Upprifjun á þingsályktun um bankahrunið
Þann 28. september árið 2010 var þingsályktun samþykkt. Hún innihélt m.a. eftirfarandi orð:
" Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undangenginna ára og telur mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni.
Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.
Alþingi ályktar að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og leggur áherslu á að af henni verði dreginn lærdómur.
Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.
Alþingi ályktar að stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækja á Íslandi beri mesta ábyrgð á bankahruninu.
Alþingi ályktar að eftirlitsstofnanir hafi brugðist.
Alþingi ályktar að mikilvægt sé að allir horfi gagnrýnum augum á eigin verk og nýti tækifærið sem skýrslan gefur til að bæta samfélagið. "
Þessi ályktun sem var samin í kjölfar niðurstaðna Rannsóknanefndar alþingis um Hrunið var samþykkt samhljóða af öllum 63 þingmönnum. Meðal þeirra voru fjölmargir þingmenn og ráðherrar núverandi stjórnarflokka og þ.á.m. eftirfarandi:
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Það er því vert að rifja þessa ályktun upp og íhuga í tengslum við Íslandsbankamálið.
Sérstaklega þar sem þau hræðast það mest af öllu að óháð rannsóknanefnd á vegum alþingis verði kölluð saman.
Það eitt segir strax til um lærdóm þeirra af Hruninu.
Athugasemdir