Samkvæmt þjóðskrá hafði hann heitið Vilhjálmur en núna hét hún Soffía. Hún var hávaxin, falleg, með sítt skolleit hár, klædd í bol og blússu og gallabuxur. „Mér hefur alltaf fundist ég vera í vitlausum líkama,“ sagði Soffía og brosti feimnislega. „Ég átti aldrei heima í strákahópnum heldur vissi ég alltaf að ég var stelpa. Kynþroskinn var versta tímabil ævi minnar. Skyndilega skildu leiðir. Hinar stelpurnar þroskuðust í eina átt en ég í allt aðra svo að munurinn á mér og þeim varð yfirþyrmandi. Ég var allt í einu orðin dimmrödduð með stór og ógeðsleg líffæri milli fótanna sem stundum virtust lifa eigin lífi. Hinar stelpurnar fengu brjóst og mjaðmir en ég breyttist í hengilmænulegan strák með bólur og ljótt hár.“ Hún leit útum gluggann og hélt svo áfram. „Þetta var eins og að vera fangi eiginn líkama. Ég vissi að ég var stelpa en allir komu fram við mig eins og strák sem kannski var eðlilegt. Ég reyndi að afneita þessum tilfinningum, fór í líkamsrækt og svaf hjá stelpum og strákum. Ég prófaði að vera hommi og svo gagnkynhneigð aftur en alltaf vissi ég innst inni að þetta var einn stór blekkingarleikur.“ Smám saman áttaði Soffía sig á því að hún var transgender eða transsexúel og þessar tilfinningar hennar voru fullkomlega eðlilegar. Ekki var venjulegt samræmi á milli kynferðis og kynvitundar sem veldur mikilli vanlíðan og sálarangist.
„Ég vissi að ég var stelpa en allir komu fram við mig eins og strák sem kannski var eðlilegt.“
Þetta ástand hefur þekkst um aldir en þýskir læknar skrifuðu fyrst um það í lok 19. aldar. Þeir sögðu frá körlum og konum sem teldu sig vera í vitlausum líkama og gætu á engan hátt samsamað sig með eigin kyni enda tilheyrðu þau því á engan hátt andlega.
Eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari var farið að leiðrétta kyn þessara einstaklinga með hormónum og aðgerðum. Fyrsta aðgerðin var gerð á Íslandi skömmu fyrir aldamótin 2000 en áður höfðu einhverjir Íslendingar farið til Norðurlandanna til að fá viðhlítandi meðferð sem ekki stóð til boða á Íslandi.
Soffía fór í ferli fyrir transgender einstaklinga í umsjá lækna, sálfræðinga og talmeinafræðings. Hún fór að lifa sem kona undir kvenmannsnafni og sagði að sér liði mikið betur en áður. Eftir tæpt ár fékk hún langþráða hormónameðferð og hálfu ári síðar var nafni hennar breytt í þjóðskrá og hún gat loksins sýnt skilríki með réttu nafni og kyni. Þegar liðlega tvö ár voru liðin frá því að Soffía leitaði fyrst til teymisins lagðist hún inn til kynleiðréttandi aðgerðar. Ferlinu er þar með lokið en hún þarf að taka inn kvenkynshormóna allt sitt líf.
Þegar farið var að sinna þessum einstaklingum hérlendis fyrir tæpum 20 árum var gert ráð fyrir því að tveir nýir kæmu fram á ári samkvæmt alþjóðlegum tíðnitölum. Þetta gekk eftir fyrstu árin en á allra síðustu tímum hefur fjöldi transgender fólks aukist mikið bæði hérlendis og annars staðar. Eftir því sem transfólk hefur orðið meira áberandi í samfélaginu og fordómar hafa minnkað koma æ fleiri fram og leita aðstoðar. Netið hefur sömuleiðis leitt til þess að allir hafa ótakmarkað aðgengi að upplýsingum um transgender.
Börnum og unglingum sem telja sig í vitlausum líkama hefur fjölgað stórlega á síðustu árum en áður var talið að transgender væri einungis að finna hjá fullorðnum.
Ég var nýlega á þingi um þessi mál úti í Belgíu þar sem menn ræddu mikið þessa aukningu sem hefur komið öllum í opna skjöldu. Áður fyrr var mun algengara að karlar leituðu sér aðstoðar en nú hefur þetta kynjahlutfall víðast hvar jafnast út og jafnmargar konur og karlar vilja fá leiðréttingu á kyni sínu. Börnum og unglingum sem telja sig í vitlausum líkama hefur fjölgað stórlega á síðustu árum en áður var talið að transgender væri einungis að finna hjá fullorðnum. Í vissum tilvikum hefur verið ákveðið að gefa þessum einstaklingum efni sem hemja kynþroskann svo að þeim gangi betur að aðlaga líkama sinn gagnstæðu kyni.
Enginn veit ennþá af hverju sumir fæðast inn í vitlausan líkama. Sennilega er um líffræðilegar ástæður að ræða þar sem hormónar og áhrif þeirra á heilann á fósturstigi í móðurkviði leika stórt hlutverk.
Transgender er flókið ástand sem alltaf vekur mikla athygli og umræðu. Sýnist sitt hverjum og margir hafa orðið til að fordæma þessa einstaklinga og þá miklu áherslu sem heilbrigðiskerfið hefur lagt á aðstoð við þá. Ég hef unnið með þennan málaflokk frá upphafi hérlendis og haft með tæplega 60 manns að gera. Liðlega 20 hafa farið í aðgerð hér á landi. Ennþá hefur enginn séð eftir því að hafa leiðrétt kyn sitt eða beðið um að fá að fara til baka. Þetta eru einhverjir þakklátustu einstaklingar sem ég hef með að gera. Þeim finnst þeir hafa fengið nýtt og betra líf eða kannski fyrst og fremst eðlilegt líf. Það hefur haldið mér í þessum málaflokki í öll þessi ár.
Athugasemdir