Ég á að vera að skrifa kennsluefni, en flissið í bankastjórnendum, slitastjórnum og einkavinavæddum frekjum þegar „lýðurinn“ æmtir og krefst umbóta suðar fyrir eyrunum á mér:
Ég skrifa þessar línur vegna þess að ég hef á tilfinningunni að það sé að gleymast í umfjöllun um komandi kosningar að við erum að kjósa fyrr en við gerum venjulega. Við mótmæltum mörg, og niðurstaðan, eftir undanslátt mikinn, eru kosningar núna.
Þetta reddast ekki. Það var og er lygi. Til að gera vel þarf að vanda til verka. Og vilja breyta rétt.
Við eigum þetta land. Við megum og getum rekið það vel, verndað og nýtt. Við megum og getum verið til fyrirmyndar. Við megum bjóða fólk velkomið hingað og gleðjast yfir nýjum Íslendingum. Við megum stækka heimsmyndina. Við megum velja að taka þátt í lífinu með öðrum í heiminum og heimta lagfæringar. Við megum læra, af mistökum, og af forvitni og áhuga. Við megum skapa. Við megum skipta verðmætum á milli allra sem vilja byggja þetta samfélag í sæmilegri sátt, miklum jöfnuði og djúpstæðu réttlæti. Við eigum þetta land, kjósendur í lýðræðisríkinu Íslandi. Og við megum sannarlega ákveða að byggja hér upp framtíð sem er mannsæmandi og jafnvel öllum til góðs. Okkur má líða eins og fólki. Við megum verða gömul með reisn. Við megum vera ung og bjartsýn. Við megum vera almennilegar manneskjur.
Það sem ég er að segja er: Kjóstu. Kjóstu eitthvað annað en B og D.
A fhverju? Við erum að kjósa snemma af því fyrrverandi forsætisráðherra var afhjúpaður í þætti um Panamaskjölin. Hann laug að okkur. Hann á félag í Panama, og eða konan hans. Og hvað getur það þýtt? Það getur vel þýtt að hann hafi haft hagsmuni þess félags í huga, umfram hagsmuni almennings og þar með íslenska ríkisins, þegar hann og ríkisstjórn hans — hann og Bjarni Benediktsson úr Sjálfstæðisflokki — sömdu við erlenda kröfuhafa um uppgjör okkar á hruninu. Eins er óljóst enn hvort hann og hans fólk greiddi eða greiðir hér skatta eins og vera ber. Það sama á við um Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, og Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra. Og hvert spillingarmálið á fætur öðru hefur verið á forsíðum blaðanna og til umfjöllunar í fréttum sjónvarps allar götur síðan hrunið varð. Daglegar fréttir af arðráni á okkur flestum í þágu þeirra fáu sem eiga hér orðið næstum allt. Þau tóku allt og taka enn. Daglegt brauð.
Þetta er samt langt því frá það eina sem ég hugsa um, núna þegar kosningar eru eftir eina viku. Þessar kosningar sem eru snemma á ferðinni. Ég hugsa sem aldrei fyrr um það hvernig geti staðið á því að einn fjórði af öllu hér er nú í eigu nokkurra ríkra ætta. Það er eins og Laxness hafi aldrei útskýrt fyrir okkur hvernig lénsveldi og þýlyndi virkar. Að við höfum lengi hagað okkur eins og heimskir sauðir, atkvæðabært fólk þessarar þjóðar. Við vinnum almennt meira en nokkur þjóð sem við nokkurntíma berum okkur saman við. Við vanmetum verðmætin sem hvert okkar leggur til. Ástæðan er að við höfum sett völdin í hendur þessara stjórnmálaafla, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem hugsa ekki um neitt annað en að hámarka gróða sinn og segja okkur að við eigum ekki meira skilið, eigum ekkert inni. Þau hámarka ekki gróða fyrir samfélag, fyrirtæki eða stofnun. Nei, þau hámarka gróða fyrir hluthafa. Og hverjir eru þeir? Jú, þau sjálf eða vinir þeirra og nánasta fjölskylda. Þau hafa séð til þess með brellum og bralli. Löglegt en siðlaust.
Allt frá stofnun lýðveldis hafa Íslendingar, nánast alltaf, kosið sér stjórnvöld sem eru tilbúin til að taka allan afrakstur af vinnu margra, jafnvel allra, til sín og sinna og deila ekki. Það heitir arðrán.
Þetta sama fólk, með hjálp frá Blair-ruglaðri Samfylkingu, kom í veg fyrir að ný stjórnarskrá, okkar stjórnarskrá, yrði grundvöllur breytinga sem hefðu tryggt jafnara og réttlátara samfélag. Sú er ekki fullkomin, nýja stjórnarskráin, en hjálpi okkur hvað hún er miklu miklu betri en sú sem við höfum og lögin sem á henni byggjast. Sú gamla, sú sem síðan 20. október 2012 stendur fyrir valdarán. Konungur afhenti okkur hana. Höfðingja sem átti allt og taldi óþarfa að deila með öðrum nema rétt til að fólk héldist áfram við vinnu. Hún er nær óbreytt síðan. Og á henni, þessari sem stendur nú fyrir valdarán í lýðveldinu Ísland, eru sjálfstæðismenn og framsóknarmenn miklu meira en til í að byggja áfram. Vegna þess að hún auðveldar þeim svo mikið að halda áfram að hirða.
Einu sinni, rétt upp úr stofnun lýðveldis og framundir áttunda tug síðustu aldar, átti þetta nýríka sjálfstæða fólk ekki næstum allt hér á Íslandi eða hvað þá hafði flutt arðinn á aflandseyjar til að geta örugglega setið eitt yfir rjómanum af vinnu Íslendinga. Einu sinni, þegar ég var smotterí sjálf (er það ekki lengur), áttum við þetta land saman. Allar kennslubækur voru uppfullar af mæringum á því landi sem hefði allt að bjóða duglegu og skýru fólki. Lítil stúlka mátti veiða sér fisk í soðið hvar sem er. Hún mátti segjast eiga fjöll og firnindi, með hinum hér. Hún gat sagt frá því að við hefðum unnið Þorskastríðið. Við. Ekki útgerðarmenn. Hún mátti líka vera stolt af því sem eigin verki að hér væri ekki her, ekki vopnuð lögregla. Fólk sem hefði dug í að sækja fisk í sjó, ræktarfólk. Hún mátti vera stolt af því að hér væri ekki stéttaskipting. Hér væri menning og lifandi tunga. Stolt af Hávamálum og ævafornri hefð fyrir gestrisni og að bjóða fólk velkomið í hópinn. Hún gat haldið að hér yrði aldrei neinn svangur, vina- eða hjálparlaus, ef við héldum á spöðunum og værum dugleg öll. Hún trúði, þessi litla stúlka fortíðarinnar, að við værum öll jöfn og öll mikils virði.
Allt sem þau sögðu mér var lygi.
Allt sem þau sögðu mér var lygi. Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn hafa verið í ríkisstjórn 90% af tímanum frá stofnun lýðveldis og allan þann tíma hafa topparnir í flokkunum tveimur verið að taka til sín og sinna og hafa vandað sig við og lagt sig fram um að taka af okkur hinum, meira að segja sínum eigin kjósendum. Þeim sem ekki tengjast þeim beint eða hlýða í öllu. Allir þeir sem héldu að hér væri samfélag í sameign voru plataðir. Og eru enn plataðir. Hafðir að fíflum og rændir. Smækkaðir og leystir undan eigin lýðræðislega valdi. Gerðir (aftur) að féþúfu með þrælslund. Okkur hefur verið sagt í rúma hálfa öld að ef við séum nógu dugleg þá skili sér molar af borði sjálfstæðra og framsækinna til okkar og okkar fólks. Það er lygi. Það verður aldrei. Molarnir enda allir á Tortóla eða í Panama. Eru étnir í veislum á Kvíabryggju og í Lúxemborg og London.
Að kjósa ekki er að samþykkja ástandið eins og það er.
Viðreisn er líka D, taktu eftir því. Skárra D, en D samt. Viðreisn stendur fyrir frjálshyggju-efnafólk en þó vissulega opnara samfélag. Pawel er klár. Ég vildi að hann væri Pírati. Björt framtíð segist vilja eiga kost á að vinna með B og D. Það er brandari. Óttarr er samt mannleg gæði líkömnuð og fleiri góðar. Fín stefna. En þá flokka sem geta hugsað sér samstarf við B og D má bara ekki ekki kjósa núna. Það er bara þannig. Vonandi nær Björt framtíð áttum í vikunni. Af þessu öllu er meira að segja Samfylkingin betri kostur en D og B, þrátt fyrir stjórnarskrársvik og áðurnefnda glígju í augum fyrir frjálshyggjuhugmyndum. Þau gerðu samt sitt besta við ömurlegar aðstæður. Tóku til eftir B og D. Og gerðu jafnvel kraftaverk þó þau hafi ekki kunnað að skýra þau vel fyrir okkur hinum. Raunverulega vildi ég að ég gæti kosið þau, eða réttara sagt að Samfylkingin hefði staðið við upphaflega hugmynd um sjálfa sig; Jöfnuð og sanngirni.
En örugga leiðin — eina örugga leiðin — til að tryggja að hér verði ekki áfram skítadíllinn sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa boðið okkur upp á í rúma hálfa öld er að kjósa Pírata eða Vinstri græn … eða hverja þá sem sannarlega stefna að jöfnuði og sanngirni og leggja allt undir fyrir það.
Og kæri listamaður, höfundur, skapari; Píratar vilja ekki leggja höfundarrétt af. Þau vilja bara ekki að stórfyrirtæki og lögfræðingar eignist hann allan. Og þau vilja að tímalengdin sem hann varir sé samræmd í heiminum (50 ár eftir dauða höfundar). Lestu betur stefnuna þeirra. Ég er höfundur verka. Ég kýs Pírata. Í þetta sinn. Og hef engar áhyggjur af því að þá hverfi lifibrauð mitt. Þvert á móti. Þau horfa til framtíðarlausna og eru mörg höfundar líka. Við erum á sama báti.
Ég er viss um að í Pírataflokknum eru rembur, fífl og frekjur eins og í öllum flokkum, en í miklum minnihluta. Þau ein hafa lofað að sitja ekki út kjörtímabilið heldur koma okkar stjórnarskrá í gildi, stjórnarskránni sem við mörg skrifuðum og greiddum flest öll atkvæði. Skýrt og skorinort. Þau efna til sameinaðs átaks um þessa nýju réttlátu, en jú, ófullkomnu stjórnarskrá sem umfram annað vekur von og bjartsýni við lestur og umhugsun. Og þegar hún tekur gildi, þá verðum við ekki valdalaus arðrænd grey lengur. Þá verður hér aftur komið á lýðræði sem tekur því að taka þátt í. Ég get ekki lengur hugsað mér þátttöku í samfélagi stýrðu af fólki sem er rúið trausti. Getur þú það?
Gerðu það: Kjóstu! Kjóstu hvað sem er nema B og D og þá sem þú veist að vilja vinna með þeim í von um bita.
Dalli og Halli, ég er líka að tala við ykkur sem líklega ætlið ekki að kjósa — og allt hitt unga fólkið. En ekki síst þig sem hefur alltaf kosið B eða D. Sérstaklega þig. Þú verður að hugsa þig um núna, þú sem ert ekki einkavinur, heldur vanafastur og trúr gömlum málstað um frelsi og val. Á meðan flokksgæðingarnir í B og D græða er allt virði að hverfa.
En ég ætla sem sagt að kjósa Pírata, setja X við P. Eins og þú sérð er ég hundleið á hugtökunum hægri og vinstri. Allavega, kjóstu bara hvað sem er annað en B og D. Þá líður mér betur, Kára líður betur, þér líður betur. Og þá getum við öll gert betur. Saman.
Með ást, virðingu og von í hjarta.
Athugasemdir