Ég hef ekki ennþá séð neinn sýna fram á það að konum sé mismunað á grundvelli kynferðis við úthlutanir úr Kvikmyndasjóði Íslands. Raunar finnst mér það afar ólíklegt og þyrfti þá að sýna fram á að þeir sem veita styrkina fyrir hönd Kvikmyndasjóðs vinni ófaglega og hafi mismunað kvenkynsleikstjórum, handritshöfundum og framleiðendum með einhverjum hætti. Ef þetta hefði verið raunin þá væri fyrsta skrefið að skipta út því fólki sem mismunar umsækjendum á grundvelli kynferðis - ekkert bendir hins vegar til þess. 625 milljónum króna var úthlutað úr Kvikmyndasjóði í fyrra.
Talsverð umræða hefur verið um þau ummæli Baltasars Kormáks að beita þurfi jákvæðri mismunun og setja kynjakvóta á úthlutanir frá Kvikmyndasjóði til að auka hlut kvenna í kvikmyndagerð á Íslandi. Baltasar Kormákur talaði um að auka framlög til kvikmyndagerðar tímabundið og að öll hækkunin færi í sérstakan pott sem aðeins kvenleikstjórar geta sótt um. „Ef fyrirtækin vita að það er hægt að sækja í þennan sérstaka kvennasjóð verður farið í það að finna þetta efni eftir konur, þróa það og vinna.“ Aðstandendur kvikmyndahátíðarinnar RIFF hafa boðað til sérstaks umræðufundar um efnið í næstu viku.
Í aðsendri grein á vísi.is í vikunni þar sem greinarhöfundur fjallaði um ummæli Baltasar Kormáks sagði að það „hallaði“ á konur i kvikmyndagerð: „Umræðan um kynjakvóta skýtur reglulega upp kollinum, nú síðast innan kvikmyndabransans þar sem hallar verulega á konur.“ Hvað þýðir annars að „halla á“ konur í þessu samhengi? Ég skil það svo sem að konur innan kvikmyndabransans séu órétti beittar að mati greinarhöfundar frekar en að hún sé að segja að of fár konur stundi kvikmyndagerð af einhverjum ástæðum. Hvaðan stafar þetta óréttlæti sem hún virðist vera að tala um?
Hlutfall kvenleikstjóra og kvenkyns styrkþega svipað
Þegar litið er á úthlutanir Kvikmyndasjóðs 2015 fyrir leiknar kvikmyndir þá eru konur handritshöfundar í níu af 31 verkefni sem fékk úthlutað styrk - stundum er fleiri ein kona skráð fyrir verkefninu og einu sinni er það kona og karlmaður - og yfirleitt voru leikstjórarnir þeir sömu og handritshöfundarnir.
Leiknar bíómyndir tilheyra þeim flokki kvikmyndaverka þar sem yfirleitt er talað um að kynjahallinn sé mestur. Þegar ég les yfir listann fæ ég það ekki á tilfinninguna að hann sé ranglátur af því hann mismuni umækjendum á grundvelli kynferðis. Mér finnst miklu líklegra að það fólk sem velur styrkþegana hafi gert það eftir bestu vitund og að þetta sé einfaldlega niðurstaðan af þeirri vinnu.
Þegar styrkveitingar úr Kvikmyndasjóði árið 2014 eru skoðaðar er hlutfallið svipað og árið 2015, í 14 af 45 verkefnum af styrkþegunum í leiknu efni voru handritshöfundarnir konur og yfirleitt voru sömu leikstjórar.
Þessar tölur sýna að um þriðjungur styrkjanna úr Kvikmyndasjóði í flokknum leiknar kvikmyndir fóru til kvenna á árunum 2014 og 2015.
Þegar litið er á hlutfallið á milli umsókna karla og kvenna um styrki og svo hlutfall veittra styrkja kemur sömuleiðis fram að hlutfallið er hærra hjá konum. Á árunum 2013 og 2014 voru 75 prósent umsókna um framleiðslustyrki frá konum samþykktar af Kvikmyndasjóði Íslands á meðan 57 prósent umsókna frá karlkyns kvikmyndagerðarmönnum voru samþykktar. Þá fengu 65 prósent kvenkyns umsækjenda hanritsstyrki á sama tímabili og 58 prósent karlmanna.
77 prósent karlar
Er hlutfall karlkyns styrkþega sem fékk styrki kannski rúmlega tvöfalt hærra vegna þess að það eru miklu fleiri karlkyns kvikmyndargerðarmenn á Íslandi?Já, það er sannarlega þannig að það eru miklu fleiri karlkyns kvikmyndagerðarmenn á Íslandi: 77 prósent eru karlar og 23 prósent eru konur.
Af þessu sést, að minnsta kosti út frá tölunum um kvenkynsstyrkþega Kvikmyndasjóðs á árunum 2014 og 2015, að hlutfall kvenna í kvikmyndagerð á Íslandi og hlutverk kvenkyns styrkþega úr Kvikmyndasjóði er nokkurn veginn það sama. Konur eru 23 prósent af kvikmyndargerðarmönnum og kvenkyns handritshöfundar og leikstjórar fá nokkurn veginn þann hluta af styrkjunum úr Kvikmyndasjóði í flokknum leiknar kvikmyndir. Þetta hlutfall virðist vera eðlilegt þegar litið er til þess hvað konur eru í miklum minnihluta í hópi kvikmyndargerðarmanna.
Ef staðan væri hins vegar sú að hlutfall karla og kvenna í stétt kvikmyndargerðarmanna væri 50/50 og að karkyns kvikmyndaleikstjórar fengju 2/3 eða 3/4 hluta af styrkjunum þá væri sannarlega eitthvað mikið að og komin væru líkleg sönnunargögn fyrir mismunun á grundvelli kynferðis. Þetta er hins vegar ekki svona.
Eiga kvenkyns leikstjórar að fá 50 prósent af fénu
Sá sem vill nota kynjakvóta og jákvæða mismunun til að jafna hlut kvenkyns styrkþega úr Kvikmyndasjóði - þetta er að sjálfsögðu önnur hugmynd en Baltasar er að stinga upp á - þannig að konur fái til 50 dæmis prósent allra styrkja í flokknum leiknar kvikmyndir þarf þá að færa rök fyrir því að það sé réttlætanlegt að 23 prósent einstaklinga úr hópi fái 50 prósent af því fjármagni sem hópurinn fær á grundvelli þess að viðkomandi eru konur.
Þessi skoðun byggir þá á því að kynferði leikstjórans sé fyrsti þátturinn sem horfa þurfi til þegar ákveðið er hvernig skipta eigi fjármagninu og að kynin eigi að fá jafn mikið af peningum óháð því hvernig hlutfallið er á milli þeirra í flokki kvikmyndargerðarmanna. Vel kann að vera að einhver sé á þessari skoðun en viðkomandi þarf þá að færa rök fyrir því af hverju slík hlutfallsleg miskipting er réttlátt.
Umræða um annað
Út frá ummælum Baltasars Kormáks virðist vera sem umræðan um það sem hann er að segja hafi ekki farið fram á réttum forsendum hingað til. Baltasar var að tala um að stofna sérstakan kvennasjóð sem karlkyns leikstjórar geta ekki sótt um í. Ef ég skil Baltasar rétt þá vill hann halda núverandi fyrirkomulagi við úthlutanir úr Kvikmyndasjóði þannig að allir, karlar og konur, geti sótt um úr þeim potti og að veitt verði úr honum sem fyrr. Ekki er verið að tala um kynjakvóta eða jákvæða mismunun úr þeim potti heldur að búinn verði til annars sérstakur sjóður sem aðeins konur geta sótt um úr en ekki karlar.
Með þessu er körlum ekki mismunað með þeim hætti að betri kvikmyndahugmyndir karlmanna verði hugsanlega undir gegn lakari kvikmyndaverkefnum kvenna, og líti kannski aldrei dagsins ljós, þar sem kvikmyndaverkefni karlkyns leikstjóra geta ekki sótt um peninga úr þessum sjóði. Þessi kvikmyndaverkefni karlmanna, ef þau eru nægilega góð, geta ennþá fengið fjármuni úr þeim peningapotti sem bæði karlar og konur geta sótt í.
Sjálf stofnun slíks sérstaks kvennasjóðs felur í sér jákvæða mismunun sem ætlað er að auka hlut konum í kvikmyndagerð á Íslandi. Úthlutunin úr þessum potti er hins vegar ekki jákvæð mismunun þar sem hún mismunar engum sem sækir um úr honum þar sem ætla má að bestu kvikmyndaverk kvennanna sem sóttu um verði valin. Þar af leiðandi getur úthlutun úr slíkum sjóði ekki verið „niðurlægjandi“ fyrir konur þar sem allar konur sem sækja um styrk úr slíkum sjóðum keppa um fjármagnið á sömu, jöfnu forsendunum.
Umræðan um ummæli Baltasars finnst mér því vera á ákveðnum villigötum því það sem hann segir felur hvorki í sér kynjakvóta né jákvæða mismunun í hefðbundnum skilningi þar sem kvikmyndaverk kvenna kunna að vera tekin fram yfir verk karlmanna á forsendum kynferðis. Í dæminu sem Baltasar teiknar upp er enginn kynjakvóti og það er engin jákvæð mismun, nema í þeim skilningi að taka á fjármagn og eyrnamerkja það sérstaklega konum í kvikmyndagerð til að fjölga kvikmyndaverkum eftir konur og hugsanlegum kvenkynshandritshöfundum- og kvenkynsleikstjórum.
Út frá tölunum um styrkveitingar úr Kvikmyndasjóði virðist stofnun slíks kvennasjóðs hins vegar vera óþörf þar sem tölurnar benda til að kvenkyns leikstjórar sitji við sama borð og karlkyns leikstjórar og hafi jafn möguleika á að fá styrki frá sjóðnum.
Er vilji til að fjölga kvenkynsleikstjórum?
Umræðan ætti því frekar að snúast um það hvort það sé réttlætanlegt að auknu fjármagni frá hinu opinberu sé varið sérstaklega í kvikmyndagerð kvenkyns leikstjóra til að fjölga þeim og kvikmyndaverkum eftir konur frekar en að nota hugtökin „kynjakvóti“ og „jákvæð mismunun“ þar sem þau geta bent til þess að kvenkyns kvikmyndagerðarmönnum hafi hingað til verið mismunað á grundvelli kynferðis af fjárveitingaraðilum og að beita þurfi jákvæðri mismunun til að leiðrétta þann kúrs. Svo vísað sé í aðsendu greinina í Vísi þá er kannski ekki rétt að segja að það „halli“ á konur í kvikmyndageiranum á Íslandi í þeim skilningi að þær hafi verið órétti beittar við fjárveitingar.
Fjöldi kvikmyndargerðarmanna og kynbundið óréttlæti
Hins vegar má segja að það halli á konur í kvikmyndagerð á Íslandi í þeim skilningi að kvenkyns leikstjórar eru aðeins fjórðungur af kvikmyndagerðarmönnum. Ég er hins vegar ekki á því að það felist einhvers konar samfélagslegt óréttlæti í þessari staðreynd þar sem ég er ekki viss um að hægt sé að segja að starf kvikmyndamannsins sé sérstaklega eftirsóknarvert eða að um sé að ræða takmörkuð gæði í samfélaginu sem útdeila beri jafnt á milli kynjanna. Starf kvikmyndargerðarmannsins er í flestum tilfellum mikið hark þar sem fjárhagsleg óvissa er yfirleitt mikil og tímakaupt lágt, líkt og gildir um mörg önnur skapandi starf, og frekar fáum tekst í raun að búa sér til feril og fjárhagslega stöðu til að sinna starfinu til lengdar.
Varla er því hægt að nota starf kvikmyndagerðarmannsins til að benda á kynbundið óréttlæti í samfélaginu, líkt og til dæmis er gert með störf lækna og lögfræðinga víða um heim. Ef 4/5 hlutar lækna og lögfræðinga á Íslandi væru karlar myndi það segja okkur að eitthvað mikið væri að í samfélaginu þar sem tækifæri kynjanna til menntunar væru ekki jöfn. Konur eru hins vegar nú til dæmis í meirihluta í læknastéttinni og segir það okkur umtalsvert meira um jöfn tækifæri kynjanna í íslensku samfélagi en kynjahallinn í kvikmyndagerðinni.
Ég veit ekki af hverju karlar mynda 3/4 stéttar kvikmyndagerðarmanna á Íslandi en ég held orsökin á því sé alls ekki kynbundið óréttlæti eða það að karlar og konur hafi ekki jöfn tækifæri til að verða kvikmyndagerðarmenn. Karlar og konur á Íslandi hafa jöfn tækifæri til að verða hvað sem er sem betur fer: smiðir, snyrtifræðingar, kvikmyndagerðarmenn, læknar, ljósmæður, gröfubílstjórar, hjúkrunarfræðingar, byggingarverkamenn og afgreiðslufólk á myndbandaleigu.
Hlutverk ríkisins?
Spurningin sem ætti að spyrja snýst því ekki um jákvæða mismunun og kynjakvóta heldur um það hvort íslenskt samfélag í heild sinni eigi að vinna að því að fjölga kvenkyns kvikmyndargerðarmönnum á Íslandi með einhverjum hætti. Þess konar kvennapottur sem Baltasar talar um ætti þá væntanlega líka að verða til þess að fleiri konur ættu að leggja fyrir sig kvikmyndagerð þar sem auðveldara væri fyrir konur í kvikmyndagerð að fá styrki.
Þessi vinna samfélagsins þyrfti þá að hefjast miklu fyrr; um það leyti þegar fólk er að ákveða hvað það vill gera í lífinu, hvernig það vill mennta sig og hvað það vill vinna við þannig að fleiri konur veldu að vera kvikmyndargerðarmenn. Ef þetta yrði gert þá myndi hlutfall kvenkyns styrkþega úr kvikmyndasjóði Íslands væntanlega líka aukast þar sem hlutfall kvenkynsstyrkþega úr Kvikmyndasjóði og kvenkyns leikstjóra er nokkurn veginn það sama.
Samhliða þá gæti farið fram umræða um það hvort og hvernig hið opinbera eigi að stuðla að jafnara kynjahlutfalli í hinum og þessum starfsstéttum þar sem annað kynið er í miklum meirihluta. Einhver kann að vera á þeirri skoðun að það sé hlutverk ríkisvaldsins að vinna slíka vinnu til að jafna kynjahlutföllin í hinum ýmsu starfsgreinum. Þetta er spurningin sem umræðan um ummæli Baltasars snýst um á endanum. Kvennasjóðurinn er bara tímabundið úrræði og ef fjöldi kvenna í stétt kvikmyndagerðarmanna eykst ekki þá verður áfram hlutfallslega ósamræmi í þeim styrkjum sem karlar og konur fá úr Kvikmyndasjóði Íslands. Á samfélagið að vinna próaktíft að því að fjölga kvenkyns kvikmyndagerðarmönnum eða er það ekki hlutverk þess og hvaða leiðir er hægt að nota til þess?
Hugmynd Baltasars, sem hugsuð er sem tímabundin leið til að bæta stöðu kvenna í kvikmyndagerð á Íslandi, myndi hins vegar ekki vera leið í átt að þessu langtímamarkmiði þar sem hún er aðeins hugsuð sem tímabundið úrræði. Hún fæli það í sér að þær konur sem eru kvikmyndagerðarmenn - 23 prósent af stéttinni - hefðu þá stærri sjóði að sækja um styrki í tímabundið sem gæti gert þeim kleift að búa til fleiri myndir en ella. Hvort þetta mun verða til þess að fleiri konur fari út í kvikmyndagerð sem lífsstarf og hækki þar af leiðandi hlutfall kvenkyns styrkþega úr Kvikmyndastjóði Íslands er hins vegar allsendis óvíst þó ég haldi persónulega að svo sé ekki.
Kynjakvóti og jákvæð mismunun er ekki þörf
Mér finnst umræðan um hugmynd Baltasars hafa sýnt ágætlega fram á það að „jákvæð mismunun“ og eða „kynjakvóti“ er ekki endilega rétta svarið þó hlutfall eins hóps í stærri hópi sé lágt. Miðað við fjölda kvenna í stétt kvikmyndargerðarmanna og fjölda styrkveitinga til þeirra þá njóta konur jafnréttis á við menn þegar kemur að styrkjum fyrir leiknar úr Kvikmyndasjóði. Sem betur fer er það raunin því annað væri afar gagnrýnivert.
Stundum þarf að grípa til jákvæðrar mismununar, þegar aðrar aðferðir til að minnka eða eyða samfélagslegu óréttlæti einfaldlega virka ekki. Til dæmis þegar einn ákveðinn samfélagshópur er í miklum minnihluta í ákveðinni starfsstétt sem krefst tiltekinnar menntunar. Þetta átti til að mynda við í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum þegar einungis um tvö prósent lækna þar í landi voru svartir þrátt fyrir að vera um 13 prósent af þeim sem bjuggu í landinu. Þá var í réttlætisskyni gripið til jákvæðrar mismununar við inntöku nemenda í læknisfræði í mörgum háskólum. Sú aðferð var réttlætanleg af því tala svartra nemenda í læknisfræði í Bandaríkjunum var óeðlilega lág og ranglát út af því sögulegu óréttlæti sem þeldökkir Bandaríkjamenn hafa verið beittir.
Tölurnar um kvenkyns kvikmyndagerðarmenn og styrkveitingar til þeirra á Íslandi árið 2015 segja hins vegar allt aðra sögu. Það er gott.
Athugasemd höfundar: Í fyrri útgáfu pistilsins stóð að ekki lægi fyrir kynjaskipting umsækjenda um styrki úr Kvikmyndasjóði Íslands. Höfundur vissi ekki betur en að þær upplýsingar væru ekki til. Eftir að pistlinn birtist var höfundi bent á að slíkar upplýsingar væru til og hefur þeim verið bætt við pistillinn.
Athugasemdir