Það er engin Martin Luther King, enginn Mahatma Ghandi, enginn móðir Teresa, enginn Nelson Mandela eða John Lennon. Það er þetta sem er vandamálið í dag.
Fréttatímar eru fullir af sundursprengdum húsum, líkum, flóttamönnum, eymd, volæði og ömurleika. Það er enginn að tala fyrir friði í heiminum í dag, það vantar sterka rödd eða raddir sem setja frið á dagskránna.
Sem einstaklingur fæddur í miðju köldu stríði milli stórveldanna, þá man ég nokkurn veginn eftir þeirri friðarhreyfingu sem var mjög öflug í því að hvetja til afvopnunar og friðsamlegrar sambúðar risaveldanna.
Með hruni Sovétríkjanna árið 1991 breyttist síðan heimsmyndin og síðan aftur 2001, með árásinni á Tvíburaturnana í New York. Þessir tveir atburðir ásamt hinu svokallaða arabíska vori í Mið-Austurlöndum, liggja ef til vill til grundvallar þeirrar ókyrrðar sem nú ríkir í alþjóðakerfinu. Innlimun Rússa á Krímskaga á síðasta ári hefur svo síðan bætt gráu ofan á svart og valdið mikilli spennu á milli Vesturveldanna og Rússa. Hún hefur ekki verið meiri síðan á dögum Kúbudeilunnar árið 1962.
Í lagi sínu, Imagine, söng John Lennon um heim þar sem ekkert til ,,drepa fyrir“ væri til, engin græðgi, ekkert hungur (,,no need for greed or hunger“), og engin trúarbrögð sem skipta okkur upp í flokka og eru oftar en ekki sterkur þáttur átaka. Þetta birtist okkur til dæmis núna í illdeilum og bræðravígum á milli súnníta og sjíta í Írak og nágrenni.
Lennon sá fyrir sér bræðralag manna á jörðinni. Hann, eins og bæði Ghandi og King féll fyrir byssukúlu. Það virðast vera örlög margra einstaklinga sem hafa frið á stefnuskrá sinni, að falla fyrir ofbeldismönnum. Í þessu sambandi má einnig nefna Ytsjak Rabin, fyrrum forsætisráðherra Ísraels, sem var stunginn til bana í kjölfar friðarviðræðna við Palestínumenn (Oslóarsamningarnir), sem og Anwar Sadat, forseta Egyptalands, sem var drepinn af öfgamönnum úr eigin röðum. Morðið á honum var bein ,,borgun“ fyrir að hafa staðið að sögulegu friðarsamkomulagi (Camp-David-samningarnir) við Ísraelsmenn seint sjöunda áratug síðustu aldar.
Af þessu má ef til vill draga þá ályktun að það sé hreinlega lífshættulegt að berjast fyrir friði. Og að öfl tortímingar og vonsku sé ,,hinu góða“ yfirsterkara. En við megum ekki hugsa þannig. Við verðum að trúa á hið góða í manneskjunni sem afl til þess að lægja þær öldur ofbeldis og fjandskapar sem einkennir heimsmálin í dag.
Um þessar mundir er mikil þörf á hinu góða og það á flest öllum sviðum mannlífsins og eiginlega út um allan heima, já, hreint og beint pólanna á milli. Staðan er bara þannig.
Athugasemdir