátttaka skiptir máli. Einnig er mikilvægt að við hugum að styrkingu lýðræðisins með nýjum leiðum til þátttöku, sem fjallað er um hér í lokin.

Jöfnuður er ákvörðun

Á meðan ójöfnuður hefur aukist undanarna áratugi, hefur traust á milli fólks og til stofnana minnkað. Samheldni hefur minnkað – samkeppni á milli fólks hefur aukist. Líðan hefur versnað. Þetta höfum við vitað um dágóða hríð – allt frá því 2008 eða svo – en ekki brugðist við þótt brýn ástæða sé til. Löngu er orðið ljóst að ójöfnuður hefur aukist vegna stjórnmálalegra ákvarðana.

 

Með COVID-19 faraldrinum og í kjölfar stríðsins í Úkraínu varð ljóst að ekki yrði aftur snúið – hugmyndafræði fyrri áratuga var rúin öllum trúverðugleika. Varla er hægt að halda áfram með sama samfélagsmynstur með vaxandi ólgu í heiminum. Aðkallandi er að stigvaxandi jöfnuður sé hluti af nýju samfélagsmynstri, enda myndi það styrkja samheldni samfélagsins, bæta líðan, gera dýpkun lýðræðisins auðveldari, og þannig auðvelda okkur að takast á við framtíðina í sameiningu. En hvernig aukum við jöfnuð á 21. öldinni?

 

Í fyrsta lagi þarf að endurskoða á skattkerfið. Uppbygging skattkerfisins ýtir undir að sparnaði landsmanna er mjög misjafnlega dreift og að fáir arfleiða gríðarlegum fjárhæðum umfram alla aðra – við þurfum að skoða skatta á auðmyndun þeirra sem mest hafa. Við hljótum líka að vilja endurskoða endurgreiðslur ríkisins á útlögðum kostnaði og sköttum stórra fyrirtækja vegna rannsókna, þróunar og framkvæmda – fyrirtækin sjálf hljóta að geta borið þann kostnað, enda grundvöllur þess sem þau gera og í þágu þeirra sjálfra. Að taka á svokallaðri skattasniðgöngu er einnig mikilvægt.

 

Í öðru lagi er það fasteignamarkaðurinn. Fasteign er stór hluti þess auðs sem venjulegt, vinnandi fólk myndar um ævina, en veitir líka stöðugleika og stuðlar þannig að góðri líðan. Ef fólki í lægstu launaþrepunum gengur illa að kaupa sér og eignast fasteign yfir lengra tímabil, en öðrum gengur mun betur, þá breikkar bilið á milli fólks í samfélaginu. Þetta er staðan í dag. Spákaupmenn jafnframt hreiðra um sig og safna eignum, sem þau launalægstu og þau sem ekki hafa aðgang að auð, leigja en mynda engar eða litlar eignir. Við ættum því að ígrunda vel hvernig fasteignamarkaðurinn eigi að virka sem jöfnunartæki fremur en hitt. Vel má hugsa sér reglur sem virka ívilnandi fyrir tekjulægstu hópana, reglur sem draga úr spákaupmennsku, auk ríkulegra vaxtabóta til handa tekjulægra fólki sem á lítið í sínum íbúðum.

 

Í þriðja lagi er það endurskoðun hugarfars okkar til markaða. Það hefur komið okkur í klandur að móta samfélagið þannig að óbeislaðir markaðir séu upphaf og endir stjórnmála, enda ýta þeir undir ójöfnuð á milli fólks og geta grafið undan lýðræðinu líkt og kom fram áður. Markaðir eru gagnlegir en þeir eru gagnlegastir þegar þeir eru tamdir til að gæta að jafnvægi á milli allra þeirra sem taka þátt í þeim – fyrirtækja, almennings og ríkis. Allir verða að hlíta leikreglum og þær geta verið mismunandi eftir hver á í hlut (einstaklingur, fyrirtæki eða ríki) og hve mikill auður er á bak við viðkomandi; þannig gætum við að jafnvægi og tryggjum að fólk sem hefur lítinn auð á bakvið sig geti tekið þátt á sínum forsendum.

 

Í fjórða lagi þarf að styrkja lýðræðið til að geta tekið á erfiðum deilumálum samfélagsins, þannig að hægt sé að svara þeim með beinni aðkomu almennings og þannig að markaðsöfl geti haft takmörkuð áhrif á niðurstöðuna. Borgaraþing gætu hjálpað við að taka á umdeildum spurningum í samfélaginu, svo sem um auðlindarentu, en á borgaraþingum kemur fólk saman sem valið er af handahófi, tekst á við áleitnar spurningar í sameiningu og skilar tillögum. Þetta er einn liður í að hætta að líta á ríkið sem eins konar þjónustustofnun við markaði – gildismat sem hefur ágerst undanfarna áratugi og birtist í ýmsu, eins og endurgreiðslu skatta til stórra fyrirtækja – og fremur líta á það sem sameiginlega stofnun sem viðheldur heilbrigðu og öruggu samfélagi í þágu almennings, enda er það fólk sem byggir samfélög.

 

Allt eru þetta mannlegar ákvarðanir sem myndu auka jöfnuð, hver eftir sinni leið, en auk þess myndi almannaþjónusta styrkjast, traust og samstaða aukast og deilumál samfélagsins færu í traustari farveg.

 

Áleitnar spurningar bíða úrlausnar um hvernig við viljum reka samfélagið okkar. Það er ljóst að við á Íslandi þurfum að takast á við ójöfnuð eins og önnur ríki. Að ýmsu er að hyggja til að draga úr ójöfnuði og auka samtakamátt okkar á næstu árum – við þurfum að hugsa út fyrir þann ramma sem hefur verið mótaður undanfarna áratugi og þora að taka skref í átt að auknum jöfnuði. Jöfnuður er ákvörðun.

 

Höfundur er stjórnarmaður í Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði.


Helstu heimildir: Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson. Ójöfnuður á Íslandi. – Wilkinson, R. og Pickett, K. (2009/2010). The Spirit Level – Reich, R. (2015). Saving Capitalism. – Varða. Staða launafólks á Íslandi (mars 2024). – RÚV (16. ágúst 2024). Konur í láglaunastörfum neita sér um mat og hafa lítið félagslegt bakland. Heimildin (12. júlí 2024), bls. 17 og 22.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Nýtt efni