Fyrirframgreiddu launin hans Illuga
Illugi Gunnarsson fer hamförum þessa daganna við að reyna að bjarga pólitísku lífi sínu vegna Orku Energy-málsins.
Til sönnunar þess að hann hafi ekki fengið lán frá Orku Energy á árinu 2011 þá leggur hann fram launaseðil frá febrúar 2012 og segir að það sé sönnun fyrir því að það séu fyrirframgreidd laun fyrir vinnu sem hann innti fyrir fyrirtækið meðan hann var ekki á þingi það árið.
Gott og vel en þetta vekur upp fleiri spurningar en hitt.
Marinó G. Njálsson kom með ágætis punkta um slíkt á Fésbókarsíðunni sinni.
Þar bendir hann m.a. á að það eigi að telja eigi laun vegna vinnu fram til skatts á því ári sem vinnan fór fram á. Slíkt er lögbundið í lögum um tekjuskatt sem þessi greiðsla er að fara á svig við.
Ef maður flettir svo upp hvenær Illugi Gunnarsson tók sæti á þingi aftur þá er það 1. október 2011 sem þing hefst.
Vinnan hefur því farið fram á tímabilinu janúar til loka september og væntanlega ekki með þingstörfum enda er það fullt og yfirgripsmikið starf samkvæmt þingmönnum sjálfum. Það vekur því upp enn frekari spurningar um hversvegna beðið er með að gefa út launaseðil í fimm mánuði og af hverju var ekki gengið frá þessu strax í ljósi þess að Illugi settist á þing að nýju haustið 2011.
Annað atriði er að þessi upphæð virðist hafa verið fastákveðin fyrst og svo reiknað út frá henni hver heildarlaunin fyrir skatt og frádrátt ætti að vera auk þess sem ekkert er tekið fram um fjölda vinnustunda á bak við þessa upphæð. Slíkt vekur upp enn frekari spurningar um hvort launaseðillinn hafi verið búinn til að réttlæta óútskýrðar fjárhæðir til Illuga er kom að bókhaldi og eftirliti. Það er líka vert að benda á það að upphæðin er ekki þrjár milljónir eins og talað er um í fjölmiðlum heldur yfir 5 milljónir í laun.
Þriðja atriðið sem maður tekur sjálfur eftir er nú nokkuð sem kannski ætti að koma Illuga og fjármálum hans vel í ljósi þess að hann er launþegi Orku Energy. Fyrirtækið virðist ekki hafa reiknað út orlof á hann eða greitt honum orlofsréttindi líkt og lög gera ráð fyrir. Hann gæti því átt inni nokkra hundrað þúsund kalla með vöxtum hjá þeim og það hefði nú verið snjallt af honum að láta verkalýðsfélagið sitt sækja þau laun til fyrirtækisins....ef hann hefði nú borgað í verkalýðsfélag.
Fjórða atriðið sem vekur upp spurningar er svo það sem sumir benda á.
Launaseðillinn virðist ekkert vera sérstaklega formlegur launaseðill heldur virðist hafa verið settur upp í Excel af einhverjum. Nú þekkir maður ekki hvort slíkt sé eðlilegt eða ekki en það veldur ákveðinni tortryggni hjá mörgum í ljósi síbreytilegs sannleika Illuga sjálfs um hvort þetta sé falsaður launaseðill eða raunverulegur. Það ætti því að vera hægt að sanna það með tilvist ráðningarsamnings og yfirliti frá skattinum um að greitt hafi verið af þessu til ríkissjóðs.
Vafalaust er þessu máli ekki lokið þó Illugi hafi að hætti pólitískra leikja reynt að ná stjórn á umræðunni með almannatengslaherferð Það hefði líklegast betur farið ef Illugi hefði komið hreint fram strax í stað þess að segja ósatt um tengsl sín við fyrirtækið og fara svo undan í flæmingi frá spurningum fréttamanna líkt og að hann væri að hlaupa frá málþingi um læsi barna til að fara á fótboltaleik.
Slíkir leikir taka enda fyrr eða síðar en spurningarnar ekki fyrr en þeim verður heiðarlega svarað.
VIÐBÓT: Í fréttum RÚV kemur fram að þessi greiðsla hafi átt sér stað í desember 2011 en launaseðillinn gefinn út árið 2012. Þetta er því ekki fyrirframgreiðsla launa per se í ljósi þess að vinnan hafi átt sér stað. Illugi virðist hafa unnið launalaust fram að þingsetu sem getur ekki valdið öðru en frekari heilabrotum um tekjur hans og afkomu hans á þessum tíma ef þetta var eina starf hans.
Athugasemdir