Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Samtök Iðnaðarins vilja styttri vinnudag

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka Iðnaðarins, var í viðtali í Morgunútvarpinu um daginn (sjá einnig hér). Í þessu viðtali viðraði Guðrún hugmynd sem hefur alloft verið rædd á þessari síðu: Að stytta vinnudaginn á Íslandi. Hún sagði að stytting vinnudags ætti að vera gerleg, að því gefnu að framleiðni í landinu aukist.

Stytting vinnudagsins hefur undanfarin ár alloft komið til tals, en minna hefur verið um aðgerðir. Vinnutími á Íslandi hefur nú staðið nokkurnveginn í stað undanfarna þrjá áratugi, ef undanskilin eru árin eftir hrun, þar sem vinnutíminn styttist lítillega, líklegast sem viðbrögð fyrirtækjanna til að draga úr launakostnaði (sjá nánar hér). Vinnutíminn er nú líklega farinn að lengjast á ný, enda er hagkerfið farið að þenjast út á nýjan leik, eftir að það skrapp saman.

Nokkrar leiðir má fara til að stytta vinnutímann, en sú leið sem helst hefur verið farin í Evrópu undanfarna áratugi er að auka afköst (framleiðni) samhliða því að stytta vinnutímann. Með því móti hefur tekist að halda veltu hagkerfisins óbreyttri – jafnvel að auka hana, og koma í veg fyrir að hagkerfið skreppi saman, en jafnframt stytta vinnudag launafólks. Stytting eins og þessi hefur gengið þannig fyrir sig að stéttarfélög og atvinnurekendur hafa samið um launahækkanir, styttingu vinnutíma, og um aðgerðir til að auka framleiðni – allt í einum samningi, og hafa komið sér saman um vissar aðgerðir til að þetta sé hægt (sjá nánar hér).

Hugmyndir Samtaka Iðnaðarins virðast ekki vera í þessa veruna, því í viðtalinu leggur formaðurinn því til forsendu styttingar vinnudagsins að framleiðni aukist áður en vinnudagurinn er styttur. Vera má að orðlagið hafi verið óskýrt, en forsendan virðist engu að síður sú að að eigi stytting vinnudagsins að eiga sér stað, verði vinnandi fólk fyrst að leggja harðar að sér – sem sé, vinna betur á sínum venjulega vinnudegi, og vonast svo eftir styttingu eftir á. Þetta er óraunhæf forsenda, því hluti vandans er líklega sá að fólk er vant löngum vinnudegi og er orðið langþreytt á honum, en auk þess eru merki um að fólki gangi hreinlega illa að klára verkefnin í vinnunni – alltént var mest kvartað undan því á Íslandi í alþjóðlegri rannsókn sem var gerð fyrir nokkrum árum. Einnig er lítil von til að fólk leggi harðar af sér fyrir einhver óræð verðlaun síðar meir, stöku einstaklingar gera slíkt við og við, en ekki stórir hópar fólks eins og hér um ræðir; enda myndi fólk án efa hugsa með sér: „Af hverju ætti ég að leggja harðar af mér ef ég fæ skemmri vinnudag einhverntíma síðar? Hver segir að vinnuveitandinn hirði ekki hagnaðinn af auknum afköstum, stingi í eigin vasa og leyfi mér aldrei að fá skemmri vinnudag og vonist til að ég vinni eins áfram?“. Þetta gildir ekki síst í því efnahagsástandi sem við búum við núna, þar sem fólk er tortryggið gagnvart atvinnurekendum, eftir uppsagnir, launalækkanir launþega en launahækkanir stjórnenda.

Raunhæf leið til að fá fram skemmri vinnudegi er að samið sé um skemmri vinnudag, ráðstafanir til að auka framleiðni, og eðlilegar launahækkanir í samræmi við það sem efnahagurinn leyfir – allt í einum samningi.* Formlegur samningur eins og þessi kallar fram traust launafólks, hann veldur því að atvinnurekendur vita hvað þeir mega búast við og hvað þeir mega gera.

Þessar athugasemdir mínar má ekki skilja þannig að ég finni hugmyndum Samtaka Iðnaðarins allt til foráttu, hreint ekki. Samtök Iðnaðarins eiga hrós skilið fyrir að koma hugmyndinni á framfæri og að ætla sér að gera eitthvað í málinu; það er tími kominn til að einhver sem er í aðstöðu til þess geri eitthvað til að stytta vinnudaginn. Mínar athugasemdir má frekar skilja sem hugmyndir um hvernig mætti standa betur að, en formaðurinn gaf til kynna í viðtalinu.

Hins vegar mega stéttarfélögin í landinu hugsa sinn gang í kjölfar þess að atvinnurekendur vilja nú stytta vinnutíma launþega; hvers vegna er það að stéttarfélögin hafa ekki sjálf vakið rækilega athygli á þessari hugmynd á undanförnum mánuðum og árum? Hvers vegna gerist það að atvinnurekendur virðast ætla að eiga frumkvæðið að því að gera eitthvað raunverulegt, en ekki stéttarfélögin, sem eiga að heita hagsmunasamtök launþega? Svarið er kannski að finna í eldri pistli mínum, hér.

Þetta er gott framtak. Það er hagur okkar allra að við stöndum sem best að framkvæmdinni. Við skulum þó ekki gleyma því að þetta er einungis fyrsta skrefið – það sem bíður okkar sem samfélags eru miklu stærri breytingar, en sem taka líka langan tíma að verða að veruleika.

***

* Þessi leið er raunhæf, en ekki endilega sú skynsamlegasta í stöðunni vegna mögulegra áhrifa hennar á umhverfið, því að hún kann að kalla fram hagvöxt, sem veldur umhverfisspjöllum (sjá nánari umræðu hér).

***

Þessi pistill birtist áður á bloggsíðu höfundar á DV.is

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni