Í verkum Halldórs Laxness má finna nokkur sjálfsvíg. Í Sölku Völku fyrirfer Sigurlína í Mararbúð, móðir aðalsöguhetjunnar, sér. Hún drekkir sér þegar ekkert verður af brúðkaupi hennar og Steinþórs Steinssonar. Sigurlínu er lýst sem bugaðri og slitinni alþýðukonu sem berst þó áfram af seiglu með telpuna sína. Þegar Steinþór kemur inn í líf hennar fær tilvera hennar skyndilega nýjan tilgang. Hún er ástfangin af þessum blóðheita, tryllta manni og lætur sem hún sjái ekki að hann er mun hrifnari af dóttur hennar en henni sjálfri. Blásið er til brúðkaups á laugardag fyrir páska en Steinþór stingur af áður en til þess kemur. Þá brotnar Sigurlína endanlega niður og hverfur. Þorpsbúar fara að ganga fjörur og finna hana drukknaða. Halldór lýsir af mikilli nákvæmni óhugnanlegu útliti sjórekins líks.
Kaupmannssonurinn sparkar laust í kvið líksins og segir „nei, hvað er stór á henni bumban“. Kviðurinn dúar og uppí munninn koma vatnsbólur og leðja flýtur um annað munnvikið.
Ein þekktasta og merkilegasta persóna Brekkukotsannáls er Garðar stórsöngvari Hólm. Hann er fulltrúi þeirra Íslendinga á erlendri grund sem eru alltaf við það að slá í gegn. Þjóðin bíður í ofvæni eftir því að hann springi út eins fífill í hlaðvarpa og syngi jafn vel og sagt er að hann geri. En söngvarinn kemur sér alltaf undan væntingum og hverfur af landi brott þegar hæst stendur í stönginni. Garðar Hólm er alltaf á flótta. En smám saman þynnist blekkingavefurinn og Garðar Hólm er afhjúpaður sem loddari. Hann er búinn að draga á tálar dóttur kaupmannsins sem hefur greitt götu hans fram að þessu.
Á þeirri stundu tekur hann þá ákvörðun að fyrirfara sér. Hann fer niður á Eyri og fær leyfi hjá eftirlitsmanninum til að deyja í klefa hans. Hann tekur upp úr vasa sínum nokkur hylki sem hann tekur inn og deyr. Sjálfsvíg Garðars er í eðlilegu samhengi við söguþráð bókarinnar. Áhugamenn um sjálfsvíg skynja vel örvinglan Garðars áður en hann ákveður endanlega að yfirgefa þetta líf en greinilega er hann búinn að vera lengi í tilhlaupinu.
Þriðja dramatíska sjálfsvígið í bókum Halldórs eru nöturleg endalok Ólafs Kárasonar Ljósvíkings. Bækurnar fjórar um Ljósvíkinginn fylgja dapurlegri ævi og basli skáldsins. Ólafur fær aldrei stúlkuna sem hann elskar en býr lengi með flogaveikum vesaling og eignast með henni fjölda barna. Hann gerir sig sekann um að hafa kynferðislegt samneyti við ungan nemanda sinn og situr inni í fangelsi um tíma. Eftir það gengur hann á jökulinn og hverfur inn í hann og samsamar sig landinu. Ólafur fyrirfer sér þegar fokið er í öll skjól og ekkert framundan. Draumar skáldsins eru allir brostnir og búið að útskúfa honum úr ríki lifenda. Bókin öll er drög að sjálfsvígi sem lesandinn skynjar fljótlega að hljóti að verða endalok þessa óhamingjusama skálds.
„Öll þessi þrjú sjálfsvíg sem Halldór lýsir í bókum sínum eru mjög dæmigerð. Sigurlína, Garðar og Ólafur gefast öll upp fyrir ógnarþunga örlaga sem þau rísa engan veginn undir.“
Öll þessi þrjú sjálfsvíg sem Halldór lýsir í bókum sínum eru mjög dæmigerð. Sigurlína, Garðar og Ólafur gefast öll upp fyrir ógnarþunga örlaga sem þau rísa engan veginn undir. Lífið býður þeim ekki upp á marga valkosti þegar dregur að endalokunum og þau velja öll að hverfa af vettvangi með einhverri reisn. En allt snýst upp í andhverfu sína og Halldór lýsir afskiptaleysi umhverfisins gagnvart hinum látnu. Lík Sigurlínu fær háðulega meðferð, Garðar deyr einn og yfirgefinn, Ólafur hverfur inn í móðuna. Ekkert þeirra tilheyrir samfélaginu heldur eru þau öll utangarðs og utanveltu hvert á sinn veg. Öll hafa þau þá tilfinningu að heiminum muni vegna betur að þeim gengnum. Einmanaleiki og andleg kröm þeirra allra er kennileiti bókanna.
Hvernig hefðu nútímageðlækningar tekið á málum þessara óhamingjusömu þremenninga?
Sigurlína í Mararbúð hefði verið sett á stóra skammta af róandi og þunglyndislyfjum og mögulega sofið af sér versta þunglyndið. Hún hefði sennilega verið lögð inn á geðdeild um tíma og fengið viðtalsmeðferð við sálfræðing og félagsráðgjafa til að ræða sín mál. Salka Valka hefði farið undir verndarvæng barnaverndarnefndar þegar upp hefði komist um glæpsamlegt atferli Steinþórs. Sennilega hefði tekist að bjarga Sigurlínu út úr þessari sálarkreppu.
Garðar Hólm hefði varist læknum og sálfræðingum fimlega enda talið þjónustu þeirra langt fyrir neðan sína virðingu. Hætt er við að hann hefði aldrei gefið færi á neins konar hjálp sér til handa og fyrirfarið sér saddur lífdaga, einn á dapurlegum stað.
Ólafur Kárason hefði átt erfitt uppdráttar í nútímasamfélagi með dóm fyrir kynferðisafbrot á herðunum. Ritverk hans hefðu ekki selst og honum hefðu verið allar bjargir bannaðar í fjölmiðlum. Hann hefði verið sviptur starfslaunum rithöfunda og farið á vonarvöl. Ég held að Ólafur hefði leitað sér hjálpar hjá læknum og sálfræðingum en vafasamt hvort tekist hefði að vekja hjá honum einhverja lífsvon. Menn hefðu reynt að gefa honum þunglyndislyf og geðlyf og mögulega lagt hann inn á geðdeild til bjarga honum frá sjálfum sér en árangur alls þessa hefði verið óviss.
Niðurstaða: Nútímageðlækningar hefðu sennilega getað bjargað Sigurlínu, Garðar hefði fyrirfarið sér en endalok Ólafs eru óviss. Þessi óvísindalegi leikur með skáldsagnapersónur Halldórs sýnir hversu erfitt getur reynst að ná til allra sjálfsvegenda. Ómögulegt er að koma í veg fyrir öll sjálfsvíg. Alltaf munu vera til menn eins og Garðar Hólm sem velja að taka málin í sínar eigin hendur og enginn mannlegur máttur fær bjargað frá þeim örlögum sem þeir kjósa sér sjálfir.
Athugasemdir