Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Varnarmúrinn græni

Það er orðið flestum ljóst að Sigríði Andersen er ekki stætt lengur á ráðherrastól.

Hæstaréttardómurinn í kjölfar geðþóttaræðis hennar í dómaramálum, skaðabótamálin í kjölfarið, ítrekuð dæmi þess að hún hafi hundsað ráðleggingar, ábendingar og athugasemdir frá embættismönnum, sérfræðingum, þingmönnum og fleirum sem bent hafa á það að hún stæði ekki vel að verki, eru það sterk rök fyrir því að m.a.s. Sjálfstæðismenn eiga hugsanlega erfitt með að kyngja því lengur.

Viðbrögð hennar í kvöldfréttum þar sem hún var komin út í það að gefa í skyn að sérfræðingar ráðuneytanna hefðu verið ómarktækir og að hún væri bara ósammála öllum þeim sem hefðu ráðlagt henni heilt, voru eiginlega hrokafull innsiglun á stórkostlegri vanhæfni hennar til að meðhöndla það vald sem henni hefur verið falið.

En hún mun sitja áfram sem fastast meðan hún er varin...af Vinstri Grænum.

Það er nefnilega það sem hefur gert alla atburðarrás í kringum Landsdómsskipun súrrealíska.

Sjálfstæðismenn hafa hvað minnst púðri eytt í að verja pólítískar geðþóttaskipanir Sigríðar Andersen á dómurum í Landsrétt heldur hafa látið mál þróast á þann veg að Katrín Jakobsdóttir og þingmenn Vinstri Grænna hafa tekið sjálfivilju þann eitraða kaleik að sér að mynda varnarmúr í kringum Sigríði. Á meðan hefur Framsóknarfólk haft vit á því að halda sig í skugganum enda minnug sögunnar þar sem Framsókn sat uppi með vörnina og skaðann fyrir hitt og þetta sem Sjálfstæðismönnum tóku sér fyrir hendur.

Varnarmúrinn Græni hefur byggst helst á því að segja að ráðherra þurfi ekkert að segja af sér þó dómur falli og hefðir séu fyrir því að flokkar skipti sér ekki af ráðherramálum annarra flokka í ríkisstjórn. Brostið hefur svo á hneykslun þegar VG er gagnrýnt fyrir þessa afstöðu í ríkisstjórn sem flokkurinn leiðir og látið sem að það sé ósæmilegt að spyrja um af hverju Sigríður Andersen geti setið sem fastast í skjóli Vinstri Grænna.

Þetta eru varnarrök hinna meðvirku sem búa í ofbeldissambandi sem vonast er að verði betra.

Það er eiginlega það eina sem manni dettur til hugar sem lýsingu á þessari vörn Vinstri Grænna.

Nú finnst manni þessi ríkisstjórnarmyndun algjör ósvinna sem slík út af því að verið var að leiða Sjálfstæðisflokkinn enn eina ferðina til valda og það þrátt fyrir barnaníðingamál flokksins sem hefðu átt að tryggja að Sigríður Andersen hefði ekki sest aftur á valdastól. Maður hafði samt ekki ímyndunarafl í það að láta detta sér til hugar að Vinstri Grænir yrðu svo fljótt komin í varnarhlutverkið sem samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins sitja gjarnan uppi með.

Ef ég væri einhver í hópi áhrifafólks innan VG þá myndi ég staldra núna við og spyrja á hvaða vegferð flokkurinn er og hvað sé í gangi. Þessi varnarmúr er nefnilega farinn að höggva skarð í þá ímynd sem Vinstri Græn hafa eytt mörgum árum í að byggja upp þ.e. að þau séu nokkuð vammlaus og heiðarlegur flokkur sem vilji auka traust á stjórnmálum, vilji uppræta spillingu, betrumbæta vinnubrögð og að öxluð sé ábyrgð með sýnilegum og auðmjúkum hætti á fúski og handvömm.
Landsdómsmál Sigríðar Andersen og meðvirknisvörnin fyrir hana er í algjörri andstöðu við þessa ímynd og það verður erfitt að taka fulltrúa VG alvarlega þegar þau hneykslast á andstæðingum og krefjast ábyrgðar þegar VG dettur í stjórnarandstöðuna eftir þetta kjörtímabil.

Vinstri Græn bera nefnilega ábyrgð á því að Sigríður Andersen sitji í ríkisstjórn og tímarnir eru breyttir frá því að hægt var að láta hefðir hins Gamla Íslands ráða slímsetu stjórnarherra sem ríghéldu í stólinn í von um að stormurinn gengur yfir. Sigríður Andersen er nefnilega ráðherra í ríkisstjórn undir forystu VG og þar bera allir flokkar ábyrgð á henni, ekki bara hennar eigin flokkur.

Það er heldur ekki hægt að tala sig lengur undan hlutunum og skella því hvernig á að auka traust á stjórnmálum í nefnd sem dagar svo uppi með einhverjum loðnum tillögum sem skila engu. Stjórnmálamenn eru kosnir m.a. til að taka ákvarðanir og sýna í verki hvernig þeir taka á málum, þeir eru ekki kosnir til að forða sér undan ábyrgð og reyna að kæfa málin niður með nefndarskipun líkt og er altlaf gert með stjórnarskrárbreytingar eða aðgerðir vegna kennitöluflakks.

Nú getur svo sem vel verið að VG séu hrædd við hvað gerist ef þau sýna festu og ábyrgð með því að fara fram á að Sigríður Andersen víki úr ríkisstjórn. Kannski hótar Bjarni Ben stjórnarslitum, kannski verða Sjálfstæðismenn æfir yfir því að ekki sé kóað lengur með stórkostlegri vanhæfni, kannski fara einhverjir þeirra í fýlu og reyna að bregða fæti fyrir stærri málefnin.

En það er þess virði að láta á það reyna og fara fram á afsögn því skaðinn af Sigríði Andersen fyrir VG, traustið á stjórnmálum og samfélagið í heild sinni er ekki virði þess að láta flokkinn festast í meðvirkni og hræðslu við reiða Sjálfstæðismenn. Ef Sjálfstæðismenn láta ríkisstjórnarsamstarfið snúast um slímsetu vanhæfs ráðherra þá er það ríkisstjórnarsamstarf ekki þess virði að halda því áfram því næsti skítur Sjálfstæðisflokksins gæti orðið enn verri biti að kyngja fyrir Vinstri Græna.

En ef Sjálfstæðismenn meta það svo að ríkisstjórnarsamstarfið sé meira virði heldur en ráðherrastóll Sigríðar Andersen þá þýðir heldur ekki að notast við aðferðafræði Gamla Íslands þar sem ráðherrum var skipt út eftir að stormurinn var gengin yfir og viðkomandi annað hvort troðið í nýtt ráðuneyti eða fína stöðu.

Hún verður að víkja fyrir opnum tjöldum vegna Landsdómsmálsins og stórkostlegs geðþóttafúsksins sem hefur grafið undan réttarríkinu.

Annars mun traustið á stjórnmálum deyja í kyrrþey starfshóps um hvernig skuli auka traust og ábyrgð í stjórnmálum.

Svo verður það borið til grafar innan varnarmúrsins græna að eilífu.

Undir innantómu söngli stjórnmálamanna.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni