Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Að stinga sjálfan sig í bakið

Fyrir um 20 árum síðan eða svo þá ákváðum við vinirnir að spila borðspilið Diplomacy eitt kvöldið. Það gengur m.a. út á það að spilarar semja sín á milli, plotta og baktjaldamakkast í von um sigur.

Þegar spilið var komið aðeins af stað var ég í ágætri stöðu til að hafa áhrif á gang leiksins og menn vildu ólmir fá mig til liðs svo hægt væri að einangra einn skeinuhættulegan leikmann sem reyndi einnig að semja við mig. Sigurviss hugsaði ég málið og komst að þeirri niðurstöðu að best væri að leika á þá alla með leik sem enginn hefði gert ráð fyrir. Það myndi vera svikamylla sem myndi skila mér yfirburðarstöðu.

Svo kom að ögurstund þar sem ég tilkynnti glaðhlakkalegur aðgerðir mínar við spilaborðið með orðum sem ég hefði betur ekki sagt:

„Þetta er backstab aldarinnar!“

Allir hinir góndu á spilaborðið, litu svo á mig ásakandi augum og einn sagði:

„Þetta er algjört rugl hjá þér. Það breytist ekkert við þetta.“

Ég renndi þá augunum aftur á borðið og gleðin stirðnaði hjá mér þegar ég fattaði hvað ég hafði klikkað.

Ég hafði stungið sjálfan mig í bakið með þeim afleiðingum að mér var slátrað af öllum í næstu umferð þar sem ég var ekki traustsins verður.

Ég skil því Benedikt Jóhannesson og litla Sjálfstæðisflokkinn Viðreisn eftir atburði og Kastljós gærdagsins.

Þau göbbuðu kjósendur í kosningum með því að ljúga því til að þau væru öðruvísi umbótaflokkur á miðjunni sem gæti starfað til hægri og vinstri en létu grímuna falla strax eftir kosningar og afhjúpuðu sig svo endanlega í Kastljósi gærdagsins sem dólgafrjálshyggjulið. Um leið varð maður endanlega sannfærður um hvað Viðreisnarfólki gengur til.

Ríkisstjórnarmyndunarviðræður Viðreisnarfólks ganga út á eitt: valdabaráttu innan Sjálfstæðisflokksins og hvor armur flokksins mun vinna að lokum, ekkert annað.

Ef Viðreisnararmur Sjálfstæðisflokksins hefði í raun verið alvara með baráttumálum sínum þá hefðu þau átt meiri möguleika á að ná einhverju fram í fimm flokkastjórn eða minnihlutastjórn en með Sjálfstæðisflokknum sem er á móti öllum kerfisbreytingum sem ganga út á bættan hag almennings. Í stað þess þá eru auknir skattar á auðmenn og þá tekjuhæstu gerðir að aðalprinsippmáli litla Sjálfstæðisflokksins sem fimmflokkaviðræðurnar eru látnar stranda á.

Það meikar því engan sens að fórna öllu öðru fyrir auðmannadekur ef þú ert í viðræðum um að koma á kerfisbreytingum og umbótum.

Enda er þetta valdabarátta höfuðdjöfla hins ógeðslega samfélags.

Viðreisnararmurinn klauf sig frá Sjálfstæðisflokknum til að ná fram breytingum innan Sjálfstæðisflokksins þar sem landsfundir og skilyrðislaus stjórnarstuðningur hafði ekki virkað sem tæki til slíks.

Svo þegar kom að stjórnarmyndunarviðræðum þá ætlaði Viðreisnararmurinn að ná fyrst tangarhaldi á Sjálfstæðisflokknum með því að draga Bjarta Framtíð með þeim í stjórn og stilla þannig Bjarna upp við vegg með því að neita að taka klofna Framsókn með svo það þyrfti ekki að reiða sig á eins manns meirihluta.

Bjarni sagði bless eins og allir vita svo að Viðreisnararmur Sjálfstæðisflokksins taldi sig geta náð betri samningsstöðu innan Sjálfstæðisflokksins með því að þykjast taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum við umbótasinnaða flokka í von um að Bjarni kæmi á biðilsbuxunum en prinsippið um að almenningur eigi að sjá fyrir samfélaginu frekar en auðmenn reyndist Viðreisnararminnum of mikið mál að lokum.

Eða einfaldlega það að Bjarni hafi hringt í frænda og boðið betur svo Viðreisnararmurinn ákvað að sprengja allt til að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn með eða án Bjartrar Framtíðar sem hefur tölt á eftir þein eins og þægur hundur í bandi.

Nú eða blanda af báðum.

En þessir misheppnuðu klækjaleikir hafa skilað Viðreisnarliði engum árangri í valdabaráttunni innan Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni og gamla liðið stendur nú uppi með ákveðinn sigur í þessari valdabaráttu.

Viðreisnararmurinn er nefnilega búinn að mála sig út í horn gagnvart öllum öðrum og getur aðeins farið í stjórn á forsendum hins hluta Sjálfstæðisflokksins sem Bjarni er fulltrúi fyrir. Um leið hafa þau gert Framsókn að sigurvegara stjórnarmyndunarviðræðna því Framsókn hefur öll spilin í hendi sér. Framsókn getur valið að mynda stjórn með hinum fjóru flokkunum sem Viðreisnararmur Sjálfstæðisflokksins taldi sig geta notfært sér til í valdabaráttunni eða þeir geta farið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisninni þeirra sem hækju.

Það versta er að líklegast í báðum tilfellum þá eru þeir búnir að gulltryggja Sigmundi Davíð ráðherrastól að nýju þar sem Framsókn mun líklegast krefjast þess svo hægt sé að ná mannasættum innan hins klofna flokks.

Á endanum verður það því Viðreisnarmur Sjálfstæðisflokksins sem stakk sjálfan sig í bakið án árangurs.

En svo við klárum upphafssöguna um bakkstabb aldarinnar í Diplomacy hjá mér.

Í næstu umferð þá bundust allir leikmenn saman um að semja ekki við mig og þurrkuðu mig út úr spilinu þar sem ég lá vel við höggi enda átti ég ekki neina góða leiki í stöðunni og var búinn að sýna það að ég var óáreiðanlegur og óheiðarlegur spilari.

Þannig verða einnig endalok uppreisnar Viðreisnararms Sjálfstæðisflokksins.

Eða allavega þar til næsti klofningur verður hjá Sjálfstæðisflokknum.

Það mun pottþétt gerast áður en ég spila Diplomacy aftur.

Ég lærði nefnilega af reynslunni og öllum háðsglósunum út af þessu „bakstabbi aldarinnar“ síðan.

Vinir mínir eru nefnilega langminnugir á svona mistök og svik í spilum.

Ólíkt kjósendum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni