Í febrúarmánuði árið 1930 heimsótti Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, Jónas Jónsson frá Hriflu dómsmálaráðherra þar sem hann lá veikur í flensu í húsi sínu við Sölvhólsgötu. Erindi læknisins var þó ekki að uppörva sjúklinginn og færa honum blóm eða konfekt heldur skýra honum frá þeim grun sínum að hann væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Hann kvaddi eftir það ráðherrann og hélt til síns heima.
Þessi stutta sjúkraheimsókn varð tilefni mikilla pólitískra deilna í landinu. Jónas skrifaði langa grein í Tímann um Helga sem hann nefndi Stóra bomban. Þar skýrði hann frá heimsókninni og sagði lækninn hafa gripið þéttingsfast um hendur eiginkonu sinnar og sagt henni umbúðalaust að hann væri geðveikur. Jónas gerði sér mikinn mat úr þessu máli sem hann notaði til að ráðast á læknastéttina og styrkja pólitíska stöðu sína. Helgi svaraði og sagði Jónas alls ekki vera andlega heilbrigðan og heiftarleg viðbrögð hans mætti rekja til þess. Málið vakti athygli langt út fyrir landsteinana og var um viðskipti ráðherrans og læknisins skrifað í mörg erlend blöð.
Helgi var nokkru síðar rekinn úr stöðu sinni á Kleppi og Jónas réði nýjan yfirlækni. Málið fékk farsælan endi fyrir bæði Helga og Jónas því að læknirinn var endurráðinn að spítalanum en ráðherrann vann einn sinn stærsta kosningasigur í kjölfar þessa máls.
Nú er þetta mál flestum gleymt nema örfáum sögufróðum geðlæknum. Í hruninu miðju árið 2008 hringdi blaðamaður til mín til að fá álit mitt á andlegu heilbrigði Davíðs Oddssonar þáverandi seðlabankastjóra. Ég sagðist reyndar telja að Davíð skólabróðir minn væri við andlega hestaheilsu en á hinn bóginn væru geðlæknar um það sammála að tjá sig aldrei framar um geðheilsu stjórnmálamanna. Enginn vildi endurtaka píslargöngu Helga Tómassonar.
„Í hruninu miðju árið 2008 hringdi blaðamaður til mín til að fá álit mitt á andlegu heilbrigði Davíðs Oddssonar þáverandi seðlabankastjóra.“
Þegar Helgi var beðinn að rökstyðja skoðanir sínar á Jónasi sagðist hann hafa ástæður til að efast um dómgreind dómsmálaráðherrans sem greinilega væri brengluð. Hann væri ekki í eðlilegum tengslum við raunveruleikann, sagði Helgi.
Í heimi geðlækninga er andlegt óheilbrigði oft skilgreint út frá veruleikatengslum einstaklingsins. Þegar vitundin er farin að einkennast af ranghugmyndum, ofskynjunum, röddum og alls konar ofsóknartilfinningum er líklegt að geðlæknar grafi fram sprautur sínar, pillur og alls konar greiningar. Þegar Helgi taldi Jónas kominn úr tengslum við veruleikann var komin ástæða til að fara í sjúkravitjunina frægu og reiða stóru sleggjuna (sem Jónas kallaði stóru bombuna) til höggs.
Þessi gamla saga um Helga Tómasson og Jónas kom mér í hug á dögunum þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var í útvarpsviðtali spurður um ástæðurnar fyrir óvinsældum ríkisstjórnar sinnar. Hann sagði án þess að blikna eða blána að rof væri á milli skynjunar og raunveruleika hjá allri þjóðinni. Fólk áttaði sig engan veginn á snilld stjórnarinnar vegna þessa rofs. Með öðrum orðum fullyrðir hann að þjóðin sé haldin geðveiki eða veruleikafirringu.
„Hann einn er heilbrigður í fjandsamlegum heimi þar sem fólk er búið að missa öll tengsl sín við veruleikann.“
Þetta er í raun öfug spegilmynd af Stóru-bombumálinu. Þá lýsti geðlæknir ráðherra geðveikan en nú lýsir ráðherra alla þjóð sína geðveika. Hann einn er heilbrigður í fjandsamlegum heimi þar sem fólk er búið að missa öll tengsl sín við veruleikann. Jónas taldi að Helgi vildi leggja sig inn á Klepp en Sigmundur Davíð vill greinilega leggja alla þjóðina inn á einhverja stofnun en hann sitji einn utan múranna yfirkominn af andlegu heilbrigði. Helgi taldi Jónas ekki færan um að stjórna landinu en Sigmundur Davíð telur þjóðina ekki færa um að taka ákvarðanir og meta ástandið sakir þessarar veruleikafirringar.
Það er kannski tímanna tákn að ummæli Helga um Hriflu-Jónas höfðu gífurleg áhrif á alla pólitíska umræðu í landinu. Jónas móðgaðist mjög að vera álitinn geðveikur en orð Sigmundar hafa eiginlega ekki vakið neina teljandi athygli. Enginn virðist kippa sér upp við það að forsætisráðherrann telji hann geðveikan.
Helgi lýsti einkennum Jónasar í greinum sínum en minntist hvergi á það að Jónas væri svo illa haldinn að hann teldi sig einan andlega heilbrigðan innan um tóma veruleikafirrta bjána. Sakir arfleifðar Helga mega geðlæknar ekki efast um geðheilsu stjórnmálamanna. Það er eins gott á þessum einkennilegu tímum en auðvitað mundi það ekki skipta forsætisráðherrann neinu máli. Í heimi þar sem allir eru geðveikir nema ráðherrann einn eru geðlæknar jafn geðveikir og allir hinir og því ómarktækir.
Athugasemdir