Í blogggrein hjá Stundinni sem nefnist „Að biðja yfir sig“ hvetur rithöfundurinn Snæbjörn Brynjarsson fólk til að biðja ekki fyrir Brussel vegna hryðjuverkanna sem þar voru framin. Þess í stað hvetur hann fólk til að hugsa hvernig hægt sé að gera heiminn betri, öruggari og fallegri því að aðeins rökhugsunin og samkenndin geti komið mönnum áfram. Hann telur bænir vera til marks um „ákveðna hugmyndafræðilega fátækt“ hjá „alþjóðlega þenkjandi vinstrimönnum“ og segir þær innantómar, gagnslitlar og ótengdar þeim „hluta heilans sem reynir að skilja“. Hann gengur jafnvel svo langt að halda því fram að bænir sundri fólki og áréttar það með vísun í texta lagsins Imagine eftir John Lennon sem hann túlkar sem andtrúarbragðalegan. Jafnframt heldur hann því fram að „sá þankagangur sem abrahamísk eingyðistrú byggir á“ sé „mein-skaðlegur“ og vísar til einhverra kristinna og íslamskra hugmynda sem snúist um það „hvernig blóðsúthellingar í miðausturlöndum leiði til einhvers konar gullaldar“. Alls óljóst er þó hvað hann á við þar.
Raunin er sú að bænir geta snúist um allt það sem Snæbjörn heldur því fram að þær geri ekki. Bæn er íhugun sem felst í því að hugsa um það sem viðkomandi liggur á hjarta og reyna að skilja það. Hún getur í senn verið samfélag við Guð, önnur máttarvöld eða hvað sem er og samtal þess sem biður við sjálfan sig. Sem slík getur hún falið í sér hagnýta og skipulagða rökræðu. Heilbrigð bæn snýst um samkennd með náunganum og ábyrgð á umheiminum. Meðal grunngilda kristinnar trúar er að elska náungann eins og sjálfan sig (Mt 22:39) og koma fram við hann eins og maður vill að komið sé fram við sig (Mt 7:12). Jesús Kristur gekk svo langt að segja: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.“ (Mt 5:44.)
„Heilbrigð bæn vekur samkennd og hjálpar fólki að átta sig á því hvað það á sameiginlegt með öðru fólki.“
Það hlýtur að vera sjálfsagt mál að þeir sem það vilja biðji fyrir öðrum og ekki síst þeim sem þjást og þurfa á hjálp. Heilbrigð bæn vekur samkennd og hjálpar fólki að átta sig á því hvað það á sameiginlegt með öðru fólki, hvaða uppruna og trúarhefð sem það kann að tilheyra. Hún getur opnað augu fólks fyrir því sem það getur gert í þágu annarra. Þar sem fleiri koma saman og biðja láta þeir samkennd sína í ljós og finna fyrir samstöðu.
Má vera að Snæbjörn hafi ruglað saman bæn og hugleiðslu sem snýst einmitt um það að kyrra hugann og tæma hann. En jafnvel hugleiðsla getur verið gagnleg fyrir ýmsa því að hún getur skerpt einbeitingu, gert þá meðvitaðri um einingu alls sem er og reynst þannig hvatning til að bregðast við vandamálum á skynsaman hátt.
Heilbrigðar bænir sundra ekki og ekki heldur hugleiðsla, Það gerir þvert á móti fjandskapur og óþol, meðal annars í formi andúðar á sjálfsagðri trúariðkun og trúarbrögðum. Þar er á ferðinni meinsemd í íslensku samfélagi sem að sönnu er orðið tímabært að ræða og uppræta.
Athugasemdir