Bjarni Benediktsson var bæði hissa, sár og ósáttur þegar hann tilkynnti forsetanum að hann hefði ákveðið að hætta viðræðum við Viðreisn og Bjarta framtíð, eftir að flokkarnir tveir höfðu viljað bjóða upp aflaheimildir á frjálsum markaði og nýta ágóðann til að fjármagna þjónustu við fólk sem þarf á henni að halda.
Bjarni lýsti því á Bessastöðum hvernig hann hefði reynt að tala við alla flokka en ekki fengið nægilega marga með sér til að mynda ríkisstjórn undir forsæti hans.
Hann taldi að með því að koma ekki til móts við Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur fengið 20 milljónir króna í styrki frá útgerðarmönnum á kjörtímabilinu, og fallast á að leyfa útgerðarmönnum að eiga áfram sameign þjóðarinnar, hafi Viðreisn og Björt framtíð sýnt af sér vítavert ábyrgðarleysi.
„Mér finnst þetta ekki flókið ... Mér finnst menn enn alltof fastir í skotgröfum og ekki tilbúnir að sýna þann sveigjanleika sem er nauðsynlegur til að rísa undir þeirri ábyrgð sem fylgir að sækjast eftir sætum á Alþingi og stofna stjórnmálaflokka og annað þess háttar.“
En þetta er ekki svona einfalt. Vald er ekki bara vald sem maður tekur bara af því að það er hægt.
Og ólíkt sjávarútvegsfyrirtækjum í núverandi kerfi er Sjálfstæðisflokkurinn ekki eigandi þess sameiginlega valds sem boðið er upp á fjögurra ára fresti. Það er því ekki sjálfgefið að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Þess fyrir utan eru margar góðar ástæður til að sleppa því einmitt að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, bæði út frá málefnum og trúverðugleika, eftir síðasta kjörtímabil.
Til að svara spurningunni sem brennur á Bjarna, hvers vegna flokkar hafa útilokað samstarf með honum, er kannski best að svara spurningunum sem Stundin sendi honum fyrir kosningarnar, en hann var eini flokksformaðurinn sem neitaði að svara spurningum Stundarinnar.
1. Ertu tilbúinn til að stuðla að því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið ef þú verður áfram í ríkisstjórn?
Svar fyrir Bjarna: Þú lofaðir því síðast og stóðst ekki við það. Líklega ekki hægt að gera það aftur.
2. Þótti þér Davíð Oddsson standa sig vel sem seðlabankastjóri?
Svar fyrir Bjarna: Já, líklega, í það minnsta lýstirðu því sem svo að Davíð hefði verið „hrakinn úr Seðlabankanum“ þegar þú hneykslaðist á því að hann hefði verið látinn hætta, á landsfundi Sjálfstæiðsflokksins eftir hrun, sem átti að snúast um uppgjör á mistökum Sjálfstæðisflokksins, en fór að snúast um allt annað.
3. Hvers vegna hefur þú ekki, á sama hátt og Sigmundur Davíð, þurft að bera ábyrgð á því að hafa bæði átt félag í aflandseyjum og sagt rangt til um það?
Svar fyrir Bjarna: Við þessu er ekkert einfalt svar, en kannski ertu að bera ábyrgð á því núna? Kannski eru Viðreisn og Björt framtíð einmitt að axla ábyrgð með því að fara varlega í samstarf með Sjáflstæðisflokknum.
4. Finnst þér í lagi að ráðherrar eigi eða hafi átt aflandsfélög?
Svar fyrir Bjarna: Já, þú hefur sjálfur átt aflandsfélag. En í ákveðnum skilningi ekki endilega, því þú varst ekki ráðherra á þeim tíma.
5. Aðilar tengdir þér fjölskylduböndum hafa á kjörtímabilinu hlotið ríkisstyrki og skattaívilnanir, þegar kemur að verksmiðju Thorsil, og fengið forgang að kaupum á hlut ríkisins í Borgun. Hefurðu engar áhyggjur af því að fjölskyldu- og hagsmunatengsl þín skapi vantraust?
Svar fyrir Bjarna: Já, en mín persónulegu völd, hagsmunir og staða eru mikilvægara en traust fólks á kerfinu.
6. Telur þú að ráðherra sem staðinn er að því að leyna hagsmunaárekstrum ætti að segja af sér?
Svar fyrir Bjarna: Ekki endilega. Ekki ef um mistök er að ræða, og það eru alltaf mistök.
7. Finnst þér að ríkisstjórnin eigi að virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu?
Svar fyrir Bjarna: Nei, ekki ef henni líst ekki á niðurstöðuna. Og þá skipta þjóðaratkvæðagreiðslur almennt engu máli.
Þegar Bjarni segist hafa mestan þingstyrk, 21 þingmann, sem ættu í reynd að vera 19 ef kosningaerfið væri jafnt, hefur hann sjálfur gefið tilefni til að spyrja hversu mikið þarf að sýna því virðingu að hann hafi fengið flest atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu, þegar hann virðir sjálfur ekki þjóðaratkvæðagreiðslur og loforð sín um þær.
Hér eru komin nokkur svör við því hvers vegna stjórnmálaflokkar hafa kosið að útiloka Sjálfstæðisflokkinn. Kannski hefði Bjarni geta svarað þessu sjálfur.
Athugasemdir