Undanfarna daga hefur umræðan verið beitt í garð tiltekins einstaklings sem hlaut uppreist æru með ákvörðun innanríkisráðuneytisins laust fyrir síðustu áramót.
Forsaga málsins er sú að hlutaðeigandi, sem er lögfræðingur að mennt, var í maí 2001 dæmdur fyrir manndráp af ásetningi. Refsing hans var ákveðin 16 ára fangelsisvist, auk þess sem hann var með dóminum sviptur lögmannsréttindum. Hinn dæmdi afplánaði rúmlega 10 ára fangelsisrefsingu, en hlaut reynslulausn árið 2010. Þá reynslulausn hélt dæmdi og hefur því setið af sér sinn dóm lögum samkvæmt.
Ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að veita hinum dæmda uppreist æru hefur meðal annars í för með sér að hann hefur nú óflekkað mannorð. Mikillar reiði hefur orðið vart í samfélaginu vegna þessa. Í sömu andrá hefur verið vísað til þess að hinn dæmdi sækist nú eftir að fá lögmannsréttindi sín útgefin að nýju og réttmæti þess jafnvel dregið í efa.
En beinist reiði almennings vegna þessa máls í rétta átt?
Óflekkað mannorð
„Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar,“ greinir í 1. mgr. 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þetta er nærtækasta skilgreiningin í lögum á hugtakinu „óflekkað mannorð“.
Það hvenær verk telst „svívirðilegt að almenningsáliti“ í framangreidum skilningi hljómar nokkuð matskennt í fyrstu. Hins vegar sker 2. mgr. sama lagaákvæðis úr um skilyrði þess að dómur um refsinæman verknað hafi í för með sér flekkun á mannorði. Refsidómur hafi þannig í för með sér flekkun á mannorði hafi sakborningur verið orðinn 18 ára gamall á verknaðarstundu, auk þess að hafa verið dæmdur að lágmarki til 4 mánaða fangelsisvistar eða til öryggisgæslu.
Hvernig hlýtur maður uppreist æru?
Skilyrði þess að hljóta uppreist æru, eftir að hafa hlotið dóm sem hefur í för með sér flekkun mannorðs samkvæmt framangreindu, er að finna í almennum hegningarlögum. Lögin gera ráð fyrir tvenns konar leiðum til þess.
Annars vegar hlýtur einstaklingur sjálfkrafa uppreist æru hafi hann verið dæmdur til fangelsisvistar allt að einu ári, sbr. 84. gr. almennra hegningarlaga. Nánar tiltekið að liðnum fimm árum frá því að afplánun refsingar lýkur, refsing fyrnist eða er gefin upp. Viðkomandi má þó ekki hafa „sætt ákæru fyrir brot, sem þyngri hegning liggur við en sektir“ á sama tímabili. Þetta er nokkuð skýrt og engin matskennd skilyrði búa að baki slíkri sjálfkrafa uppreist æru.
Hins vegar, í þeim tilvikum er einstaklingur hefur verið dæmdur til fangelsisvistar í lengri tíma en eitt ár, þarf viðkomandi að sækja sérstaklega um að fá uppreist æru, sbr. 85. gr. almennra hegningarlaga. Það getur hann að meginreglu fyrst gert að 5 árum liðnum frá því að afplánun refsingar lýkur, refsing fyrnist eða er gefin upp. Skilyrði að baki því að slík umsókn sé samþykkt eru þau að umsækjandi færi „sönnur, sem gildar séu metnar, á það, að hegðun hans hafi verið góð umræddan tíma“. Af orðalagi ákvæðisins að dæma virðist nokkuð óljóst hvernig umsækjandi færir gildar sönnur fyrir því að „hegðun hans hafi verið góð“.
„Virðist nokkuð óljóst hvernig umsækjandi færir gildar sönnur fyrir því að „hegðun hans hafi verið góð“.“
Ákvörðun um að veita uppreist æru
Innanríkisráðuneytið tekur ákvörðun um hvort uppreist æru skuli veitt samkvæmt framkominni umsókn. Engin birt reglugerð eða opinberar reglur aðrar eru fyrir hendi sem útfæra nánar hvernig umsækjandi færir sönnur fyrir „góðri hegðun“ í framangreindum skilningi eða hvaða mælikvarða skuli leggja á þá sönnunarfærslu.
Á vef innanríkisráðuneytisins er hins vegar að finna leiðbeiningar um það hvernig sækja megi um uppreist æru. Kemur þar fram að beiðni skuli vera skrifleg og innihalda upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang umsækjanda. Beiðninni skuli svo fylgja „vottorð um góða hegðun […] frá tveimur valinkunnum einstaklingum, t.d. frá vinnuveitanda“. Þessar leiðbeiningar innanríkisráðuneytisins eru ófullnægjandi að mínu mati. Ástæða þess er sú að þær vekja í raun enn frekari óvissu um það hvernig unnt er að meta sönnun um góða hegðun umsækjanda um uppreist æru.
Í fyrsta lagi um það hver geti talist „valinkunnur einstaklingur“ að mati innanríkisráðuneytisins. Hvernig það mat innanríkisráðuneytisins fer fram er óljóst. Þó virðist af leiðbeiningum ráðuneytisins að dæma að atvinnurekendur og einstaklingar með mannaforráð komi líklega til greina.
Í öðru lagi um það hverjir geti komið til greina sem umsagnaraðilar umsækjanda um uppreist æru. Gera verður ráð fyrir því að aðeins einstaklingar sem þekkja umsækjanda persónulega komi til greina. Þeir hljóti jafnframt að þurfa að vera umsækjanda vinveittir til að treysta sér til að rita vottorð um góða hegðun hans.
Í þriðja lagi hvort það teljist þá sjálfgefið að hinir „valinkunnu einstaklingar“ séu meðvitaðir um það hvaða mælikvarða skuli leggja á hegðun umsækjanda um uppreist æru. Sá mælikvarði hlýtur í besta falli að vera afar matskenndur. Um leið leyfi ég mér að draga í efa að kunningjavottorð geti talist hlutlaus.
Í fjórða lagi virðist að sama skapi óljóst hvernig innanríkisráðuneytið leggur mat á sannleiksgildi vottorða hinna tveggja valinkunnu manna.
Vandmeðfarin ólíkindatól?
Í tölfræði sem stafar frá innanríkisráðuneytinu kemur fram að á árunum 1995-2012 hafi 57 einstaklingar sótt um uppreist æru. Þar af hafi 31 einum verið hafnað, án þess að ljóst sé hvaða forsendur bjuggu að baki þeim ákvörðunum. Ætli þeir umsækjendur hafi ekki átt valinkunna vini að mati innanríkisráðuneytisins? Eða lögðu þeir hugsanlega rangan mælikvarða á það hvað gæti talist góð hegðun umsækjanda að mati ráðuneytisins?
Ákvörðun um það hvort veita skuli uppreist æru er matskennd stjórnvaldsákvörðun. Þess er krafist að matskenndar stjórnvaldsákvarðanir séu lögmætar og byggi á málefnanlegu mati stjórnvalds. Núgildandi regluverk er hins vegar ófullnægjandi þar sem það tilgreinir ekki hvaða sjónarmið teljast málefnanleg og megi þannig leggja til grundvallar við mat á því hvort rétt sé að samþykkja eða synja umsókn um uppreist æru.
Við hljótum því að spyrja okkur að því hvort ekki sé nauðsynlegt að huga að því til framtíðar litið að endurskoða gildandi regluverk um uppreist æru. Ekki aðeins í því skyni að samræma það nútímakröfum um gegnsæi, skýrleika og formfestu innan stjórnsýslunnar. Heldur einnig í því skyni að skapa meiri sátt í samfélaginu í þeim tilvikum er uppreist æru skal veitt.
Ekki beina reiði ykkar að leikmanni sem fer að settum reglum. Beinið reiðinni fremur að leikreglunum og krefjist úrbóta.
Athugasemdir