Umburðarlyndi og náungakærleika verður ekki þröngvað upp á okkur mennina. Þessir kostir kunna að vera meðfæddir, en ef ekki er að öllum líkindum hægt að temja sér þá, ef viljinn er á annað borð fyrir hendi. Þeir sem eftir sitja eiga að sjálfsögðu sinn óskilyrta tilvistarrétt, en viljum við endilega að þeim sé frjálst að dreifa mykjunni án nokkurra takmarka?
Með dómi Hæstaréttar þann 11. febrúar 2016 var komist að þeirri niðurstöðu að uppsögn Snorra Óskarssonar, sem oft er kenndur við söfnuðinn Betel, úr starfi sem grunnskólakennari á Akureyri sumarið 2012 hafi verið ólögmæt. Uppsögnin var gerð með vísan til „meiðandi“ ummæla Snorra um samkynhneigða og transfólk á bloggsíðu sem hann heldur úti. Ummælin sem voru látin falla opinberlega, en utan starfs Snorra, þóttu ósamrýmanleg stöðu hans sem grunnskólakennara.
Óháð niðurstöðu Hæstaréttar um lögmæti uppsagnarinnar sem slíkrar, þá vakti það athygli mína að í forsendum dómsins virðist gefið til kynna að tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár nái til eftirfarandi ummæla:
- Um samkynhneigð: „samkynhneigðin telst vera synd“, en laun syndarinnar væru „dauði og því grafalvarleg.“
- Um samkynhneigð: „Gildum er hægt að breyta!“ […] eftir orðum Biblíunnar væri líkami manns „ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottinn“, […] hjónabandið væri heilagt „því Guð út bjó það þar sem karl og kona ganga saman gegnum lífið“, en ekki „tveir karlar saman og ekki tvær konur saman heldur karl og kona.“
- Um kynleiðréttingu: „Leiðrétting?“ […] nú hafi „orðið leiðrétting fengið alveg nýja merkingu“ með því að þegar drengur, sem fæddist drengur, gengist undir „kynskiptiaðgerð“ væri það nefnt leiðrétting. Hér væri um að ræða „merkingarbrengl“, því þetta væri „kynbreyting en ekki leiðrétting.“ Hafi Guð gert karl og konu, sem skyldu bindast, stofna heimili og verða einn maður, en ef það ætti að „gera karl að konu og/eða konu að karli þá er um að ræða breytingu eða afbökun en ekki leiðréttingu.“ Frá kristnu sjónarmiði skyldi sá, sem skapaður væri karlmaður, vera það til æviloka og væri það sama að segja um konuna, sem væri „fædd kvenvera til að vera slík til æviloka.“
Burtséð frá starfsskyldum Snorra í Betel sem kennara, þá velti ég vöngum yfir því hvort honum hafi yfir höfuð verið heimilt að tjá sig með þessum hætti á veraldarvefnum. Ég er að minnsta kosti ekki sannfærð um það.
Tjáningarfrelsið er vissulega á meðal elstu og mikilvægustu réttinda borgaranna. Það stuðlar að upplýstu samfélagi sem veitir nægt svigrúm til að koma á framfæri fræðslu og ólíkum skoðunum. Tjáningarfrelsið er hins vegar ekki óheft og má ekki ná svo langt að það eyðileggi þann grunn sem það byggir á, sem er lýðræðið sjálft.
Öllum er frjálst að hafa sínar hugsanir og sannfæringu, sá réttur sætir að sjálfsögðu engum takmörkunum. Tjáning þeirra hugsana og sannfæringar kann hins vegar að fylgja ábyrgð vegna réttinda annarra einstaklinga eða hagsmuna samfélagsins í heild sinni. Tjáningarfrelsi má því setja skorður til að vernda slíka hagsmuni, en mæla verður fyrir um slíkar takmarkanir í lögum.
Orð eru líklegast fyrst til þess að breyta viðhorfum samfélags. Hatursáróður í garð minnihlutahópa er því til þess fallinn að grafa undan samstöðu í íslensku samfélagi og hvetur jafnvel til ofsókna. Slík tjáning er jafnframt andstæð grundvallarreglum um jafnræði allra samfélagsþegna óháð stöðu.
Með það í huga bendi ég á að löggjafinn hefur metið það sem svo að nauðsynlegt sé að sporna gegn tjáningu sem styður eða hvetur til haturs í garð minnihlutahópa. Í því skyni hefur löggjafinn mælt fyrir um að opinber dreifing á háði, rógi, smánun eða ógnun í garð tiltekinna minnihlutahópa, þar á meðal samkynhneigðra og transfólks, skuli varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Tjáning sem fellur að þessari skilgreiningu telst refsiverð og er um leið undanskilin stjórnarskrárvernd tjáningarfrelsisins.
Virðist af þessu augljóst að tjáningarfrelsi megi ekki hagnýta til þess að níðast á réttindum minnihlutahópa á borð við hinsegin fólk. Með hliðsjón af framangreindu er mín skoðun sú að ríkir almannahagsmunir mæli með því að takmarka slíka tjáningu. Þeir hagsmunir vegi að sama skapi þyngra en hagsmunir einstakra manna af því að fá að njóta ótakmarkaðs tjáningarfrelsis, til að mynda í skjóli trúarsannfæringar sinnar.
Dæmi nú hver fyrir sig.
Uppfært 26. febrúar kl. 15:00:
Í fyrstu útgáfu pistilsins kom fram að Snorra Óskarsyni hafi verið dæmdar bætur í Hæstarétti. Það er ekki rétt og hefur verið leiðrétt. Hið rétta er að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að uppsögnin var ólögmæt.
Athugasemdir